laugardagur, 30. janúar 2021

Uppstilling

Í gær fór ég fyrr úr vinnunni til að fara í blóðprufu á Landspítalanum og sækja krabbameinslyfin mín. Hitti indælis stöðumælaverði þar sem ég stóð og reyndi að skrá bílinn minn í stæði við spítalann, þeir bentu mér á hvar ég gæti lagt án þess að borga í stöðumæli. Fín ábending fyrir konu sem á enn eftir nokkrar ófarnar ferðir á sama stað.

Fór í góðann, langann göngutúr í dag. Einhvers staðar á leiðinni fann ég að ég var hætt að finna fyrir 3 tám á vinstri fæti. Jú, það var kalt í dag. Mér var engu að síður hlýtt á rösklegri göngunni, þ.e.a.s. fyrir utan nef og kinnar. Já og áður umræddar tær á vinstri fæti. Heimkomin gaf ég kisunum af fisknum sem ég sauð kvöldinu áður, þau kröfðust þess bæði, í alvöru talað. Ákvað að fara út með ruslið áður en ég færi úr skónum og Birta ákvað að fylgja mér, Bjössi matmaður hélt sig við fiskinn. Þar sem við Birta komum gangandi til baka sáum við mann munda myndavél og enn stærri linsu að ungri konu upp við húsvegginn á blokkinni, við fætur konunnar stillti sér upp enginn annar en svarti og hvíti kötturinn hann Bjössi. Við Birta sprungum úr hlátri. Ég reyndi að kalla á Bjössa en hann hélt sinni módel pósu og lét sem hann sæi mig ekki. Ljósmyndarinn sneri sér að mér og kallaði; þessi köttur er æði!

Búin að fá mér Negroni og sit núna og hlusta á plötu með David Bowie sem ég keypti eitt sinn í Safnarabúðinni forðum daga. Er enn með hroll eftir göngutúrinn áðan. Krabbameinslæknirinn sagði mér að einn af fylgifiskum lyfjameðferðar væri að finna til kuldar, innvortis hrolli og kuldadofnum fingrum og tám. Með mínar þröngu háræðar hef ég aldeilis fengið að finna fyrir dofnum fingrum og tám allt mitt líf, ef þetta verða einu aukaverkanirnar þá er ég sátt. 

Bjössi hins vegar lætur ekki sjá sig, hann er kannski kominn langleiðina á sýningarpallana í Mílano með sín fyrirsætugen. Kannski kona sjái hann bara næst á forsíðu Parísar Vogue. Ja, ég legg bara ekki meira á ykkur að sinni.

föstudagur, 22. janúar 2021

Reyk skynjun síðari

Hrökk upp með andfælum og vissi um leið að ég hafði sofið yfir mig og ætti að vera mætt til vinnu, alveg þar til ég áttaði mig á því að ég hafði farið heim 2 tímum fyrr og lagt mig á sófanum. Eftir mánaðarlangt veikindafrí átti ég ekki von á að þurfa að leggja mig á föstudegi eftir 3 vinnudaga en raunin varð engu að síður sú.

Fyrir margt löngu sá ég konu hrynja niður stigann á skemmtistaðnum Boston, eftir veltuna stóð konan upp og labbaði burt eins og ekkert hefði í skorist. Konan var töluvert ölvuð. Ef ég hefði verið ölvuð s.l. mánudagskvöld þá hefði kannski ekki verið svona vont að detta af stól, allavega ekki fyrr en daginn eftir. Marblettir á öxl, baki og mjöðm hafa bæst í flóruna en kinnin sloppið, sem betur fer, eins og það sé nú ekki nóg að ég treysti örfáum, útvöldum vinum hér fyrir óförum frúarinnar þó hún þyrfti ekki að auki að útskýra marblett á kinn fyrir alþjóð.

Systir mín á sextugsaldri hló að mér og sagði mér að ég væri orðin óttalega miðaldra. Hin systir mín á sextugsaldri hringdi til að segja mér að hún hefði líka dottið þennann sama dag, í hálku. Faðir minn hringdi og spurði hvers vegna ég hefði ekki notað tröppuna sem hann keypti handa mér þegar ég flutti hingað inn? Pabbi, ég hafði engann tíma til að fara inn í þvottahús að sækja tröppuna. Af hverju ekki? spurði pabbi. Ég var að flýta mér. Já, þú átt það nú til að vera fljótfær og framkvæma á undan huganum sagði pabbi. Hvað meinaru pabbi, ég varð að drífa mig að þagga niður þetta skerandi píp! Af hverju? Hvað hefði svo sem getað gerst? spurði pabbi. Nú, það hefði einhver getað hringt á slökkviliðið! Leyfðu þeim þá bara að gera það svaraði pabbi, viltu lofa mér því Katla mín að næst þegar reykskynjarinn fer í gang að taka því rólega og sækja tröppuna í þvottahúsið.

Í kvöld mýkti ég skalottlauk í ólafíuolíu, bætti skorinni vanillustöng útí og slatta af hvítvíni sem sauð niður áður en ég hellti rjóma í samsætið. Steikti rósakál í smjöri og fleygði nokkrum chilliflögum yfir. Bakaði silungsflak í ofninum og setti soldið smjör útí sósuna. Hafði engar áhyggjur af reykskynjaranum, hann liggur enn brotinn á skenknum.

þriðjudagur, 19. janúar 2021

Óbrotið mar

Við eldamennsku gærkvöldsins stóð reykjarstrókurinn ekki bara uppúr hausnum á mér heldur matnum líka, svo duglega að reykskynjarinn á ganginum tók við sér. Ég rauk að sjálfsögðu af stað með einn eldhússtólinn til að stöðva skerandi pípið. Í því sem ég sný reykskynjarann af tekst mér um leið að snúa sjálfri mér af stólnum og af því að ég geri allt með stæl þá lá ég kylliflöt á gólfinu á eftir. 

Ég sem hafði hugsað mér að mæta aftur til vinnu í morgun eftir mánaðarlangt veikindafrí hætti að reyna að troða mér í skóinn, hugsaði með mér að einn dagur til eða frá skipti kannski ekki öllu máli. Stóra táin er óbrotin, það þykist ég vita af fenginni tábrotareynslu, engu að síður hef ég haltrað hér innanhúss í allan dag. Þumallinn er líka óbrotinn en helvíti aumur, ekki ólíklegt að ég finni meira fyrir þeim eymslum þar sem um hægri þumal er að ræða. Já, að sjálfsögðu er ég rétthent, ef ég væri örvhent þá hefði það verið vinstri þumallinn, segir sig sjálft. Mér er líka illt í únliðnum og kinninni en sem betur fer eru bara marblettir á handleggnum og lærinu.

Ég nenni ekki að gúggla það en gerast ekki flest slys innan heimilisins? Ég tók allavega engann sjéns í kvöld, át kalt kúskúsið frá eldamennsku gærkvöldsins. Reykskynjarinn liggur ómarinn en brotinn á skenknum. Þar hafið þið það.