miðvikudagur, 6. október 2010

Skyn-

Deginum hefði átt að vera varið í lærdóm en mér leiðist að vera skynsöm á frídegi. Í staðinn fyrir spænsku gaufaðist ég um á náttkjólnum til tvö, dundaði mér við að drekka kaffi, klappa kettinum og lesa smásögu. Þegar skynsemin loks taldi mér trú um að best væri að troða sér í leppa ákvað óskynsemin að labba maskaralaus niður í bæ. Keypti vatnsbláa froska í Tæger, uppáhalds blaðið mitt í Iðu, borðaði lakkrís á Laugaveginum og sötraði latte á C is for cookie í grænum hægindastól. Gekk bærilega að hugsa lítið um vinnuna sem gleypt hefur tíma minn til þessa. Held mér hafi tekist að gleðja ástina mína með vísukorni og gjöf. Þá er dagurinn líka fullkominn með ýmsum gerðum af skyn og semi.