mánudagur, 30. apríl 2018

Sibba og Gummi

Farsíminn hringir. Þekki ekki númerið svo ég svara;

K: Katla.
J: Já, góðan daginn, Jeff heiti ég og hringi frá Símanum.
K: Sæll.
J: Sæl, ég var að vonast til að ná á Sigurbjörgu.
K: Þú ert að tala við hana.
J: Ha?
K: Ég heiti Sigurbjörg Katla.
J: Já, akkúrat, afsakaðu.
K: *þögn*
J: Já, ég var sumsé að skoða áskriftina ykkar Guðmundar og sé að þið eru með blablabla, bliblibli og mig langar til að bjóða ykkur Guðmundi blobloblo, blehblehbleh
K: Fyrirgefðu en væri ekki ráð að þú sendir mér tölvupóst varðandi þetta svo við Gummi getum skoðað þetta saman.
J: Jú, að sjálfsögðu, ég fæ þá kannski að hringja svo í þig aftur eftir nokkra daga?
K: Slærðu ekki bara á þráðinn til Gumma?

Nú mun ég bíða spennt eftir að heyra hvort Jeff eigi eftir að hringja í Guðmund Pétur, eiginmann minn eða hvort hann muni hringja í Guðmund Helga, fyrrverandi sambýlismann minn. Væri gaman ef hann hringdi í þann síðarnefnda, sér í lagi ef núverandi sambýliskona þáverandi myndi svara í símann, hún heitir nefnilega líka Sigurbjörg.

sunnudagur, 29. apríl 2018

Af sérkennilegri birtu í Kjós eða þannig

Það var eiginlega skrýtið að taka beygjuna inn afleggjarann að Meðalfellsvatni í birtu og blíðu á föstudagskveldi. Engu að síður var það næstum því eins og að koma heim þegar við bárum dótið inn í Krókinn, Eyjakrókinn okkar sem við myndarlegi heimsækjum helst tvisvar á ári. 

Hér við vatnið höfum við ófáa máltíðina mallað og ýmislegt brallað saman tvö. Hér höfum við hámað í okkur bækur, lært undir próf, drukkið áfengi af ýmsum toga og iðulega hlaupið nakin í pottinn (nei, það hefur ekkert með áfengið að gera). 

Af hverju hlaupum við svo í pottinn, gætuð þið spurt? Jú, vegna þess að það er nær undantekningarlaust alltaf veður þegar við myndarlegi erum hér. Hingað höfum við ekið í rigningu, slyddu, snjó og hríð. Ávalt í myrkri. Höfum aldrei farið útá vatnið í bát en nokkrum sinnum gengið það á ís.

Hingað komum við ávalt hlaðin bókum og mat og drykk með náttföt og hlýja sokka. Einu sinni séð stjörnufylltan himinn í heita pottinum. Það var dýrtíð. Aldrei að vita nema við náum því aftur einhverju sinni. Hingað til höfum við þó alltaf náð öllum prófum sem við höfum lært undir hér, meira að segja stærðfræðiprófinu sem ég tók hér um árið. Þá er nú mikið sagt.

Það er líka eitthvað svo gott við að kúldrast hér í veðri, kúpla sig út frá restinni af tilverunni, sökkva sér í bækur, skrifa bréf til fjarlægra landa, sitja í heita pottinum með kalt nef og jafnvel hvin í eyrum, kósa sig undir teppi með myndarlegum manni, kannski kalt á tánum já en hlýtt í hjartanu.

Get ekkert útskýrt þetta neitt betur eða  meira.

föstudagur, 27. apríl 2018

Í rigningunni í Reykjavík í gær

sveif hugur frúarinnar til vorsins í París
Harrí á himnum hvað vorið í París er dásamlegt! Að vísu var hitabylgja síðustu helgi sem gerði það að verkum að vorið varð að hásumri og ég brann á fyrsta degi. Fékk eldrauðan kraga um hálsinn en kvartaði ekki, drakk bara kampavín í lítravís, spókaði mig um á götum Parísar í kjól, kyssti karlinn, góndi á turninn að degi, miðdegi, síðdegi og kvöldi, fékk mér tiramisú og sítrónusorbet, fór í uppáhalds búðina mína, mændi á Monet og fékk mér meira kampavín.

Meira dúndrið þetta Leggja-app. Fórum í Hörpu í gærkvöld og í staðinn fyrir að hanga í röð við maskínuna í bílakjallaranum stimplaði ég bílinn í stæði meðan sá myndarlegi lagði. Fórum á Amadeus, bíótónleika. Sinfónían spilaði undir og Mótettukórinn söng. Harrí á himnum hvað þetta var flott að kona tali nú ekki um myndina sjálfa! Ríflega 3 áratugum síðar er myndin enn skemmtilegri en þegar ég sá hana síðast. Viðurkenni fúslega að ég saknaði bróður míns en við sáum myndina saman þarna fyrir þessum örfáu árum. Sá myndarlegi kom þó svo sem ekki að sök, frekar en fyrri daginn, og ég mundi eftir því að afleggja tíkinni á appinu þegar við fórum.

Í dag skein svo sólin og lét eins og sumarið væri ekki bara komið á dagatalinu. Harrí á himnum hvað það var yndislegt, næstum eins og París, munaði bara um 20 stigum.

miðvikudagur, 25. apríl 2018

Kirk og allir hinir gríslingarnir

Mudd heyrðist öskrað úr stofunni þegar ég kom heim. Greinileg átök í gangi með svaðalegum svoossh-hljóðum. Captain kallar einhver meðan ég fer úr skónum. Dramatísk tónlist læðist í hlustirnar. Commander, this is my ship svarar hugsanlega kafteinninn meðan ég legg pokann með þorskhnakkanum á eldhúsborðið. Dramatísk tónlistin magnast. This is gonna hurt segir einhver (kannski þessi Mödd) er ég fikra mig í áttina að stofunni. Dramatíska tónlistin stigmagnast enn og sá myndarlegi lítur ekki af sjónvarpinu er ég stíg inn í stofuna. 

*Kabúmm* (sprenging sumsé) og ég rétt næ að smella kossi á karlinn áður en þanin strengjatónlist fyllir neðri hæð hússins. Sé sæng mína útbreidda og læðist á tánum út úr stofunni. 

Það hefur heldur ekkert uppá sig að reyna að ná jarðsambandi við miðaldra karlmann sem er djúpt sokkinn í Star-Trek á nýtilkomnu Netflixi heimilisins. 

Einu sinni Trekkari, ávalt Trekkari. Eða svo er mér sagt.

þriðjudagur, 24. apríl 2018

Katla keppnis

Ef einhver hefði sagt við mig áður en ég byrjaði á þessu leikfiminámskeiði að ég væri með keppnisskap hefði ég hlegið uppí opið geðið á þeirri manneskju. Í fyrsta sinn á ævinni finn ég svoleiðis skap blossa upp í mér og taka yfir alla skynsemi hvort sem ég er að hjóla, lyfta lóðum eða hnébeygjast. Keyri sjálfa mig áfram titrandi á fótunum í enn eina lyftuna, læt þjálfarann síhvetjandi hvetja mig í gegnum einn sprettinn enn. Satt að segja kemur þetta mér í opna skjöldu og ég er ekki alveg búin að átta mig á því hvernig ég eigi að taka þessum nýfundnu keppnisskapbrestum.

Hafið þið heyrt um mæsón? Nei, ekki ég heldur en ég lét mig samt hafa það að kaupa svoleiðis græju í gær. Þetta apparat á víst að mæla púls og allslags púl og má nota hvenær sem er og hvar sem er, jafnvel í sundi hvað þá annað. Nema mér gekk eitthvað brösulega að koma þessu í gang hjá mér fyrir tímann í gær, kom bara óþekkt númer í staðinn fyrir nafnið mitt á skjáinn en þjálfarinn fullvissaði mig um að það væri allt í góðu, tækið væri í gangi og við myndum svo bara græja rest eftir tímann. Svo ég stökk bara uppá hjólið (eða svona næstum því) og byrjaði að hjóla upp ímyndaðar brekkur, þyngja og létta, taka spretti og allt heila klabbið. 

Nema hvað keppnisskapið snarversnaði með tilkomu græjunnar. Ég hlýddi skipunum þjálfarans um að hjóla (sitjandi) og skokka (hjóla standandi) og hamaðist eins og enginn væri morgundagurinn. 

Síðustu sprettloturnar fimm þegar þjálfarinn sagði okkur að keyra þetta áfram og klára okkur, ekki spara okkur, sneri ég pedulunum eins og ég væri andsetin og hjólaði mig sótrauða í framan. 

Eftir tímann var ég nokkuð roggin með mig þrátt fyrir að hafa víst óvart stimplað inn eina vitlausa tölu í græjuna sem útskýrði víst af hverju nafnið mitt kom aldrei upp. Þjálfarinn síhvetjandi gíraði mig líka upp með því að hrósa mér fyrir að taka svona vel á því og hvað ég hefði verið með flottan púls og ég veit ekki hvað og hvað nema æfingin skilaði sér ekkert í símann minn.

Síðan í gær er ég búin að rífresha appið á c.a. kortersfresti en það er með snúð og lætur eins og engin æfing hafi átt sér stað. Konu getur nú sárnað, skal ég segja ykkur.

Ætla samt að mæta með græjuna í hnébeygjurnar á eftir. Helvítis keppnisskapið gefur ekkert eftir með það.

miðvikudagur, 11. apríl 2018

Á þeim joggingbuxunum

Ég er byrjuð í ræktinni. Var komin með samviskusting af hreyfingarleysi og keypti mig inná eitthvert námskeið sem á að vera sjúklega fjölbreytt og svo stútfullt af hreysti að ég má eiga von á því að geisla af orku vel fram á haustið, ef ekki lengur. Mætti galvösk í fyrsta tímann í fyrradag, reyndist vera svona hjólatími. Kannski kallast þetta spinning en ég er þó ekki viss, hef aldrei farið í spinning. Hjóluðum ýmist sitjandi eða standandi, vorum sífellt að þyngja hjólið nema þegar við tókum "pásur" en þá léttum við hjólið í kannski svona mínútu, tókum víst spretti og einhverjar mismunandi æfingasessjónir en fyrir mitt leyti vorum við bara stanslaust að hjóla, allan tímann, líka í svokölluðum "pásum. Er það spinning? Allavega, eftir ca. korter var mér orðið illt í rassgatinu af hnakknum, samt fannst mér betra að hjóla sitjandi en standandi. Þegar tíminn var hálfnaður var ég farin að óttast um að ég myndi hrynja í gólfið þegar tíminn væri búinn. Þegar ca. 10 mínútur voru eftir var ég búin að ákveða að halda mér fast í hjólið þegar ég færi af því, bara svona til öryggis ef ég stæði ekki í lappirnar. Áhyggjurnar reyndust þó ástæðulausar, gat alveg teygt eftir tímann og labbað hjálparlaust niður í búningsklefa. Var ekki einu sinni með harðsperrur daginn eftir.

Í gær var ég svo aftur mætt, enn galvösk. Engin hjól í það skiptið, bara tvö sett af misþungum lóðum, lyftingastöng, pallur og dýna. Upphófust síðan hnébeygjurnar, framstigið, afturstigið, hnébeygjur, kviðæfingar, upplyftingar, hnébeygjur, grindarbotnsæfingar og ég veit ekki hvað og hvað nema konan fyrir framan mig var í einhverjum svona þröngum æfingabuxum og í hvert sinn sem hún beygði sig (og þær voru sko ekkert ófáar hnébeygjurnar) þá teygðust buxurnar svoleiðis yfir rassinn að það var hreinlega eins og hún væri bara ekkert í buxum. Sjálf er ég náttúrulega annálaður lopasokkur og þekki ekkert inná þessa líkamsræktartízku nema um miðbik tímans var ég farin að hugsa heldur hlýlega til hjólatímans kvöldinu á undan. Þjálfarinn hélt áfram að kyrja eitthvað um að gera bara svona æfingu eða hinseginn eitthvað ef við værum orðnar þreyttar í handleggjunum en það var bara ekkert að angra mig neitt, það voru hnébeygjurnar endalausu sem ætluðu með mig lifandi að fara. Þegar ca. 10 mínútur voru eftir að þessum tíma voru lappirnar á mér farnar að titra og ég þakkaði mínum sæla fyrir að vera bara í þægilega víðum joggingbuxum þar sem bífurnar á mér fengu að skjálfa óáreittar. Komst alveg hjálparlaust niður í búningsklefann og í sturtuna sko en var samt farin að sjá það fyrir mér að ég yrði að hringja í bræðurna morguninn eftir og segja þeim að ég kæmist bara ekki til vinnu þar sem ég ætti ekki eftir að standa í lappirnar.

En, ég lét mig hafa það að mæta í morgun. Harðsperrur dagsins voru ekki nærri því eins svínslegar og ég átti von á. Fann satt að segja ekkert fyrir þeim þar sem ég sat á mínum skrifstofustól.

fimmtudagur, 5. apríl 2018

Af sól og sólargeislum

Gekk fram á sólarþyrsta Íslendinga á heimlabbi mínu úr vinnu. Dágóður hópur samankominn við Austurvöll, konur og karlar sem ýmist teyguðu bjór eða dreyptu á hvítvínsglasi, svolgruðu í sig sólarylinn kappklædd í kuldanum. Sjálf var ég með sólgleraugu á nefinu og tvívafinn þykkan trefil um hálsinn. 

Sötraði bjór meðan kartöflur, laukur og paprika lúrðu á pönnu. Sá myndarlegi, sem var í ræktinni, sendi mér sms þegar hann var á leið í pottinn. Gekk út á verönd og hugsaði með mér að það væri vel hægt að sitja úti, í yfirhöfn að sjálfsögðu, en gaf það uppá bátinn þegar ég tók eftir litlu snjóhrúgunum sem lifa góðu lífi þar enn. Bætti dagsgömlum hrísgrjónum við pönnusamsætið. Setti Ninu Simone á fóninn. 

Þegar sá myndarlegi gekk inn um Samtúnsdyrnar braut ég egg á pönnuna og hrærði öllu gumsinu vel saman. Fann afgang af rifnum osti í ísskápnum sem ég dreifði yfir rétt áður en ég jós þessum "uppúrmér" rétti yfir á hvíta skállengju sem að vinkonur mínar færðu mér að gjöf í einhverju allt öðru lífi. 

Man að í því lífi bjó ég í ókláruðu einbýlishúsi og ég bauð þessum vinkonuhópi í mat (allar nema ein eru enn vinkonur mínar í dag (held samt að það hafi ekkert með matinn að gera (sko))). Man líka að ég var nýbúin að láta lita á mér hárið (hef einungis tvisvar gert slíkt á ævinni) í einhverjum karamellubrúnum lit og láta klippa á mig stuttann topp. Minnist þess líka að við vinkonurnar hafi drukkið vel af rauðvíni, talað mikið og hlegið enn meira. Man að þegar þáverandi sambýlismaður minn kom heim fengum við hann til að keyra okkur niður í bæ. Fórum á bar (sem er ekki til í dag) og drukkum skot og töluðum um menn sem eru ekki einu sinni partur af lífi okkar í dag, gáfum bút af okkur sjálfum, hlógum, vorum fullar, drukkum meira af skotum, dönsuðum, hlógum meira.

Mamma og pabbi gáfu okkur Pétri páskaegg þessa páskana, málshátturinn er svo hljóðandi: ekki vantar vini, meðan vel gengur. Kannski er það þannig. Sjálf hef ég aldrei átt marga vini en ég á vini sem hafa haldið þeirri áráttu til streitu að vera vinir mínir þrátt fyrir alla þá misbresti sem eina konu getur prýtt. Fyrir það er ég óhemju þakklát.