þriðjudagur, 24. apríl 2018

Katla keppnis

Ef einhver hefði sagt við mig áður en ég byrjaði á þessu leikfiminámskeiði að ég væri með keppnisskap hefði ég hlegið uppí opið geðið á þeirri manneskju. Í fyrsta sinn á ævinni finn ég svoleiðis skap blossa upp í mér og taka yfir alla skynsemi hvort sem ég er að hjóla, lyfta lóðum eða hnébeygjast. Keyri sjálfa mig áfram titrandi á fótunum í enn eina lyftuna, læt þjálfarann síhvetjandi hvetja mig í gegnum einn sprettinn enn. Satt að segja kemur þetta mér í opna skjöldu og ég er ekki alveg búin að átta mig á því hvernig ég eigi að taka þessum nýfundnu keppnisskapbrestum.

Hafið þið heyrt um mæsón? Nei, ekki ég heldur en ég lét mig samt hafa það að kaupa svoleiðis græju í gær. Þetta apparat á víst að mæla púls og allslags púl og má nota hvenær sem er og hvar sem er, jafnvel í sundi hvað þá annað. Nema mér gekk eitthvað brösulega að koma þessu í gang hjá mér fyrir tímann í gær, kom bara óþekkt númer í staðinn fyrir nafnið mitt á skjáinn en þjálfarinn fullvissaði mig um að það væri allt í góðu, tækið væri í gangi og við myndum svo bara græja rest eftir tímann. Svo ég stökk bara uppá hjólið (eða svona næstum því) og byrjaði að hjóla upp ímyndaðar brekkur, þyngja og létta, taka spretti og allt heila klabbið. 

Nema hvað keppnisskapið snarversnaði með tilkomu græjunnar. Ég hlýddi skipunum þjálfarans um að hjóla (sitjandi) og skokka (hjóla standandi) og hamaðist eins og enginn væri morgundagurinn. 

Síðustu sprettloturnar fimm þegar þjálfarinn sagði okkur að keyra þetta áfram og klára okkur, ekki spara okkur, sneri ég pedulunum eins og ég væri andsetin og hjólaði mig sótrauða í framan. 

Eftir tímann var ég nokkuð roggin með mig þrátt fyrir að hafa víst óvart stimplað inn eina vitlausa tölu í græjuna sem útskýrði víst af hverju nafnið mitt kom aldrei upp. Þjálfarinn síhvetjandi gíraði mig líka upp með því að hrósa mér fyrir að taka svona vel á því og hvað ég hefði verið með flottan púls og ég veit ekki hvað og hvað nema æfingin skilaði sér ekkert í símann minn.

Síðan í gær er ég búin að rífresha appið á c.a. kortersfresti en það er með snúð og lætur eins og engin æfing hafi átt sér stað. Konu getur nú sárnað, skal ég segja ykkur.

Ætla samt að mæta með græjuna í hnébeygjurnar á eftir. Helvítis keppnisskapið gefur ekkert eftir með það.

Engin ummæli: