föstudagur, 2. júní 2023

Egg og beikon í morgunmat

Skurninn á frönskum eggjum er harðari en á þeim íslensku. Í ófá skiptin sem ég steiki egg, og ég steiki oft egg, þá lendi ég í tómu tjóni við að brjóta skurninn og enda of oft á því að sprengja rauðuna sem er meira en bagalegt þar sem sem rauðan er uppáhalds parturinn minn af egginu. Það liggur því í augum uppi að franskur skurn hljóti að vera harðari en íslenskur skurn. Nema frúin sé harðhentari heima á Íslandi, getur það verið? Og ef svo er þýðir það þá að frúin sé linhentari í Frakklandi? Get umhugsunarlaust sagt ykkur að ég kýs linsoðin egg fram yfir harðsoðin en einu eggin sem ég myndi hugsanlega fúlsa við eru hrá egg. 

Franska beikonið skreppur meira saman en það íslenska í ofninum og tíminn í Frakklandi er alveg jafn fljótur að líða og tíminn heima. Lífsins gátur og leyndardómar og allt hitt gúmmið, þar hafið þið það.

fimmtudagur, 1. júní 2023

Franskir dagar frúarinnar

Í fyrradag hringdi ég í mömmu til að óska henni til hamingju með afmælið. Var nokkurn veginn líka að elda á sama tíma, svo kölluð löng eldamennska. Símtalið við mömmu var stutt, rétt um 1,5 klukkutími, ekki neitt neitt og það á afmælisdegi og eldamennskan töluvert lengri. 

Í gær voru tvö ár liðin síðan ég kom heim í Veghús um miðjan dag, opnaði kampavín og skálaði við sjálfa mig og kettina. Tilefnið og enda ærið, úrskurðuð krabbalaus af doktor krabba. Krabbameinið var mikilvægur hlekkur í keðju tannhjóls sem enn snýst en þrátt fyrir að eiga kælda ekkju í ísskápnum þá datt mér ekki einu sinni til hugar að skála fyrir gærdeginum. Óhuggulegt til þess að hugsa að frúin sé orðin svona lingeðja af búsetu sinni erlendis.

Í morgun var espresso kannan með uppsteyt, í staðinn fyrir að spúa kaffi upp um stútinn rétt lympaðist kaffilituð froða þar upp, vatnsgufan stímaði hins vegar af fullum krafti út um ventilinn á hlið könnunar. Afraksturinn varð því rétt um einn bolli, í minni kantinum, og rótsterkur jafnvel fyrir sjóaða kaffidrykkjukonu sem frúin þó er. Könnuna keypti ég í Monoprix fyrir ekki svo löngu og nú þegar hef ég gúgglað ýmsar ástæður og lausnir á vanda þessum sem liggur í augum uppi að er alvarlegur. Ég neyddist því til að hella uppá í morgun, vildi ekki betur til en svo að sá kaffisopi var lapþunnur.

Það er vandlifað í henni veröld og það getur reynst erfitt að vera manneskja, enda eru ekkert allir góðir í því. Þó er vert að hafa í huga að lífið er ekki bara leikur, það er líka dans á rósum.