miðvikudagur, 31. maí 2017

Af kvefleti og kartöflum

Ég er með kvef og það er leiðinlegt. Ó, hafið þið heyrt þennan áður? Kom heim úr vinnunni með þorskhnakka í töskunni. Núnú, líka heyrt þennan?  Jæja þá, ég nennti ekki að elda og ekki reyna að halda því fram að það hafið þið líka vitað.  

Letinnar vegna skar ég nokkrar kartöflur í búta, afgang af rauðlauk, nokkur hvítlauksrif í tvennt, saltaði, pipraði, klippti tvær greinar af rósmaríninu sem stendur í potti úti á verönd, dembdi slatta af ólífuolía yfir og henti inní ofn. Einfalt og þægilegt? Já. Bragðgott og ilmandi? Ójá!
Sólin skein (og skein ekki) og sá myndarlegi dútlaði við að koma kryddjurtum og salati haganlega fyrir í kassa hérna á veröndinni, haltraði nokkrar ferðir í safnhauginn að sækja mold, blásandi af elju og vinnusemi. Sjálf sat ég ekki auðum höndum þarna úti á verönd, togaði tappa úr flösku og lyfti glasi, dæsandi af leti
Er ég ekki annars örugglega búin að segja ykkur hvað mér finnst skemmtilegar kartöflur skemmtilegar?
Verið spök elskurnar og munið eftir skemmtilegu kartöflunum næst þegar þið farið í búðina.

mánudagur, 29. maí 2017

Gult og annað merkilegt stöff

Magga systir mín er alla jafna í svörtum fötum. Hún litar hárið á sér svart og er með svört gleraugu. Hvort sálin er jafn svört er ekki gott að segja en það mætti halda því fram að svart sé hennar uppáhaldslitur. Þó setur hún mjólk í kaffið og á það til að klæðast bláum gallabuxum. Mér krossbrá þegar hún mætti hingað í vinnuna til mín í heiðgulri regnkápu. Já, ég veit sagði hún, það var bara ekki til svört regnkápa svo ég keypti mér bara gula. Uppreisnarseggur sem hún systir mín er, sjálf var ég í rauðri regnkápu og skyldi engan undra.

Örkuðum af stað systurnar áleiðis í bæinn. Settumst inn á Apótekið og fengum okkur drykk. Áfengi með sítrónusafa og safa úr gulri papriku var samsetning sem ég gat ekki staðist, sumt verður kona einfaldlega að prófa. Fínasti drykkur og alveg í stíl við stílbrot sumra
Þessu næst lá leið okkar systra á Tapas barinn. Þar sem Margrét hafði aldrei svo mikið sem dýft tungu í Sangríu kom ekki annað til en að panta slíkan drykk. Íhuguðum alvarlega að skella okkur bara á könnu en afréðum þó að vera penar og fá okkur einungis sitt hvort glasið og bragða þá bæði hefðbundna Sangríu og hvítvíns
Pöntuðum okkar forréttaplatta fyrir tvo að deila og miðað við stærðina á Sangríu glösunum pöntuðum við bara tvo tapasrétti á mann þrátt fyrir að þjónustustúlkan indæla hefði mælt með fleirri réttum, sem betur fer, plattinn stóð enda á milli okkar systra á borðinu, í orðsins fyllstu, hlaðinn góðgæti. Þrátt fyrir að standa á blístri fengum við okkur af tapasréttunum en enduðum kvöldið á að biðja um hundapoka (hvað er annars gott orð yfir doggie bag á íslensku?).*

Af karlinum er það annars að frétta að í morgun keyrði ég hann í vinnuna. Já, ég sumsé keyrði hann út Samtúnið, bút af Nóatúni út í Borgartún, alla leið að Höfðatorgshorninu. Karlgarmurinn er að jafna sig eftir hnéaðgerð og gengur það býsn vel held ég. Liggjum núna bæði afvelta á sófanum, hann að jafna sig eftir fyrsta vinnudaginn eftir hnéaðgerð, ég að jafna mig eftir ofát. Legg ekki meira á ykkur hróin mín.    

*Vert er að taka fram að hundapoka var ekki þörf fyrir Sangríurnar en þær kláruðum við systur.

fimmtudagur, 25. maí 2017

Hjól og teipaður plastpoki

Á frídegi sem þessum teymdi ég fákinn út úr skúrnum og hjólaði í vinnuna. Það er auðvitað engin hemja að konan skuli snattast svona til einhvers kaupmanns á horninu eftir kjötsneið meðan hálf þjóðin berst um kerrur í Kostkó en mikið sem það er gaman að hjóla. Svo gaman að stíga fast á pedalana í háum gír, hjóla með rokið í fanginu, renna á miklum hraða niður brekkur, finna þytinn í eyrunum. Svo ekki gaman að fá flugu í augað, báðar á fullri ferð. Getið sveiað ykkur uppá að því langar mig ekki til að lenda í aftur.

Í dag aðstoðaði ég líka eiginmanninn við að teipa plastpoka utan um viðgerða hnéið á honum. Það sem karlhróið gladdist við að komast í sturtu eftir x daga frá aðgerð. 

Sælir eru einfaldir, ég segi ykkur það satt.

þriðjudagur, 23. maí 2017

Kammerför

Bróðir minn kom svo tímanlega að sækja mig á föstudagskvöldið síðasta að ég var rétt nýbyrjuð að úða í mig kvöldmatnum. Dreif mig að sjálfsögðu af stað* og var heldur undrandi á því hversu fá stæði voru laus í bílakjallara Hörpu. Fengum þó stæði og þar sem við vorum svona líka tímanleg örkuðum við beint á barinn. Þar sem við stóðum og kjöftuðum yfir hvítvínsglasi hafði ég á orði hvað það væri lítið af fólki mætt þarna í Hörpu. Fimm í tónleika höskuðum við okkur í átt að dyrunum, dyrum sem reyndust læstar. Komumst að raun um að tónleikahald hefði hafist hálftíma fyrr, hálftímanum sem við eyddum pollróleg yfir vínglasi og kjaftagangi. Alúðleg starfsstúlka hleypti okkur inn í salinn. Vorum rétt sest niður þegar komið var að hléi. Fékk mér annað glas af hvítvíni. Kammersveit Vínar og Berlínar sviku ekki þótt miðarnir okkar væru með kolrangri tímasetningu.

Bróðir minn kom svo aftur á laugardeginum og sótti mig. Brunuðum í blíðviðrinu til Borgarness. Sátum öxl við öxl á kirkjubekk ásamt okkar nánustu fjölskyldu. Fylgdum sómamanninum honum Jóni Sigurvini til grafar. Jóni hennar Imbu frænku. Drukkum kaffi og úðuðum í okkur brauðtertum og rjómatertum á eftir, göntuðumst, spjölluðum og hlógum með skyldfólkinu. Held hann Jósafat hefði ekki viljað hafa það neitt öðruvísi. Skrifaði Jósefína Baker í gestabókina. Jón kallaði mig sjaldan neinu öðru nafni.

Langar aftur í blíðviðri helgarinnar. Lífið er svo fallegt í sólskini, svo gaman að vera til í blíðu.

*Hef alltaf látið allt eftir honum**
**Nema reyndar eitt***
***Segi ykkur kannski frá því síðar

miðvikudagur, 17. maí 2017

Farfantar á símaakstri

Þið þekkið þennan bílstjóra, er það ekki? Hann er lengi að taka við sér á ljósum. Ökulagið er skrykkjótt, hann keyrir kannski löturhægt en gefur svo duglega í. Hann er lengi að stöðva bílinn við rautt ljós, stöðvar hann jafnvel í 3ja bíla fjarlægð frá bílnum á undan. Þú sérð í baksýnisspeglinum að bílstjórinn horfir niður, svo lítur hann skyndilega upp og þá keyrir hann að bílnum fyrir framan og stoppar þar, lítur aftur niður. Hann keyrir ískyggilega nálægt akreininni á móti, fer jafnvel yfir á hana. Já krakkar, ég er að tala um þetta lið sem leyfir sér að vera í símanum á keyrslu, sem sendir sms / fer á facebook / skoðar myndir á instagram eða hvað svo sem á meðan það keyrir bíl! Eða, þykist öllu heldur keyra bíl, í rauninni er þetta lið bara í símanum. 

Las þessa frétt í gær. Kannski er ég bara svona illa innrætt en ég gleðst yfir því þegar fólk er látið axla ábyrgð, sína eigin í þokkabót. Satt að segja vekur það hjá mér ónotatilfinningu að finnast ekki lengur neitt sérstakt tiltökumál þegar fólk er bara að tala í símann undir stýri.

Á árdögum farsímanna keyrði ég samhliða manni á Sæbrautinni sem var ekki bara að tala í símann, á vinstri akrein, heldur var hann líka að borða. Sumsé, hann notaði vinstri öxlina til að styðja við símann (ekki mikið um handfrjálsann búnað þá), var með salat í plastboxi á hægra læri (við erum ekki að tala um neina Sóma samloku krakkar), úðaði upp í sig með plastgaffli milli þess sem hann talaði og "keyrði" bílinn með ýmist vinstra hnénu eða hægri hendi (eftir því hvernig á stóð).

Viðurkenni fúslega að mér verður stundum hugsað til hans þegar ég pirra mig á farsímaökuföntum, hvernig ætli hann keyri bíl í dag?

Að blogga

er góð skemmtun. Skemmtun sem þó virðist vera á undanhaldi. Stór hópur af bloggurum sem ég áður fylgdist með er hættur að blogga. Ég er þó svo heppinn að eiga annan hóp af bloggurum sem enn eru iðnir við bloggkolann. Meira að segja stálheppin því um helgina hitti ég þetta frábæra fólk og drakk kaffi með því, talaði um lífsins mál og gerði skil á mikilivægi þess að hlægja mikið. Fyrirtaks samvera.

mánudagur, 15. maí 2017

Vasabrot helgarinnar

Kom heim eftir vinnu í blálok þarsíðustu viku og fann uppáhalds vasann minn í molum á stofugólfinu
Liggur beinast við að skella skuldinni á köttinn, varla hefur karlinn verið að gera sig breiðann í gluggakistunni. Þeir eru víst bara tveir sambýlingarnir.

Eftir 17 ára sambúð með kettinum veit ég að það hefur lítið uppá sig að ræða þessi vasamál við hann og ekki hef ég brjóst í mér að reiðast honum, ræskninu, þó vissulega hafi vasinn hennar ömmu minnar verið mér kær. 

Helgin var hreint prýðileg, kláraði t.d. að ryksuga og skúraði gólfin. Drakk rauðvín frá Spáni með foreldrum mínum og kjaftaði við þau um allslags stöff, m.a. hluti sem koma spánskt fyrir sjónir. Drakk ekki deigan kaffidropa í rúminu enda eiginmaðurinn fjarri góðu gamni í allt öðru góðu gamni. Fór í göngutúr með pabba mínum. Sat við eldhúsborðið í 3 klstundir og kjaftaði við systur mína sem kom óvænt í heimsókn (já, það er til fólk sem gerir ennþá svoleiðis). Ætlaði að horfa á Júróvisjón með foreldrunum en okkur tókst að sofa hana af okkur, hlið við hlið í sófanum. Borðaði hádegisverð á Geira Smart með mömmu og pabba smart. Keypti mér rauða blússu, afar smarta þó ég segi sjálf frá. Endurheimti þann myndarlega úr strákaferð.

Helgina þar á undan var ég sjálf í bústað með eintómum kerlingum sem prjónuðu, töluðu frá sér allt vit og prjónuðu svo meira. Myndarlegi eiginmaðurinn sat heima og dundaði sér við að púsla saman vasanum. Hvort honum hefur leiðst svona ógurlega í fjarveru frúarinnar er ekki gott að segja. Vasanum verður ekki tjaslað saman með neinu góðu móti, sprunginn og skörðóttur og vantar í hann búta. Minningin um ömmu býr heldur ekki í einum brothættum hlut, hún lifir prýðis lífi í hugskoti mínu. 

Mér finnst kallinn bara sætur að nenna að dunda þetta við fyrirfram mistakaverk til þess eins að kæta frúnna.

föstudagur, 12. maí 2017

Með-í-virkni

Ryksugan var enn á stigapallinum þegar karlinn kom heim í gær. Ég hafði vissulega hugsað mér að klára þrifin í gærkveldi en mér var boðið á fund um meðvirkni og gat ekki neitað því (meðvirknin alveg að fara með mig).

Gott annars að fá karlinn heim, svo  gott að hann er aftur rokinn að heiman. Sá fram á góða helgi þar sem ég gæti vafrað hér ein um tóman kofann en ónei, foreldrarnir eru mætt á svæðið og ætla ekki bara að gista eina nótt heldur þrjár nætur. Gat ekki neitað þeim. Meðvirkni ríður ekki við einteyming börnin góð.

miðvikudagur, 10. maí 2017

Svöl Svala

Búin að þurrka af öllu hátt og lágt, skrúbba klósett og skola vaska á báðum hæðum. Ryksugaði efri hæðina undir vökulum glyrnum kattarins. Hamaðist við að ryksjúga teppalagðan stigann þegar það rofaði loksins til í hausnum á mér og ég sagði við sjálfa mig; hvern andskotann ertu að gera kona?! 

Það er auðvitað engin hemja að kona standi í stórræðum við allsherjar heimilisþrif, ein í kotinu, með kalda hvítvínsflösku í ísskápnum. Svo var ég líka orðin svöng. Átti kaldan hrísgrjónaafgang sem ég steikti í sesamolíu, henti sesamfræjum og eggi með á pönnuna og bætti plómusósu við alveg í restina. Prýðisgott með ítalska víninu.

Í dag voru æði margir með persónulegar skoðanir á Svölu Björgvins, heyrði t.d: persónulega fannst mér
  • hún hefði átt að vera á hælum, ég meina, hvað er málið með þessa hvítu strigaskó?
  • hún bara ekkert hreyfa sig á sviðinu
  • hún bara vera eins og einhver ísdrottning
  • hún asnaleg með þessa skikkju
  • hún bara full af sjálfri sér
Og jújú, svo voru auðvitað margir sem bara fíluðu ekki lagið og höfðu allslags skoðanir á því, mikil ósköp.

Persónulega fór ég í sund eftir vinnu í gær, synti eins og ég nennti og skaust svo aðeins í heita pottinn. Sat ein í pottinum í heilar 5 mínútur (aldrei gerst áður svo langt sem minni mitt rekur) áður en tvær breskar stúlkur bættust við.

Persónulega finnst mér Svala 
  • hafa staðið sig prýðisvel í gær, skilað öllu sínu með faglegum brag og góðum söng
  • súper svöl ísdrottning og mega töff með skikkju
  • svöl að vera í strigaskóm og brjóta upp þessa síþreytandi hælakvennaskóímynd
  • töff týpa sem ég veit ekkert hvernig er enda þekki ég hana ekki neitt og get þar af leiðandi ekkert persónulega dæmt neitt um hana persónulega sem persónu
  • mega svöl og töff í túbusjónvarpinu mínu
Lagið hef ég heyrt síendurtekið á Bylgjunni og merkilegt nokk, þá er ég ekki orðin leið á því, þetta er nefnilega fantaflott lag. Og já, svo á ég líka kaldar dreggjar af kampavíni í ísskápnum, spurning hvað ég geri við þær.

Eitt er á hreinu, ryksugan fær að dúsa áfram á stigapallinum þar sem ég skildi við hana. Annað kvöld sæki ég þann myndarlega útá flugvöll, spurning hvar ryksugan verður þegar hann kemur heim.