mánudagur, 15. maí 2017

Vasabrot helgarinnar

Kom heim eftir vinnu í blálok þarsíðustu viku og fann uppáhalds vasann minn í molum á stofugólfinu
Liggur beinast við að skella skuldinni á köttinn, varla hefur karlinn verið að gera sig breiðann í gluggakistunni. Þeir eru víst bara tveir sambýlingarnir.

Eftir 17 ára sambúð með kettinum veit ég að það hefur lítið uppá sig að ræða þessi vasamál við hann og ekki hef ég brjóst í mér að reiðast honum, ræskninu, þó vissulega hafi vasinn hennar ömmu minnar verið mér kær. 

Helgin var hreint prýðileg, kláraði t.d. að ryksuga og skúraði gólfin. Drakk rauðvín frá Spáni með foreldrum mínum og kjaftaði við þau um allslags stöff, m.a. hluti sem koma spánskt fyrir sjónir. Drakk ekki deigan kaffidropa í rúminu enda eiginmaðurinn fjarri góðu gamni í allt öðru góðu gamni. Fór í göngutúr með pabba mínum. Sat við eldhúsborðið í 3 klstundir og kjaftaði við systur mína sem kom óvænt í heimsókn (já, það er til fólk sem gerir ennþá svoleiðis). Ætlaði að horfa á Júróvisjón með foreldrunum en okkur tókst að sofa hana af okkur, hlið við hlið í sófanum. Borðaði hádegisverð á Geira Smart með mömmu og pabba smart. Keypti mér rauða blússu, afar smarta þó ég segi sjálf frá. Endurheimti þann myndarlega úr strákaferð.

Helgina þar á undan var ég sjálf í bústað með eintómum kerlingum sem prjónuðu, töluðu frá sér allt vit og prjónuðu svo meira. Myndarlegi eiginmaðurinn sat heima og dundaði sér við að púsla saman vasanum. Hvort honum hefur leiðst svona ógurlega í fjarveru frúarinnar er ekki gott að segja. Vasanum verður ekki tjaslað saman með neinu góðu móti, sprunginn og skörðóttur og vantar í hann búta. Minningin um ömmu býr heldur ekki í einum brothættum hlut, hún lifir prýðis lífi í hugskoti mínu. 

Mér finnst kallinn bara sætur að nenna að dunda þetta við fyrirfram mistakaverk til þess eins að kæta frúnna.

Engin ummæli: