miðvikudagur, 17. maí 2017

Farfantar á símaakstri

Þið þekkið þennan bílstjóra, er það ekki? Hann er lengi að taka við sér á ljósum. Ökulagið er skrykkjótt, hann keyrir kannski löturhægt en gefur svo duglega í. Hann er lengi að stöðva bílinn við rautt ljós, stöðvar hann jafnvel í 3ja bíla fjarlægð frá bílnum á undan. Þú sérð í baksýnisspeglinum að bílstjórinn horfir niður, svo lítur hann skyndilega upp og þá keyrir hann að bílnum fyrir framan og stoppar þar, lítur aftur niður. Hann keyrir ískyggilega nálægt akreininni á móti, fer jafnvel yfir á hana. Já krakkar, ég er að tala um þetta lið sem leyfir sér að vera í símanum á keyrslu, sem sendir sms / fer á facebook / skoðar myndir á instagram eða hvað svo sem á meðan það keyrir bíl! Eða, þykist öllu heldur keyra bíl, í rauninni er þetta lið bara í símanum. 

Las þessa frétt í gær. Kannski er ég bara svona illa innrætt en ég gleðst yfir því þegar fólk er látið axla ábyrgð, sína eigin í þokkabót. Satt að segja vekur það hjá mér ónotatilfinningu að finnast ekki lengur neitt sérstakt tiltökumál þegar fólk er bara að tala í símann undir stýri.

Á árdögum farsímanna keyrði ég samhliða manni á Sæbrautinni sem var ekki bara að tala í símann, á vinstri akrein, heldur var hann líka að borða. Sumsé, hann notaði vinstri öxlina til að styðja við símann (ekki mikið um handfrjálsann búnað þá), var með salat í plastboxi á hægra læri (við erum ekki að tala um neina Sóma samloku krakkar), úðaði upp í sig með plastgaffli milli þess sem hann talaði og "keyrði" bílinn með ýmist vinstra hnénu eða hægri hendi (eftir því hvernig á stóð).

Viðurkenni fúslega að mér verður stundum hugsað til hans þegar ég pirra mig á farsímaökuföntum, hvernig ætli hann keyri bíl í dag?

1 ummæli:

ella sagði...

Ertu viss um að hann sé á lífi? Þetta flokkast undir áhættuhegðun og hún ku vera afar óheilsusamleg.