fimmtudagur, 27. febrúar 2020

Af köttum og baðvatni

Kettir virðast elska baðvatn, allavega miðað við kettina sem ég hef komist í tæri við í gegnum tíðina. Dagurinn minn sat yfirleitt á baðbrúninni og lapti heitt baðvatn eða beið eftir því að ég kæmi úr sturtu til að sleikja sturtubotninn. Sama gerði hún Tisa mín sem um hríð bjó með okkur Degi, og þáverandi sambýlismanni, í Grafarholtinu forðum daga. Samrýndu systkinin, áður í Samtúni, nú í Veghúsum, eru í engu frábrugðin þessari þörf katta. Nema sturtuferðir frúarinnar eru ekki jafn einskorðaðar við morgna eftir að hún flutti í Grafarvog. Suma morgna snúsa ég fram yfir sturtutíma. Þá daga er himneskt að fara í heita kvöldsturtu. 

Í morgun fór ég í sturtu. Þegar ég kom heim eftir vinnu vomaði Birta ámátlega í sturtunni, eina sem ég gat lesið úr því var; ég vil fá sturtuvatn. Að sjálfsögðu varð ég strax við þeirri (óbeinu) beiðni, tók minni sturtuhausinn í mínar hendur og skrúfaði frá, lét heita bununa renna yfir sturtubotninn. Þar sem ég stóð álút og fylgdist með Birtu fylgjast með vatninu sem rann í botninn ákvað ég að skrúfa fyrir. Nema ég snéri of mikið og áður en ég vissi af stóð ég álút undir bununni af stóra sturtuhausnum. Hárið á mér og vinstri handleggurinn á mér (innan í peysunni sem ég var í) varð á örskotsstundu gegndrepa.

Fyrst brá mér, síðan hlóg ég, dátt og innilega. Þurrkaði á mér hausinn í handklæði, klæddi mig úr og fór í náttföt. Legg ekki meira á ykkur.

þriðjudagur, 25. febrúar 2020

Þessir dagar

Í gær var einn af góðum dögum ársins. Mætti kvefuð og þreytt til vinnu en lét það ekkert aftra mér við bolluátið, bolludagur er víst bara einu sinni á ári. Um kvöldið steikti ég pressað hvítlauksrif í kannski sekúndu áður en ég bætti matskeið af púðursykri við og dembdi síðan balsamik ediki yfir. Á heitri pönnu tekur það ekki langa stund að sjóða og þykkna og því þurfti kona að vera dugleg að hræra í blöndunni sem reyndist hreint ekki þrautalaust, fnykurinn af heitu balsam edikinu var slíkur að frúnni súrnaði í augum. Léttsteiktri kjúklingabringu var síðan blandað saman við og því næst færð yfir í eldfast mót. Raðaði útlendum kirsuberjatómötum allt í kring og smellti inní ofn 
Átti útrunninn erlendann mozzarellaost sem ég skar væna sneið af og setti yfir bringuna eftir hálftíma viðveru í ofninum. Það tók ostinn ekki nema rétt rúmar 5 mínútur að bráðna og þá var bringunni skellt á disk, smátt skorinni basiliku fleygt yfir ásamt skornum erlendum kirsuberjatómötum. Átti líka útrunnið salat sem fékk að fljóta með. Príma kvöldverður get ég sagt ykkur.

 Í dag var enn einn af þessum góðu dögum ársins. Pési stóð þegar yfir pottunum er ég mætti kvefuð en ekki jafn þreytt til vinnu. Súpan stóð fyllilega fyrir sínu og fyllti minn maga svo duglega að ég afþakkaði gott boð Pésa um að taka súpu með mér heim, sprungin á sprengidegi. Í kvöld dróg ég útrunna erlenda mozzarellaostinn út úr ískápnum og skar í sneiðar, dreypti eðal ólafíuolíu yfir, lagði íslenskar tómatsneiðar ofaná, pipraði og saltaði, reitti basiliku yfir og drippaði því næst kirsuberjabalsamgljáa yfir

Príma kvöldverður get ég sagt ykkur.

Á morgunn er svo enn einn dagur. Legg ekki meira á ykkur. Í bili, a.m.k.

sunnudagur, 23. febrúar 2020

Steikt egg og flensa

Einhverra hluta vegna sá bráðum minn fyrrverandi alfarið um að steikja bæði beikon og egg í okkar sambúð. Ég get því ekki með góðu móti munað hvenær ég sá um slíka steikingu síðast, allavega liðin 12 ár síðan, það veit ég með vissu. 

Þegar ég kom heim eftir vinnu s.l. föstudag langaði mig mest til að henda mér í heita sturtu og beint í náttfötin. Henti mér vissulega í heita sturtu en þar á eftir tók ég til við að mála varirinar á mér rauðar, smeygði mér í svartar gallabuxur, þunna hauskúpuskyrtu og appelsínugula hælaskó. Mætti rám og þreytt í partý í Skútuvogi, partýhaldari tók vel á móti mér og skipaði mér að fá mér gott romm í hálsinn. Fékk þrjá flauelsmjúka rommsopa á barnum en hélt mig síðan við brakandi þurrt hvítvín. Skemmti mér konunglega í pub-quiz, spjallaði og hló með vinnufélögum en datt ekki til hugar að fara með þeim niður í bæ, dreif mig bara heim í leigubíl. 

Var sjálfri mér þakklát er ég vaknaði þynnkulaus morguninn eftir. Ákvað að steikja mér egg og beikon í morgunmat, slík var gleðin. Beikonið steikti ég á þurri pönnu, minnug þess hvernig bráðum minn fyrrverandi var vanur að steikja beikon, en ég ákvað að prufa að smjörsteikja eggin. Smjörið varð að sjálfsögðu fljótt brúnt en bragðið á eggjunum var gott. Svo gott að þrátt fyrir flensuna afréð ég, eftir heita sturtu að sjálfsögðu, að labba bara eftir bílnum enda glennti sólin sig og ég arkaði af stað með sólgleraugu á nefinu. Var ekki alveg viss um hver væri besta leiðin en hafði jú einhverjum árum fyrr verið viðstödd opnun göngubrúar sem tengdi þennann voginn við hinn voginn. Eftir 1 klstund og 7 mín. settist ég inn í tíkina mína. Er heim var komið fann ég að mér var kalt inn að beini. Óskaði þess að ég væri með baðkar en þar sem ég er bara með sturtu klæddi ég mig úr og henti mér undir sæng. Steinsofnaði og svaf til að verða hálf sjö. Skjögraði svefndrukkinn fram úr með stíflað nef, hóstakjöltur og lopaþoku í hausnum. 


Í morgunn vaknaði ég nokkuð hress en komst þó ekki fram úr, Birta mín lá steinsofandi á framhandleggnum á mér og að sjálfsögðu vildi ég ekki vekja hana. Eftir könnu af kaffi og bókalestri ákvað ég að steikja mér egg í ólífuolíu, sumsé eins og bráðum minn fyrrverandi gerði ávalt. Ristað brauð með, ekkert til að kvarta yfir 

Fór í heita sturtu í dag, já, en fór ekki út fyrir hússins dyr. Er búin að þurrka af, ryksuga og skúra og setja í vél. Úti fyrir kyngir niður friðsælum snjó. Birta og Bjössi sofa værðarleg á bleikum sófa. Var rétt í þessu að hengja upp þvott, franskur djass í bakgrunni, værð í hjarta. 

Legg ekki meira á ykkur elsku vinir nema jú, þessa mynd hér

miðvikudagur, 19. febrúar 2020

Aldrei þessu vant var einungis ein bók á jólagjafalistanum mínum.

Bókina fékk ég svo í jólagjöf frá foreldrum mínum. Að sjálfsögðu dembdi ég mér lóðbeint með nefið ofan í hana enda afar áhugasöm um Stöðu pundsins. Var reyndar byrjuð á bókinni Nine perfect strangers en að sjálfsögðu lætur kona ókunnuga ekki halda sér frá kunnugum. Í miðjum Bragaháttum datt svo ný bók Jussa uppí hendurnar á mér og ég festist í Fórnarlambi 2117. Sat hugfanginn í dönskum glæpavef allt þar til ég lagði land undir fót. Eins og allir almennilegir bókabéusar vita þá er ekkert vit í því að bregða sér í ferð milli landa með langt komna bók svo Plan B varð plan E. Í Lundúnaborg færði systurdóttir mín mér að gjöf bók með svo girnilegum titli og bókarkápu að ég hef neyðst til að beita sjálfa mig járnvilja til að byrja ekki að blaða í henni strax. Hvað varð annars um D gætuð þið spurt? Jú, í miðju fullorðinsbókafárinu datt ég ofan í 63 ára gamla barnabók sem dúkkaði upp í einum skilnaðarkassanum, aðalsöguhetjan ber sama nafn og ein systir mín svo það segir sig sjálft að ég yrði að reka nefið í hana einnig. Sem ég og gerði.

Kom heim s.l. föstudag með forsmekk af kvefi í hálsi. Var orðin nefmælt á laugardegi og einstaka hóstakjöltur rauf nuddværðarkyrrð frúarinnar á sunnudegi. Í gær herti pestin tökin og í dag heldur hún þétt um slímtaugar nefsins ásamt því að herða hóstatakið. Í gær fékk ég einnig veður af nýrri Eddubók. Dreif mig í heita sturtu eftir vinnu og lagðist á bleikann sófann í rauðum náttslopp, harðákveðin í því að klára Jussa vin minn. Vaknaði síðar um kvöldið, ringluð og sveitt. Fórnarlamb 2117 lá á gólfinu. Át nokkrar kexsneiðar með Stilton osti við eldhúsbekkinn áður en ég burstaði tennur og fleygði mér í rúmið. Sofnaði strax.

Í dag sá ég að Jóhanna gaf sinni góðu konu rósir í tilefni nýrra Eddumála, eins gott. Sjálf beiti ég Jónínu járnvilja, hún kemur ekki inn á mitt náttborð fyrr en danskur kollegi hennar er farinn þaðan.

Legg ekki meira á ykkur í bili, elskurnar.

mánudagur, 17. febrúar 2020

Í fyrsta skipti, síðan ég skildi,

var ég strokin af karlmanni. Hann strauk á mér lærin og fótleggina, rassinn og aftanverð lærin. Fikraði sig upp eftir bakinu á mér og strauk á mér magann. Fór mjúkum höndum um handleggi mína og strauk hvern einasta fingur. Fyrst með saltskrúbbi og þar á eftir með þörungamaska. Þessi athöfn var vissulega bara forleikur. Nýji strokumaðurinn í lífi mínu heitir Óskar og er heilsunuddari í Bláa Lóninu. 60 mínútna nuddið sem síðan tók við gaf skrúbbsktrokunum ekkert eftir.

Þegar ég var búin að fara fram á skilnað og áttaði mig á því að afmælisdagurinn minn yrði ekki 5 ára brúðkaupsafmæli heldur 45 ára afmælisdagurinn minn þá ákvað ég að gera eitthvað stórfenglegt fyrir sjálfa mig. Stórfengleg hugmyndin lét ekki á sér standa, ég pantaði hádegisverð á Lava veitingastað, herbergi á Silica og kvöldverð á Moss. Fyrir mig og mig eina. Bætti um betur og pantaði mér nudd í Bláa Lóninu. Flaut frá strokumanninum í himnasælu og um Lónið þar til ég var farin að óttast að skinnið myndi smjúga af viskhöndunum á mér.

Það eru líklega ein 25 ár síðan ég hætti að nota sjampó og hárnæringu. Á því ekki gott með að lýsa því fyrir ykkur hvernig mér leið að sjá sjampóbrúsann hennar mömmu í sturtunni minni í morgunn. Eftir Bláa Lóns ævintýrið, þar sem kona hafði ekki einungis aðgang að prívat lóni frá hótelherberginu heldur var strokin hátt og lágt af myndarlegum manni, þá var hárið á mér í morgunn eins og þæfður lopasokkur.

Legg ekki meira á ykkur elskurnar.

fimmtudagur, 13. febrúar 2020

Til hamingju Ísland með að ég fæddist hér

Fyrir 5 árum síðan stóð ég fyrir framan hárprúðann og skeggjaðann Norðmann. Hann var í svartri skikkju, ég var í rauðum kjól sem ég hafði keypt í Wales árinu á undan. Við hlið mér stóð maðurinn sem ég kolféll fyrir þá 32 ára gömul. Ég hefði viljað giftast honum af ást, og engu nema ást, en ég giftist honum af nauðsyn. Stakk mér með honum til Osló og stóð sumsé þarna á fertugs afmælisdegi mínum og dró sérsmíðaðan gullhring á hans fingur í votta viðurvist. Vottar sem ég leit fyrst augum fyrir utan dyr sýslumannsins áður en við æddum inn. Engin fjölskylda, engir vinir.

Ekki að ég væri hætt að elska hann eða að ég vildi ekki elska hann, ég var einfaldlega búin að átta mig á því að lífið yrði ekki eins og ég hafði staðfastlega trúað að það myndi verða. Væntingarnar voru miklar og því var fallið hátt. Harkalegt og hátt.

Í dag er ég komin í annað samband. Samband sem gerir mér hátt undir höfði. Samband þar sem nærveru minnar er óskað. Samband sem byggir á því hverjar mínar tilfinningar, langanir og óskir eru. Samband mitt við sjálfa mig. Eins og öll ný sambönd þá litast það af mikilli spennu og eftirvæntingu, tilhlökkun jafnvel, en líka af feimni og óöryggi við því óþekkta. 

Leyfi mér að efast um að þetta nýja samband muni enda á sýslumannsskrifstofu í Noregi en sambúðin er hreint prýðileg. Legg ekki meira á ykkur.