fimmtudagur, 30. ágúst 2012

Krimmakrútt

Lagðist uppí sófa eftir vinnu og langaði að leggja mig. Langaði líka að vera húðlöt en gerði hvorugt. Magga systir var búin að melda okkur með sér í Norræna húsið. Sem betur fer. Jussi Adler-Olsen er nefninlega ekki bara krúttaralegur karl sem skrifar góðar bækur, hann er líka feikn skemmtilegur, kann að stafa Magga og Katla, og vildi sjálfur láta taka mynd af sér með tveimur systrum


miðvikudagur, 29. ágúst 2012

Heimilisprýði síðan 1966

Eftir að hafa troðið okkur út af kjötbollum og kartöflum með brúnni sósu og rabbarbarasultu og skyri með rjómablöndu og berjum úr sveitinni leysti mamma okkur út með gjöf



Mamma fékk vasann að gjöf árið sem Hallveig systir fæddist og því ekkert skrýtið að mér finnist eins og vasinn hafi alltaf verið til þar sem hann var búinn að prýða heimili foreldra minna í níu ár áður en ég birtist.

Nú mun garmurinn prýða okkar heimili og hefur þegar gert sig heimakominn í félagsskap Veturliða og allra hinna tekk-aranna í borðstofunni.

mánudagur, 27. ágúst 2012

Áratugur á áratugi ofan

Fórum í hádeginu og keyptum okkur sófasett, skenk og skáp. Stofurnar prýða nú 3 sófar, 4 stólar, hillusamstæða, skenkur, skápur, skrifborð, bókahillur, ruggustóll, 2 sófaborð og ég veit ekki hvað og hvað. Úir og grúir af 3. 4. 5. 6. 7. og 8. áratug í mublum og smáhlutum. Palísander, tekk, fura, beyki, handmálaður krossviður, keramík, gler og gylltir gips rammar. Í stöðu sem þessari er ekkert annað að gera en skála í Vintage



og dást að art deco stúlkunni okkar.

miðvikudagur, 15. ágúst 2012

Máttur fésins á bloggið

Vegna fjölda áskorana á fésinu kemur hér uppskrift að *heitrauðu paprikusúpunni sem við gæðingarnir gæddum okkur á í gærkveldi


Olía borin á 3 rauðar paprikur og þær látnar malla í ofni í 20 mín. Því næst kældar og reynt að ná sem mestu hýði af þeim undir rennandi köldu vatni, eða þar til þolinmæði ofbýður og skipar þér að hætta þessari helv.vitleysu sem skipti engu máli þar sem allt heila klabbið eigi eftir að enda í matvinnsluvél. Hálfur laukur og 2 hvítlauksgeirar steiktir í olíu og smjöri. Hálfflysjuðum paprikum bætt út í ásamt 3 dl. af vatni, grænmetiskrafti, chillidufti, kummin, kóríander, salti og pipar. Sjóðið í 20 mín. eða þar til betri helmingurinn rífur þig upp úr internetósómanum og minnir þig á að þú ert að elda súpu sem búin er að sjóða. Og sjóða. Fá betri helminginn til að bæta vatni á súpuna, smakka hana til og *blanda saman með töfrasprotanum. Fyrst betri helmingurinn er svo byrjaður í eldhússtarfsemi er best að fá hann til að kippa brauðinu úr ofninum í leiðinni.

Fyrst ég er byrjuð er best að láta *fljótlegu brauðuppskriftina fylgja með líka. Blandið 3,5 dl af hveiti, 3,5 dl af haframjöli, 1 dl hveitiklíð, 1 msk sykur, 4 tsk lyftiduft og 0,5 dl af hörfræjum saman og hrærið saman við 0,5 ltr af súrmjólk. Setjið í ílanga sandkökuformið hennar ömmu og stráið sólblómafræjum yfir. Bakið við 200°C í ca 50 mín.

Borið fram með sýrðum rjóma í súpuna og glás af smjöri á heitt brauðið. Skálin töluvert umrædda er önnur af tveimur sem ég keypti nýverið hjá Retró-Magnúsi á fésinu. Ef minnið bregst mér ekki átti tjéð sandkökuformsamma svona skálar



Meiri bólan þetta facebook.

*tekið lóbeint upp úr M-tímariti um mat og vín, tbl. fjögur 2005.

mánudagur, 13. ágúst 2012

Lund, sund, snúinn rass í hund

Er ég bjástraði við bannsett sundgleraugun í sundi í gær hóf miðaldra maður með sundhettu að spyrja mig út í sundfimi sína. Þar sem ég hafði ekki mikinn áhuga og hafði heldur ekki tekið eftir því hvernig hann synti, voru svör mín á þann eina veg að ég vissi ekkert um það hvernig hann synti, hvort stíllinn væri í lagi hjá honum, hvort hann hefði synt beint eða almennt borið sig fagmannlega að við sundtökin. Spurningum eins og "æfir þú sund? Ferð þú oft í sund? Æfir þú frjálsar? Æfir þú íþróttir? Ertu í sundfélagi? Ert þú í e-u íþróttafélagi" var öllum svarað með stuttu en snörpu nei-i. Sundhettumaðurinn var þó hvergi banginn og vippaði sér því næst í að tala um ólympíuleikana. Þar með var ófélagslund minni allri lokið og ég hvæsti fremur ókurteislega að eymingjans sundhettuklædda sundgarpinum með óbifandi íþróttaáhugann og félagslyndi á stærð við sundlaug, að ég væri ekki komin í sund til að tala. Spyrnti mér því næst kröftuglega frá bakkanum og synti úr mér bölvaða geðluðruna.

Í heita pottinum sat selsvaxinn heldri maður með skalla og gráar tennur, fyrir utan aðra framtönnina sem var ekki lengur til staðar. Mæsti og blæsti eins og 38°heitt vatnið væri að gera útaf við hann. Yrti ekki á mig. Ef til vill búið að vara hann við hvæsandi kvendinu.

Sá myndarlegi hljóp 10 km hringinn til æfingar fyrir fjórðungs maraþonið og vippaði sér því næst í sultugerð. Sultaði 5 kg af berjum með bros á vör og gleði í hjarta. Engin luðra þar enda ekki að ástæðulausu að betri helmingurinn minn er betri helmingurinn.

Hvað er annars málið með sundgleraugu? Af hverju er bandið alltaf að losna svo ég þarf að bjástra við þau í hvert skipti sem ég fer í sund? Af hverju verð ég alltaf aum við nefið af því að nota sundgleraugu? Af hverju þurfa þau að vera svo þröng að eftir sundsprettinn sit ég yfirleitt með blikkandi rauða hringi kringum augun í heita pottinum? Af hverju ræddi ég þetta vandamál ekki við þann sundhettuklædda? Og bara svo þið vitið það, þá er það eina góða við ólympíuleikana að þeir eru búnir.

laugardagur, 11. ágúst 2012

Gleði

Ástin spyr hvorki um stétt né stöðu. Ástin spyr því ekki um kynhneigð, húðlit, þyngd, háralit, aldur né fyrri störf. Ástin spyr ekki um neitt af því sem skapar stétt né stöðu. Stétt og staða er sköpuð af samfélagi. Samfélaginu okkar.
Ástin biður um kærleika og heiðarleika, -leikar sem samfélag ætti að vera skapað af. Ég vildi óska að samfélagið okkar væri skapað af samþykki sem af hlytist sátt, en ekki af umburðarlyndi sem sprottið er af fordómum.

Þess vegna ætla ég að spenna upp marglitu regnhlífina, arka með ástinni minni í bæinn, og taka þátt í þeirri gleði sem felst í því að samþykkja náungann eins og hann er.

fimmtudagur, 2. ágúst 2012

1952

lofuðu sómamanneskjurnar Kristín Hulda og Matthías sér í hjónaband


60 árum síðar skína þau enn sem demantar


miðvikudagur, 1. ágúst 2012

Maurice

er skrifuð 1913-1914 og tileinkuð a Happier Year



" ´And what´s to happen to me?´said Maurice, with a sudden drop in his voice. He spoke in despair, but Mr Lasker Jones had an answer to every question. ´I´m afraid I can only advise you to live in some country that has adopted the Code Napoleon´, he said.
´I don´t understand.´
´France or Italy, for instance. There homosexuality is no longer criminal.´
´You mean that a Frenchman could share with a friend and yet not go to prison?´
´Share? Do you mean unite? If both are of age and avoid public indecency, certainly.´
´Will the law ever be that in England?´
´I doubt it. England has always been disinclined to accept human nature.´