miðvikudagur, 10. maí 2017

Svöl Svala

Búin að þurrka af öllu hátt og lágt, skrúbba klósett og skola vaska á báðum hæðum. Ryksugaði efri hæðina undir vökulum glyrnum kattarins. Hamaðist við að ryksjúga teppalagðan stigann þegar það rofaði loksins til í hausnum á mér og ég sagði við sjálfa mig; hvern andskotann ertu að gera kona?! 

Það er auðvitað engin hemja að kona standi í stórræðum við allsherjar heimilisþrif, ein í kotinu, með kalda hvítvínsflösku í ísskápnum. Svo var ég líka orðin svöng. Átti kaldan hrísgrjónaafgang sem ég steikti í sesamolíu, henti sesamfræjum og eggi með á pönnuna og bætti plómusósu við alveg í restina. Prýðisgott með ítalska víninu.

Í dag voru æði margir með persónulegar skoðanir á Svölu Björgvins, heyrði t.d: persónulega fannst mér
  • hún hefði átt að vera á hælum, ég meina, hvað er málið með þessa hvítu strigaskó?
  • hún bara ekkert hreyfa sig á sviðinu
  • hún bara vera eins og einhver ísdrottning
  • hún asnaleg með þessa skikkju
  • hún bara full af sjálfri sér
Og jújú, svo voru auðvitað margir sem bara fíluðu ekki lagið og höfðu allslags skoðanir á því, mikil ósköp.

Persónulega fór ég í sund eftir vinnu í gær, synti eins og ég nennti og skaust svo aðeins í heita pottinn. Sat ein í pottinum í heilar 5 mínútur (aldrei gerst áður svo langt sem minni mitt rekur) áður en tvær breskar stúlkur bættust við.

Persónulega finnst mér Svala 
  • hafa staðið sig prýðisvel í gær, skilað öllu sínu með faglegum brag og góðum söng
  • súper svöl ísdrottning og mega töff með skikkju
  • svöl að vera í strigaskóm og brjóta upp þessa síþreytandi hælakvennaskóímynd
  • töff týpa sem ég veit ekkert hvernig er enda þekki ég hana ekki neitt og get þar af leiðandi ekkert persónulega dæmt neitt um hana persónulega sem persónu
  • mega svöl og töff í túbusjónvarpinu mínu
Lagið hef ég heyrt síendurtekið á Bylgjunni og merkilegt nokk, þá er ég ekki orðin leið á því, þetta er nefnilega fantaflott lag. Og já, svo á ég líka kaldar dreggjar af kampavíni í ísskápnum, spurning hvað ég geri við þær.

Eitt er á hreinu, ryksugan fær að dúsa áfram á stigapallinum þar sem ég skildi við hana. Annað kvöld sæki ég þann myndarlega útá flugvöll, spurning hvar ryksugan verður þegar hann kemur heim.

Engin ummæli: