miðvikudagur, 5. apríl 2017

Kransakaka, rafmagn og mæður.

Talandi um fermingar þá gróf ég upp fermingarminningarnar mínar og sannreyndi þá staðreynd að 28 ár eru liðin síðan ég fermdist. Já, tuttuguogátta ár sagði ég. Fermingarminningarnar fékk ég í fermingargjöf frá bróður mínum, mappa sem samanstendur af gestabók, myndaalbúmi og vasa undir fermingarkortin og skeytin. Já, ég sagði skeyti, það eru jú hartnær 30 ár liðin þið vitið. Myndirnar í albúminu eru 11 talsins, við erum að tala um fermingu á tímum filmunar krakkar. Fermingarveislan var haldin heima (að sjálfsögðu) og mamma sá um allar veitingarnar (að sjálfsögðu). Af myndunum að dæma var kransakaka (hver hefði trúað því), brauðterta, snittur og ostar. Heitt kaffi á könnum og öskubakkar á víð og dreif um borð.

Samviskusamlega hef ég skráð niður allar gjafirnar, styttur, hálsmen, armbönd, svefnpoka, skó, orðabók, myndaalbúm (þið munið þetta var filmuveröld, ekki digitalheimur), Passíusálmana, armbandsúr, hring, bjúdíbox (nkvl svona skrifað) og 15.000 kr. í peningum. Ef minnið bregst mér ekki keypti ég mér rúm í Ikea fyrir fermingarpeningana mína, rúm sem er reyndar enn í notkun, hefur farið á milli systurdætra minna og sú yngsta af þeim hvílir lúin bein á bedda þeim á Hvolsvelli, heimabæ þess myndarlega. 

Mamma og pabbi gáfu mér rafmagnsritvél. Þar sem ég pikka þessa færslu inn á fartölvuna mína verð ég bara að deila því með ykkur að þetta var mögnuð gjöf. Rafmagnsritvél sem ég gat pikkað á eins og vindurinn, með leiðréttingarborða og alles, algert dúndur. Helbert undur jafnvel. Ritvélin er enn í fullu fjöri en það er langt síðan að ég hef fengið leiðréttingarborða í hana.

Að lokum verð ég að segja ykkur frá því að stúlkukindin fékk hvorki meira né minna en 3 hárblásara í fermingargjöf. Já, ég sagði ÞRJÁ hárblásara, við erum að tala um 1989 krakkar. Á þessum árum kom sér vel að eiga öflugan hárblásara til að koma toppnum á réttan stað og svona. Sjálf notaði ég hárblásara lítið sem ekkert þá og eftirlét móður minni að velja einn úr og skila hinum tveimur. Fyrir valinu varð Braun silencio 1600 sem Hrefna (systir mömmu) og Jonni gáfu mér. Í dag bjargar þessi 28 ára gamli hárblásari lubbanum á mér á hverjum morgni. Þýðir það að mæðrum sé treystandi?

Legg ekki meira á ykkur elskurnar. Verið spök og munið að knúza mömmur ykkar.

Engin ummæli: