laugardagur, 1. apríl 2017

Bubblandi granatepli og límóna

Hér í bústaðnum er ekki að finna eina einustu kaffitrekt til uppáhellingar. Sérvizkupúkar eins og við myndarlegi getum ekki hugsað okkur Severin uppáhellt Haiti kaffi og viljum því bara hella uppá gamla mátann þegar við erum komin í bústað (lesist: sá myndarlegi hellir uppá, frúin nýtur). Sá myndarlegi var auðvitað útsjónarsamur í morgunsárið og notaði trektina úr Severin könnunni til að hella uppá. Kvartaði þó sáran yfir hraðsuðukatlinum þegar hann vakti frúnna með kaffiilm en eins og hér gefur að sjá er stúturinn á katlinum drjúgt stór. Mér skildist á karlinum að út um þennan stút hefði dembst heitt vatn í gríðarlegum slurkum og því illfært fyrir myndarlegan mann að hella uppá eðalkaffið með hringlaga snúning á sjóðandi heitri mjósleginni bunu. Séð frá hlið lítur þessi stútur út eins og hlandskál á karlaklósetti.

Hér í bústaðnum er kaldavatns fráskrúfunin öfugu megin, svona altjént miðað við vanalegt viðmið. Kalda vatnið tekur sér líka dágóðan tíma til að verða kalt. Skyldi kannski engan undra, líklega rembist það við að verða heitt miðað við staðsetningu fráskrúfunarinnar en gefst svo upp að lokum og hleypir köldu vatni í gegn. Hvað veit ég?Jú, ég veit að einhversstaðar í heiminum er klukkan orðin sex og því engin ástæða til að skrúfa frá krana heldur tilefni til að skjóta tappanum úr kampavínsflöskunni og prufukeyra kokteiluppskriftina sem hinn Péturinn í lífi mínu sendi mig með út í helgina.

Bústaðarlíf, ekki sem verst.

Engin ummæli: