sunnudagur, 10. júlí 2016

Humarrest

Litli bróðir þess myndarlega var í hálfs mánaðar heimsókn hjá okkur. Kærkominni heimsókn alla leið frá Ástralíu. Af því tilefni tók sá myndarlegi sér frí og flandraðist með áströlsku fjölskylduna um Íslands koppagrundir, dembdi þeim í heimsóknir til ættingja og vina, sló upp hamborgara- og pylsupartýi, hristi kokteila, tók tappa úr og galdraði fram hinar ýmsu kræsingar af sinni alkunnu list.

Síðasta heimsóknarkvöldið grilluðum við eðal humar úr Melabúðinni. Sátum eftir með smotterís afgang sem ég skar niður í munnbitastærðir í morgun og kryddaði með smávegis Cayennepipar


Sló saman 4 eggjum ásamt hæfilegu magni af fáfnisgrasi


Bræddi dágóðan slatta af smjöri á pönnu og velti humrinum þar um í 2-4 mín. Dembdi síðan eggjahrærunni yfir og hrærði þar til úr varð dásemdar humareggjahræra


Kælda kamapavínið í ísskápnum hefði verið flott með en við létum ristað brauð og vatn úr krananum nægja. Að þessu sinni.

Uppskrift fengin héðan.

Engin ummæli: