Fyrst hjásvæfan er í útlöndum að ráðstefnast neyðist maður til að halla sér að vinunum á meðan.
Þriðjudagskvöldið fór ég í gædaða gönguferð um Hengilsvæðið í boði Orkuveitunnar. Það var dágóður hópur af fólki sem hafði rekið augun í sömu auglýsingu og félagar mínir. Við vorum teymd áfram af jarðfræðing og grasafræðingum tveim. Rakst á Signý Sæm við lok ferðar sem færði mér indælar fréttir sem ég hef beðið eftir með nokkurri óþreyju. Reglulega skemmtilegt þrátt fyrir að frjósa á einungis vettlingaklæddum höndum á Tjarnarhnjúk – enda félagsskapurinn ekki af lakara taginu.
Gærkveldinu eyddi ég svo við uppáhalds iðju mína. Unnur María bauð okkur Kalla heim til að dreypa á eðalvíni sent til Unnar af Vín og Mat. Ég persónulega fer nú bara í ríkið og kaupi mitt vín, en það sýnir kannski best hvað Unnur er mun klókari en ég að fá sitt vín sent heim. Að vísu þarf hún að blogga um það og það gæti reynst þrautinni þyngri; okkur Unni líkaði vínið ekkert sérstaklega vel – ekki endilega vont – bara ekki heldur gott.
Okkar bragðskyn skilaði þessum pælingum: vínið kostar annað hvort 1190,- eða 1590,- í vínbúðunum – eðalvín með ódýru bragði – vekur upp grunnskólaminningar – vafalítið ómissanlegt með niðursoðnu bjarndýrakjöti frá Finnlandi.
Öðrum veitingum kvöldsins voru gerð góð skil; finnskt hreindýrasalami, finnskur havartí geitaostur, anda- og hreindýrapaté à la Bergsveinn Símonarson, lakkasulta og finnskir berjalíkjörar – eðalveitingar með rándýru bragði.
Við Kalli héldum svo út í ilhýra sumarnóttina rétt eftir miðnættið – eftir sat Unnur með þá áskorun frá okkur að blogga bara satt og rétt frá: henni fannst bara vínið ekkert spes...
1 ummæli:
Unnur þegir þunnu hljóði en við, sem fengum enga heimsendingu á víni, höfum bæði sagt eitthvað. Réttlæti heimsins og allt það...
Gott að sjá að þú hefur komist alla leið heim, "þrátt fyrir" ipod-inn.
Skrifa ummæli