föstudagur, 6. júní 2008

BerBar

Hef haft doldið fyrir því að reyna að sannfæra hjásvæfuna um að garðurinn hans hafi meiri þörf fyrir tennisvöll og heitann pott, frekar en hin hefðbundnu garð-blóm sem draga að sér býflugur og önnur kvikindi. Er ég mætti í vinnuna í morgunsárið blöstu við mér tvenn myndaferlíki af já, blóóómum, þó ekki hefðbundnum garð-blómum – IKEA-blómum. Þó nálægðin sé helst til mikil fyrir minn smekk er ég þó þakklát fyrir að snúa baki við þeim yfir daginn. Hjásvæfan er ekki sannfærð um ágæti hugmyndar minnar, en ég hef nú þegar lært að heyra ekki nema 3ja hvert orð af því sem hann masar svo þetta er allt í ágætis farvegi.

Fékk mér hefðbundinn bílstjóra-mat til tilbreytingar í hádeginu - örbylgjuð kjötloka og súkkulaði á eftir. Rifjast upp fyrir mér af hverju ég hætti að borða súkkulaði að mestu – Lion Bar er syndsamlega gott. Með velkta kjötloku í maganum og sæta karamellu á tönnunum fer ég að skilja tilvist bílstjóra-ístrunnar. Af því ég er skynsöm stúlka ætla ég ekki að gera þetta að reglu – held mig bara við berjadjúsinn minn.

Á það skemmtilega verkefni fyrir höndum að dást að hjásvæfunni við straubrettið.

Engin ummæli: