laugardagur, 31. desember 2011

Gaml-árs gjöfli

Ligg í rauðum rúmfötum með malandi kött, fallegan fýr, rjúkandi kaffi. Var að klára orðasinfóníu Vigdísar Gríms. Stuttklippt á síðasta degi ársins. Ári sem ég mun kveðja sátt í sinni. Tilhlökkun til þess næsta.
Áramót spila á skemmtilega strengi í brjósti og maga. Strengjasláttur um nýtt upphaf í bland við allt það gamla. 2011, 2012, þrettán eða fjórtán. Skiptir í sjálfu sér ekki máli. Ég vil bara áframhald.

Ástfangin, hamingjusöm, þakklát, glöð.

fimmtudagur, 29. desember 2011

H.E.

Spjölluðum og glöddumst með mömmu og pabba og systrum og bróður, mökum og börnum fyrr í kvöld. Eina sem vantaði var afmælisbarn dagsins.

Hér er amma á níutíu ára afmælisdeginum sínum fyrir ári síðan



með strákunum sínum.

Þessi, þar sem þau gera sig klár fyrir myndatökuna, fær að fylgja með



af því mér þykir hún skemmtileg.

miðvikudagur, 28. desember 2011

Þetta er yndislegt líf

Eftir dásemdir jólanna var vel við hæfi að borða tartalettur fylltar með hangikjöti, kartöflum, grænum baunum og uppstúf í kvöld. Toppaðar með osti og hitaðar í ofni af rétt rúmlega fimmtugum karlmanni sem aldrei áður hefur útbúið tartalettur.

Ætlaði að blogga um allar þessar dásemdir jólanna sem fyllt hafa líf mitt, en ligg þess í stað eins og lufsa á sófanum og hef ekki eyrun af Páli Óskari í sjónvarpinu. Hef dillað mér með flestum, ef ekki öllum stuðlögunum, og fallegu, rólegu lögin eiga greiða leið að ástföngnu hjarta mínu. Rétt eins og bros kærólufsunnar og mal kattarlufsunnar sem fylla sófann með mér.

Jahá, ég trúi svo sannarlega á ástina. Maður lufsast sko ekkert með hverjum sem er.

fimmtudagur, 24. nóvember 2011

Ólafsvíkurvaka

Fór til Ólafsvíkur um helgina og knúsaði nýju frænku mína sem er álíka létt og tvistpoki og sæt sem sykurpúði. Fór líka og skemmti mér dáyndisvel í Röstinni á Hellissandi, söng og tjúttaði með systrum mínum og dáðist að myndarlega manninum mínum á dansgólfinu.

Það er gott að eiga glás af góðum systrum



og ekki síðra að fara með sætasta stráknum af ballinu heim


Heim á næsta hótel þar sem ég svaf eins og grjót meðan rokið og rigningin hamaðist í dansi. Fékk mér svo svínahamborgarhrygg í morgunmat.

Og aftur líður að helgi. Merkilegt nokk. Næstum jafn merkilegt og að ég ætli til Ólafsvíkur aðra helgina í röð.

miðvikudagur, 16. nóvember 2011

Kjúklingur smjúklingur

E-n í vetur var ég í matarboði með ágætu fólki c.a. 14-15 árum eldra en ég. Eins og oft meðal vina var talað um liðna tíð. Mér fannst athyglisvert að heyra hvað allt þetta ágæta fólk talað um tíma "þegar ég var ung/ur". Aldrei tala ég um "þegar ég var ung". Ég segi alltaf "þegar ég var yngri". Mér hugnast það vel og líka betur en hitt. Og já, ég ætla líka að halda áfram að hugnast það betur og nota þegar ég verð orðin c.a. 14-15 árum eldri en ég er nú. Enda spríng tjikken.

fimmtudagur, 10. nóvember 2011

Fiskur á fisk ofan

Sá myndarlegi sá um matseld kvöldsins enda myndarkokkur mikill. Hann hefur býsnarinnar ánægju af að elda "upp úr sér" og gerir það af mikilli lyst. Í kvöld eldaði hann samt eftir uppskrift. Hann er nefninlega líka ansi lunkinn í þeirri listinni



Sjáið þið ekki öll fiskinn sem gapir í fiskréttinum?

miðvikudagur, 9. nóvember 2011

Mér leiðist pólitík

næstum því jafn mikið og mér leiðist kapítalistalið. Svona, þar hafið þið það. Þið getið þá hermt það upp á mig síðar.

Bananaþrái.

Ætlaði að baka kökuna sem ég bakaði ekki síðustu helgi í kvöld. Fann hvergi bananana sem ég er búin að nostra við í stífu þroskunarferli. Grunar að hreindýrinu okkar hafi fundist það þjóðþrifaverk að fleygja þeim. Allavega tveimur, ekki ólíklegt að sá þriðji hafi sjálfur skriðið í tunnuna enda elstur og orðinn mikið bóhem.

Ég neyddist því til að steikja bollur og sjóða spaghettí. Engin kaka í kvöldmat hér


Svona er að þrífa ekki sitt eigið heimili.

mánudagur, 7. nóvember 2011

Mann-rétt-indi

Ætlaði að baka köku um helgina. Las í staðinn 2 bækur og fór 2 í bíó.

Amnesty er með (Ó)sýnilega kvikmyndadaga þessa dagana. Eða réttara sagt þessi kvöldin. Kvikmyndir sem allir hafa gott af að sjá, þó ekki væri nema eina.

Sá myndarlegi stendur sína Amnestyvakt með sóma og er nokkuð lunkinn í að fá fólk til að taka þátt í herferð Amnesty. Herferð sem krefst þess eins að þú skrifir nafnið þitt. Ég verð alltaf jafn hissa þegar ég sé manneskjur staldra við, spjalla við þann myndarlega, kynna sér herferðina, en neita svo að skrifa nafnið sitt á eins og einn snepil. Snepil sem getur haft heilmikil og mikilvæg áhrif. Ef þú ert svo lánssöm/samur að eiga val á að hripa nafnið þitt niður, mannréttindum til handa, áður en þú svo lullar þér í sjoppuna að kaupa þér popp og kók, af hverju gerir þú það þá ekki? Mannréttindi eiga að vera sjálfsögð en ekki forréttindi.

Mannréttindi eru ekki bara fyrir okkur sem getum leyft okkur að baka köku um helgar, lesa bækur og fara í bíó. Mannréttindi eru fyrir ALLA.

laugardagur, 29. október 2011

Sjónvarp & kaka?

Það rifjaðist upp fyrir mér þegar maður kom í Melabúðina í gær og spurði hvort þar fengist sjónvarpskaka, hvað það væri orðið hrikalega langt síðan ég hafði fengið sjónvarpsköku. Ég íhugaði að hringja í Hallveigu systur mína og biðja hana um að baka eina slíka, en fannst heldur langt að fara í kaffi alla leið til Ólafsvíkur. Ég fór því á netstúfana og fann þessa uppskrift. Ég átti nefninlega sjálf von á kaffigestum


Fyrsti sjónvarpskökubaksturinn myndast að minnsta kosti vel og ekki kvörtuðu Gulla og Brói, enda sómafólk mikið


Í dag keypti Gulla sér sinn árlega jólasvein sem bætist í myndarlegt safn af sveinkum. Þennan keypti hún handa mér



Ég ætla að láta Gullu litlu standa á kommóðunni í forstofunni svo hún geti tekið á móti gestum með mér, hún er svo skemmtileg og prakkaraleg á svipinn, soldið eins og Gulla stóra.

Við erum því væntanlega formlega byrjuð að skreyta fyrir jólin hérna í Túninu.

Mikið sem það er annars dáyndislegt að þekkja skemmtilegt fólk.

sunnudagur, 23. október 2011

Gulrætur & ananas

Þrátt fyrir að hafa á afar klaufalegan hátt tekist að þeyta öllum kurlaða ananasinum út í loftið er ég hristi safann frá í sigti, var gulrótarkaka dagsins stórfín. Já, það er ananas í þessari gulrótarköku



Blandið saman 5 dl af hveiti, 2 tsk af lyftidufti, 1,5 tsk af matarsóda, 1 tsk af salti, 2 tsk af kanil, 1 tsk af múskati og 5 dl af sykri. Rífið 5 dl af gulrótum og grófsaxið 2,5 dl af hnetum. Hrærið 4 egg og 2 dl af matarolíu saman og blandið við þurrefnin ásamt lítilli dós af kurluðum ananas (safinn ekki notaður), gulrótum og hnetum. Setjið deigið í smurt form og bakið neðarlega í ofni í u.þ.b. klstund.

Í kreminu er 150 gr af rjómaosti, 250 gr af flórsykri og sítrónusafi eftir smekk, hrært af myndugleik.

Úr Af bestu lyst 1 frá 1993.

laugardagur, 22. október 2011

Ítalskt ragú

Nautagúllas, hveiti, pipar, salt, ólífuolía, laukar, gulrætur, hvítvín, saxaðir tómatar, lárviðarlauf og bútur af gamalli sleif



Hollt og gott fyrir stækkandi stráka og stelpu með stæla.

fimmtudagur, 20. október 2011

miðvikudagur, 19. október 2011

Var Nonni manni?

"En ástæðan var þessi: Mamma hafði sagt, að ég væri allt of lítill til þess að geta veitt silung.
Þessi orð höfðu mér gramizt. Mér fannst hún gera allt of lítið úr mér. Ég var fullur af ákafa að geta sýnt mömmu, að ég væri strákur,en ekki stelpa, og gæti gert eitthvað, sem gagn væri að, þó að ég væri ekki eldri en þetta."

Á Skipalóni eftir Jón Sveinsson.

þriðjudagur, 18. október 2011

Stórundarlegasnarskrýtið

Fannst skrýtið að standa í matvörubúð rétt um níu að kvöldi að kaupa mjólk. Fannst líka skrýtið að vera afgreidd á kassa af stútungskarlmanni. Næstum jafn skrýtið og hvað lagið sem ég heyrði á leiðinni heim frá þessum skrýtnu uppákomum þeytti huga mínum aftur til FB. FB sem ég hugsa næstum aldrei um og tilheyrir e-m tíma sem ég kannast næstum ekki lengur við.

Til að gera skrýtna atrennu stórskrýtnari sá ég Sigurbjörgu Kötlu á Facebook þegar ég var svo komin heim. Og það var ekki ég. Ég er bara Katla þar. Síðast þegar ég fletti Sigurbjörgu Kötlu upp hjá Hagstofunni fékk ég sem fyrr að vita að ég væri sú eina. Þó er þessi nýja fædd 1996. Stórundarlega snarskrýtið en skemmtilegt og ég þarf að lesa 199 bls. af Nonna og Manna áður en ég fer að sofa fyrir krossapróf á morgun. Þrátt fyrir að fjarlægjast ansi margt er greinilegt að sumt breytist seint. Eða jafnvel aldrei.

Mætti halda ég væri enn í Fjölbraut í Breiðholti. Ef ekki væri fyrir fjarlægðina.

föstudagur, 14. október 2011

Plokkfiskur með slátri

Plokkfiskur gærdagsins rann ljúflega ofan í kallinn sem borðar ekki plokkfisk, og drengi tvo sem borða misvel og mikið, enda bragðbættur með hvítlauk, karrí, osti og sinnepi



Mér þykir hann þó langbestur eins og amma gerði, einfaldur hveitijafningur og slatti af lauk og pipar.

Vorum enn þjóðlegri í matseldinni í kvöld og skófluðum í okkur slátri. Melabúðin selur slátur með 40% afslætti þessa dagana, haustslátrun. Það þykir mér góður díll. Mun betri en díllinn um að hafa uppstúf og karteflur í stað rófustöppu. Hvílík endemis arkansansans vitleysa. Tók ekki einu sinni mynd af því.

þriðjudagur, 11. október 2011

Í morgunhúminu

gat ég ekki varist þeirri tilfinningu að með mér væri fylgst. Hélt þó ótrauð áfram að sýsla við uppáhellinguna og tautaði við sjálfa mig að láta myrkan morguninn ekki hlaupa með mig í gönur.


Svo sá ég hann



Hann virtist skelkaðri en ég af þessu eina auga að dæma. Eða hvað...


Kallinn í borðinu hlýtur að hafa fylgst með lengi. Ætli hann hafi vitað það sem aðrir ekki áttuðu sig á? Ætli hann horfist alltaf í einu auga á það sem aðrir forðast að sjá? Þýðir þetta að lúna, ljóta borðið er allt í einu komið með karakter? Og hvað er eiginlega málið með það að allt geti e-n haft karakter, svo gott sem sama hvað það er? Er rosalegur karakter í manninum?


Og hvenær í ósköpunum ætli ég hætti að vakna á Tyrklandstíma?

mánudagur, 10. október 2011

S-ól-ars-æla

Eftir 2 vikur í tómri sælu og Tyrklandssól var ekki mikið mál að mæta aftur til vinnu. Fékk þær dásamlegu fréttir í morgunsárið að ég hefði eignast splunkunýja frænku í gær og ég gleðst yfir því að kvennaveldið í fjölskyldunni er á geysigóðu róli. Skítt með það þó klukkan hjá okkur hafi verið þrjú um nótt er við komum heim í gær um íslenska miðnættið, vinnustundirnar átta á þessum sólríka en kalda mánudegi flugu hjá. Skríkti líka af gleði við að taka upp úr töskunum eftir vinnu.
Jæja, ég hálflýg því nú, ég skríkti aðallega af gleði þegar nýju skópörin sem sá myndarlegi keypti handa mér í útlandinu gægðust upp úr töskunni. 


Er hreint hissa á að ég skuli ekki einfaldlega springa af hamingjunni sem gutlar og geysist inni í mér. Út af þeim myndarlega sko. 
Sú ást hefur ekkert með skó að gera. Onei.

laugardagur, 24. september 2011

Sykrað & sætt. Dís-ætt.

Tabaði mér á ahamerískum dögum í ónefndum stórmarkaði með Trixað hjarta í gærkveldi



Sykur fyrir tennurnar. Það myndi Winshaw fjölskyldan segja.

föstudagur, 23. september 2011

BLestur

Milli þess sem ég kreisti krúttlega kallinn minn og krúttlega köttinn okkar, mæti í vinnuna og skólann, er ég húkt á siðblindri og fremur ógeðfelldri Winshaw fjölskyldu



Þar á undan var ég á kafi í ólánsemi og óhamingju Maxwells Sims.
Bráðum kemst ég í Rotters klúbbinn.

sunnudagur, 18. september 2011

Mér finnst rigningin góð

finnst mér skemmtilegt lag. Kannski af því mér finnst rigningin góð þó hún sé blaut. Þegar ég var unglingur fór ég stundum út mjög seint á kvöldin ef það var rigning, berfætt í uppáhaldsnáttfötunum mínum sem voru gömul herranáttföt. Labbaði hægt í Elliðaárdalnum og naut þess að fá rigninguna á mig í næturkyrrðinni og finna kalda, blauta steypuna undir fótum mér.Hugsanlegt að heill aldursmunur sé liðinn síðan ég gerði þetta síðast. Hugsanlegt að þetta sé ennþá skemmtilegt. Ég er bara yfirleitt sofnuð svona seint á kvöldin þó ég sé enn unglingur.

Núna er líka rok.


laugardagur, 17. september 2011

Nýr diskur

í nýja matarstellið


Sá myndarlegi var farinn aftur utan en er núna aftur kominn heim. Kom í gær með enn sænskari pakka en síðast


Verð alltaf jafn glöð að fá ástina mína heim. Óháð pakka. Aaalveg satt. Mér leiðist svo að sakna hans. Miklu skemmtilegra að hafa hann hjá mér. Hann býr líka til svo góðar, flöffí pönnukökur



Líklega þær bestu í heimi. Þannig er það.

sunnudagur, 11. september 2011

Nenni ekki að finna nafn á þessa færslu

Eftir síðbúna hádegisverðarveislu með góðum gestum og ofáti drifum við myndarlegi okkur í framkvæmd innanhúss. Framkvæmd sem lengi hefur staðið til, tók ekki sérlega mikið á né krafðist mikilla tilfæringa, en breytir alveg heljarinnar heilmiklu. Og núna er ég löt. Heljarinnar húðlöt. Svo löt að ef ég væri ekki nýbúin að fjárfesta í fartölvu þá væri ég ekki að blogga núna. Svo löt að ég nenni ekki að setja inn myndir af kræsingum dagsins, ostakökunni sem ég byrjaði á í gær eða einfalda, lata pulsuréttinum sem ég nennti svo ekki að elda og dæmdist á þann myndarlega fyrir vikið. Svo löt að ég er þegar komin í rúmið þar sem ég er sannfærð um að ég er of löt til að nenna að hátta mig síðar í kvöld. Svo löt að ég er að íhuga að lesa bara á bókina hjá þeim myndarlega því ég er ekki viss um að nenna að halda á bókinni sem ég er að lesa.

Svo löt að ég nenni ekki að hamra meira á lyklaborðið.

laugardagur, 10. september 2011

Makstur

Sá myndarlegi tók sig til og skar niður baguettebrauð gærdagsins, vætti með ólífuolíu, raðaði gúmmelaði úr ísskápnum ofan á sneiðarnar og stakk inní ofn í dulitla stund. Nýtti þar með brauð, sem annars hefði endað sem rasp, í dásamlega kvöldmáltíð fyrir tvo



Sá myndarlegi er fantagóður kokkur og sérdeilis lunkinn í réttum sem hann sjálfur kýs að kalla því girnilega nafni; upp úr mér. Ég hins vegar hef meiri ánægju af að kokka eftir uppskrift. Eins og t.d. ostatertuna sem ég er að baka núna, hún er fengin úr Gestgjafanum, 8.tbl.2007. Ég vildi óska að ég hefði getað myndað fyrir ykkur dásamlegu lyktina af fínt möluðu Bastogne kexinu frá LU, blandað saman við sykurinn og smjörið, en því miður verður þessi lyktarlausa að duga


Mér stóð svo ekki á sama þegar aðalfyllingin fyllti upp í fatið. Hún lyktar reyndar líka voðalega vel en ég á eftir að bæta einu þynnra lagi við, og hún virðist ekkert vera að minnka í ofninum


Sjáum til, sjáum til.