Eftir 2 vikur í tómri sælu og Tyrklandssól var ekki mikið mál að mæta aftur til vinnu. Fékk þær dásamlegu fréttir í morgunsárið að ég hefði eignast splunkunýja frænku í gær og ég gleðst yfir því að kvennaveldið í fjölskyldunni er á geysigóðu róli. Skítt með það þó klukkan hjá okkur hafi verið þrjú um nótt er við komum heim í gær um íslenska miðnættið, vinnustundirnar átta á þessum sólríka en kalda mánudegi flugu hjá. Skríkti líka af gleði við að taka upp úr töskunum eftir vinnu.
Jæja, ég hálflýg því nú, ég skríkti aðallega af gleði þegar nýju skópörin sem sá myndarlegi keypti handa mér í útlandinu gægðust upp úr töskunni.
Er hreint hissa á að ég skuli ekki einfaldlega springa af hamingjunni sem gutlar og geysist inni í mér. Út af þeim myndarlega sko.
Sú ást hefur ekkert með skó að gera. Onei.
2 ummæli:
þetta hljómar nú bara dásamlega alveg hreint
Einmitt eins og mér líður : )
Skrifa ummæli