mánudagur, 26. mars 2018

Af veðursnarki

Í Berlín var slíkur skítakuldi að okkur var farið að hlakka til að komast heim í góða veðrið. Sú glænýja tilhlökkun var fremur skrýtin tilfinning og ég veit að ég þarf ekkert að útskýra það neitt nánar fyrir ykkur. 

Þrátt fyrir blíðviðri helgarinnar hélt ég mig að mestu heima fyrir. Hugsaði vissulega um það að kona ætti nú að drífa sig út og teyga að sér ferska loftið í góðum göngutúr. Lét mér líka detta til hugar að draga hjólgarminn út úr skúrnum þegar sólin skein hvað mest. Það var bara ekkert einfalt að koma sér úr náttkjólnum og enn flóknara verk að slíta sig frá lestrinum. Lét mig þó hafa það að fara á milli húsa til að færa afabarninu kisukoll sem ég keypti handa henni á útimarkaði í Berlín. Litlar mannverur eins og hún eru líka álíka fallegar og sólin.

Arkaði heim úr vinnu í beljandi rigningu og roki. Er að sjóða fisk handa kettinum. Búin að rífa mig úr blautum gallabuxunum. Stend við eldhúsborðið í nærbuxum og peysu, með rauð læri af kulda og ískaldar tær í inniskóm af eiginmanninum. Þegar hann kemur heim steiki ég fiskinn. 

Þar til ætla ég að leyfa Ninu að óma um eldhúsið ásamt snarkinu af kartöflunum á pönnunni.

sunnudagur, 25. mars 2018

Ich bin ein Berliner

Í póstkorti frá Berlín hefði ég getað skrifað 

  1. Rambaði á rétta lest og var komin á hótelið uppúr hádegi. Fékk ekki að tjékka mig inn og varð að greiða 2 evrur fyrir að fá að geyma töskuna mína í sneisafullri töskugeymslunni. Varð líka að gramsa eftir sundbolnum og svitalyktareyðinum í flýti því ég var búin að bóka mig í dekur á allt öðru hóteli. Fann ekki hárburstann og hugsaði með mér að nú væri lukkan fokin út í Berlínskan vind. 
  2. Manstu eftir því þegar Michael Jackson sveiflaði krakkanum sínum yfir svalahandriði á hóteli í Berlín? Þangað arkaði ég eftir að hafa losað mig við töskuna á hótelinu sem ég gisti á (nei, ég gisti ekki í sömu svítu og Mikjáll). Fékk gluggaborð svo gott sem við hliðina á Brandenburgarhliðinu, át ljúfengan lax, svaðalegann Svartaskógareftirrétt og skálaði við hliðið í brakandi fersku hvítvíni. Sveif því næst á hótel spaið. Klemens skrúbbaði mig hátt og lágt með krítar- og kaffiskrúbbi (sem var soldið eins og sandur, fyrir utan kaffilyktina) og pakkaði mér svo inní plast. Eftir að hafa skolað af mér í sturtunni (ég sjálf sko, ekki Klemens) var ég klár í 90 mín. nudd. Það var Klemmi líka, komin vel inn í nuddið lækkaði hann röddina og spurði with great respect, would you like a more intimate massage? 
  3. Í miðju 9o mín. nuddi á ríkramannahóteli hálf hvíslaði nuddarinn því að mér hvort ég vildi meira intimate nudd. Mitt fyrsta viðbragð var NO! Gekk erfiðlega að slaka á það sem eftir lifði nuddsins. Fór líka að velta því fyrir mér hvað þetta intimate þýddi en kunni ekki við að spyrja, ég meina, hvað vildi hann nudda meira? Var ég bara að misskilja þetta, vildi hann kannski bara fá að kitla mig undir iljunum? Ég var allavega dauðfegin þegar hann vísaði mér inní prívat spasvítuna þar sem mín beið þvílíkur munaður, herregúd! Hægindastólar, legubekkir, nuddbaðkar, kampavín, ávextir, súkkulaði, sána, sódavatn, slakandi tónlist, allt hannað fyrir tvo en ég var bara ein og fannst vissara að læsa hurðinni. Naut þess í botn að loka mig af í 2,5 tíma í þessari þvílíkri hvílíkri spasælu, aaahhh!
  4. Ætlaði að eiga 2 daga með þeim myndarlega í Berlín áður en restin af Vegagerðarliðinu mætti í plássið en í ljós kom að Pétur átti að vera á fundi í Kaupmannahöfn þessa daga. 20 ár síðan ég hef verið ein erlendis svo ég ákvað að drífa mig bara, tími til kominn. Hef notið þess að rölta ein um götur Berlínar, stefnulaust á stundum. Kann best við mig í Prenzlauer Berg, hverfinu sem við bjuggum í sumar 2016 þegar við skiptum um íbúð. Notalegt að rölta um götur sem ég þekki. Búin að fara í klippingu á stofunni sem ég fór á þetta sumar 2016. Búið að loka skranbúðinni rétt hjá Mauer park. Rambaði inn á kaffihús þar sem ég fékk besta kanilsnúð sem ég hef bitið í og besta cappuccino (með 2-földu kaffiskoti (og bara kaffiskoti)) sem ég hef dreypt á. Líka gaman að rölta götur sem ég þekki ekki neitt, leyfi mér "að villast", örugg með Google map í símanum. Sest inná stað þegar ég vil, labba af stað þegar ég vil, borða þegar ég vil, beygi til hægri þegar ég vil og til vinstri ef ég vil. Nýt þess að vera hér með sjálfri mér en hlakka líka til að fá þann myndarlega til mín. 
  5. Eins og ég er búin að njóta þess að vera ein á ferð hér í Berlín þá var samt skelfilega gott að fá kallinn til mín. Erum búin að éta steik á frönskum veitingastað, pasta á ítölskum. Leiðast hönd i vettlingahönd í skítakulda, arka götur, setjast á kaffihús, hlægja að 5-aura bröndurum hvors annars, kyssast í hverri lestarferð, smakka romm frá El Salvador í matvöruverslun og velja nærbuxur á hvort annað, annað væri það! 
  6. Árshátíð starfsmannafélags Vegagerðarinnar hér í Berlín er yfirstaðin, mikið fjör, mikið gaman. Eftir fordrykk, 3 rétta góða máltíð, risastór glös af bjór, glensi og gaman var strikið tekið yfir Alexander platz á karíókibar, að okkur var sagt. Sem betur fer ekkert karókí heldur góður plötusnúður og kokteilar, dönsuðum á dúandi dansgólfi og skemmtum okkur fram eftir nóttu. Fyrr í ferðinni lágum við myndarlegi í rúminu á hótelinu okkar og veltum því fyrir okkur hvaða hlutverki svona stór bygging hefði haft í Austur-Þýskalandi á árum áður, ætli þetta hafi verið hótel sagði hann. Alveg örugglega hið alræmda Stasihótel fyrir erlenda gesti sagði ég hlægjandi. Daginn eftir, í góðum göngutúr með góðum leiðsögumanni, fengum við staðfest að hótelið var einmitt HÓTELIÐ. Stóra spurningin er bara hvort allur hlerunarbúnaðurinn (náði því ekki alveg hversu margir tugþúsundir af metrum af snúrum var dreginn úr veggjunum eftir hrun Stasis) hafi verði fjarlægður...
  7. Komum Intervac-vinum okkar aldeilis á óvart með því að birtast á tröppunum hjá þeim og vorum drifin út í hádegisverð. Hittum þau svo aftur yfir hádegisverði og fórum á Banksy sýningu sem var vægast sagt gjöðveik! Vinir okkar létu ekki þar við sitja, buðu okkur í partý á laugardagskvöldinu. Þegar við sögðum þeim að við værum að fara í kvöldverð og á tónleika í Charlottenburg svöruðu þau: Super! Þið komið þá bara eftir tónleikana og þar með var það afgreitt. Árstíðirnar hans Vivaldis voru afbragð í annars skítköldum kastalanum og partýið í fyrrum austur-Berlín var sprúðlandi af fjöri og áhugaverðu fólki. Gátum þó ekki gleymt okkur í djammi, komið að heimför morguninn eftir.
  
Nema, ég skrifaði engin póstkort, aldrei þessu vant. Þess vegna megið þið bara velja ykkur texta, alveg sjálf, að eigin vild. Gjörið svo vel smáfuglar fagrir, hreiðrið þið bara um ykkur í póstkortahorni frúarinnar.            

þriðjudagur, 13. mars 2018

Sjáumst í Berlín

sagði ég við þann myndarlega er ég kvaddi hann á BSÍ í argabýti gærdagsins. Lá svo í rúminu með sofandi köttinn hjúfraðann upp við mig og reyndi að festa svefn sem kom í mýflugumynd rétt áður en vekjaraklukkan skipaði mér aftur á lappir.

Í nótt keyrðu mamma og pabbi mig svo á flugvöllinn. Sit núna í flugvél á leið til Berlínar. Hef aldrei áður pikkað á tölvu í flugvél, er vön að lesa í bók. Er líka vön því að sitja ýmist í glugga- eða miðjusæti en núna sit ég við gangveginn, sætið sem eiginmaðurinn með sína löngu skanka er vanur að verma. Ekki slæmt get ég segja ykkur. Það skemmir heldur ekki fyrir að ég er eina manneskjan í sætaröðinni minni en það hefur aldrei hent mig áður.

Lögðum upp frá Íslandi í myrkri en sólin er farin að brjótast fram úr skýjunum, búin að bergja á rauðgulum litbrigðum við dökkbláan himinn og var að klára sítrónuteið.  Ein á ferð og enn sem komið er virðist lukkan með mér í för; rólegt að gera í KEF og rann í gegnum innritun og öryggistjékk, kampavínið rann sömuleiðis ljúflega niður meðan ég beið eftir boarding sem einnig rann áfram eins og vel smurt ganghjól.

Hvað við tekur í Berlín er ómögulegt að segja, kannski villist ég á lestarstöðinni og ramba inn í vitlausa lest eða fæ herfilegt herbergi á hótelinu með klóak lykt á baðherberginu. Eitt er víst, ævintýrið er rétt að hefjast og þessi pistill kemst ekki í loftið þó að ég sé í loftinu.

þriðjudagur, 6. mars 2018

Faraldur-Haraldur

Þú ert með eitthvað í munnvikinu, sagði ein indælis sölukona (og vinkona) við mig í vinnunni í gær. Þetta er frunsa sagði ég. Nei, svaraði hún, er þetta ekki súkkulaði? Nei, því miður, svaraði ég, þetta er frunsa.

Ég var 27 ára þegar ég fékk frunsu í fyrsta skipti. Ég bjó ein á þessum tíma, eða nei, reyndar ekki, ég leigði íbúð í Fellunum og bjó með honum Degi, eina kettinum sem ég hef átt og á enn. Ég bjó sumsé ein ásamt ketti í íbúð sem var að öllu leyti eins og íbúðin sem ég bjó í fyrstu ár lífs míns, tæplega 80 fermetra blokkaríbúð í Fellunum á 4. (efstu) hæð nema ég var ein (fyrir utan köttinn). Fyrstu 6 ár ævi minnar vorum við 7 í alveg eins íbúð (bara annað heimilisfang). Það hefur reyndar ekkert með frunsu að gera. 

Nema, þegar ég fékk frunsu í fyrsta sinn þá bjó ég næstum ein í íbúð sem var alveg eins og íbúðin sem ég bjó í til 6 ára aldurs og átti kærasta sem sem bjó í næsta hverfi við mig. Hann var að byggja sér hús í enn meira úthverfi en efra Breiðholt er/var/er og eitt kvöldið er hann kom til mín, í leiguíbúðina í Fellunum, var hann með frunsu. Þáverandi kærastinn (nei, ekki sá sem lánaði mér bílinn) varaði mig við því að kyssa sig, frunsur væru smitandi fyrirbæri. 27 ára gamalli fannst mér ég nógu sjóuð til að blása á slíkar bábiljur og neitaði að hlusta á þáverandi kærastann enda langaði mig mikið til að kyssa hann. Þá. 

Næsta dag var ég komin með frunsu á neðri vörina og satt að segja vakti hún áhuga minn. Þrátt fyrir aðvaranir þáverandi kærastans þá kroppaði ég í hana og kroppaði svo meira og kroppaði örlítið enn meira eða alveg þar til ég fann heldur mikið til og fann vökva koma úr þessari fyrstu frunsu minni. Þegar þetta gerðist var komið kvöld og ég var lögst í rúmið heima hjá mér í leiguíbúðinni þarna í Fellunum. 

Daginn eftir þegar ég vaknaði var efri vörin á mér föst við frunsuna á neðri vörinni og nei, ég er ekki að skálda. Efri og neðri vör voru límdar saman í frunsukossi. Fyrsta sem ég gerði var að rjúka fram á bað til að sjá þetta í spegli. Það var ekki sársaukalaust að leysa upp kossinn og ég hét á heilaga Maríu og afa hennar að ég myndi aldrei aftur kroppa frunsu! Nema, það dugði ekki til, frunsurnar héldu áfram að koma. Þegar hæst stóð var ég með 11 frunsur! Já, segi og skrifa, ellefu stórar, djúsí, gular frunsur (ég á mynd því til sönnunar en þið fáið aldrei að sjá hana)! Eftir örfáa daga var mér orðið rosalega illt í kringum hálsinn og var líka óvanalega slöpp, skreið uppí rúm beint eftir vinnu og svaf fram á morgun. Endaði á að fara á læknavaktina þar sem ég hitti lækni sem fékk hláturskast þegar hún tók á móti mér. Milli þess sem hún baðst afsökunar á hlátrinum þreifaði hún á hálsinum á mér, sagðist bara aldrei hafa séð annað eins frunsukeis og mig og bældi niður flissið, hristist í öxlunum af niðurbældum hlátri meðan hún rak pappatunguspaðanum í opið frunsuginið á mér.

Niðurstaðan var sú að þegar lítil börn fá frunsu þá fá þau víst oft líka eitlabólgu með og ég var víst eins og litlu börnin nema ég var jú orðin 27 ára  og var ekki með frunsu heldur frunsur en jú, með afar auma eitla og afskaplega þreytt. Þessu kom sumsé doktorinn frá sér milli frussandi hlátursins sem frissaði milli tannanna á henni meðan axlirnar hristust og andlitið herpist í (stundum) niðurbældum hlátri.

Nema hvað, síðan þá hef ég stundum ekki þurft annað en að fara í fýlu til að fá frunsu. Um leið og kerfið (ég, hugurinn, líkaminn) fer í kerfi þá kemur frunsa. Ekkert tilkomumál svo sem, held ég hafi í mesta lagi fengið 2-3 frunsur í einu síðan þarna um árið. Nema, frunsan í munnvikinu á mér, sem nú er svo gott sem farin, var ansi andstyggileg. Í hvert skipti sem ég gapti til að gleypa í mig mat (þið sem þekkið mig vitið að ég veit fátt betra) þá minnti hún rækilega á sig. Hún rifnaði upp og lak blóði (já, ég veit, þetta blogg er bannað innan 12 ára) sem harðnaði og rifnaði svo aftur upp og harðnaði aftur og fékk sölufólk til að trúa því að kona væri svo mikill matargrís að hún væri með súkkulaði í munnvikunum. Ég veit, það er ekkert einfalt að vera ég!

Nema hvað, í kvöld er frunsan nánast horfin, rétt svona roði, eins og ég hafi klínt smá varalit niður fyrir varirnar.