Þrátt fyrir blíðviðri helgarinnar hélt ég mig að mestu heima fyrir. Hugsaði vissulega um það að kona ætti nú að drífa sig út og teyga að sér ferska loftið í góðum göngutúr. Lét mér líka detta til hugar að draga hjólgarminn út úr skúrnum þegar sólin skein hvað mest. Það var bara ekkert einfalt að koma sér úr náttkjólnum og enn flóknara verk að slíta sig frá lestrinum. Lét mig þó hafa það að fara á milli húsa til að færa afabarninu kisukoll sem ég keypti handa henni á útimarkaði í Berlín. Litlar mannverur eins og hún eru líka álíka fallegar og sólin.
Arkaði heim úr vinnu í beljandi rigningu og roki. Er að sjóða fisk handa kettinum. Búin að rífa mig úr blautum gallabuxunum. Stend við eldhúsborðið í nærbuxum og peysu, með rauð læri af kulda og ískaldar tær í inniskóm af eiginmanninum. Þegar hann kemur heim steiki ég fiskinn.
Þar til ætla ég að leyfa Ninu að óma um eldhúsið ásamt snarkinu af kartöflunum á pönnunni.