þriðjudagur, 6. mars 2018

Faraldur-Haraldur

Þú ert með eitthvað í munnvikinu, sagði ein indælis sölukona (og vinkona) við mig í vinnunni í gær. Þetta er frunsa sagði ég. Nei, svaraði hún, er þetta ekki súkkulaði? Nei, því miður, svaraði ég, þetta er frunsa.

Ég var 27 ára þegar ég fékk frunsu í fyrsta skipti. Ég bjó ein á þessum tíma, eða nei, reyndar ekki, ég leigði íbúð í Fellunum og bjó með honum Degi, eina kettinum sem ég hef átt og á enn. Ég bjó sumsé ein ásamt ketti í íbúð sem var að öllu leyti eins og íbúðin sem ég bjó í fyrstu ár lífs míns, tæplega 80 fermetra blokkaríbúð í Fellunum á 4. (efstu) hæð nema ég var ein (fyrir utan köttinn). Fyrstu 6 ár ævi minnar vorum við 7 í alveg eins íbúð (bara annað heimilisfang). Það hefur reyndar ekkert með frunsu að gera. 

Nema, þegar ég fékk frunsu í fyrsta sinn þá bjó ég næstum ein í íbúð sem var alveg eins og íbúðin sem ég bjó í til 6 ára aldurs og átti kærasta sem sem bjó í næsta hverfi við mig. Hann var að byggja sér hús í enn meira úthverfi en efra Breiðholt er/var/er og eitt kvöldið er hann kom til mín, í leiguíbúðina í Fellunum, var hann með frunsu. Þáverandi kærastinn (nei, ekki sá sem lánaði mér bílinn) varaði mig við því að kyssa sig, frunsur væru smitandi fyrirbæri. 27 ára gamalli fannst mér ég nógu sjóuð til að blása á slíkar bábiljur og neitaði að hlusta á þáverandi kærastann enda langaði mig mikið til að kyssa hann. Þá. 

Næsta dag var ég komin með frunsu á neðri vörina og satt að segja vakti hún áhuga minn. Þrátt fyrir aðvaranir þáverandi kærastans þá kroppaði ég í hana og kroppaði svo meira og kroppaði örlítið enn meira eða alveg þar til ég fann heldur mikið til og fann vökva koma úr þessari fyrstu frunsu minni. Þegar þetta gerðist var komið kvöld og ég var lögst í rúmið heima hjá mér í leiguíbúðinni þarna í Fellunum. 

Daginn eftir þegar ég vaknaði var efri vörin á mér föst við frunsuna á neðri vörinni og nei, ég er ekki að skálda. Efri og neðri vör voru límdar saman í frunsukossi. Fyrsta sem ég gerði var að rjúka fram á bað til að sjá þetta í spegli. Það var ekki sársaukalaust að leysa upp kossinn og ég hét á heilaga Maríu og afa hennar að ég myndi aldrei aftur kroppa frunsu! Nema, það dugði ekki til, frunsurnar héldu áfram að koma. Þegar hæst stóð var ég með 11 frunsur! Já, segi og skrifa, ellefu stórar, djúsí, gular frunsur (ég á mynd því til sönnunar en þið fáið aldrei að sjá hana)! Eftir örfáa daga var mér orðið rosalega illt í kringum hálsinn og var líka óvanalega slöpp, skreið uppí rúm beint eftir vinnu og svaf fram á morgun. Endaði á að fara á læknavaktina þar sem ég hitti lækni sem fékk hláturskast þegar hún tók á móti mér. Milli þess sem hún baðst afsökunar á hlátrinum þreifaði hún á hálsinum á mér, sagðist bara aldrei hafa séð annað eins frunsukeis og mig og bældi niður flissið, hristist í öxlunum af niðurbældum hlátri meðan hún rak pappatunguspaðanum í opið frunsuginið á mér.

Niðurstaðan var sú að þegar lítil börn fá frunsu þá fá þau víst oft líka eitlabólgu með og ég var víst eins og litlu börnin nema ég var jú orðin 27 ára  og var ekki með frunsu heldur frunsur en jú, með afar auma eitla og afskaplega þreytt. Þessu kom sumsé doktorinn frá sér milli frussandi hlátursins sem frissaði milli tannanna á henni meðan axlirnar hristust og andlitið herpist í (stundum) niðurbældum hlátri.

Nema hvað, síðan þá hef ég stundum ekki þurft annað en að fara í fýlu til að fá frunsu. Um leið og kerfið (ég, hugurinn, líkaminn) fer í kerfi þá kemur frunsa. Ekkert tilkomumál svo sem, held ég hafi í mesta lagi fengið 2-3 frunsur í einu síðan þarna um árið. Nema, frunsan í munnvikinu á mér, sem nú er svo gott sem farin, var ansi andstyggileg. Í hvert skipti sem ég gapti til að gleypa í mig mat (þið sem þekkið mig vitið að ég veit fátt betra) þá minnti hún rækilega á sig. Hún rifnaði upp og lak blóði (já, ég veit, þetta blogg er bannað innan 12 ára) sem harðnaði og rifnaði svo aftur upp og harðnaði aftur og fékk sölufólk til að trúa því að kona væri svo mikill matargrís að hún væri með súkkulaði í munnvikunum. Ég veit, það er ekkert einfalt að vera ég!

Nema hvað, í kvöld er frunsan nánast horfin, rétt svona roði, eins og ég hafi klínt smá varalit niður fyrir varirnar.       

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það er eins gott að þessi koss þarna um árið hafi verið þess virði!

Frú Sigurbjörg sagði...

Ef þú hefðir spurt mig þá er ekki víst að þú hefðir fengið sama svar og í dag...