sunnudagur, 25. mars 2018

Ich bin ein Berliner

Í póstkorti frá Berlín hefði ég getað skrifað 

  1. Rambaði á rétta lest og var komin á hótelið uppúr hádegi. Fékk ekki að tjékka mig inn og varð að greiða 2 evrur fyrir að fá að geyma töskuna mína í sneisafullri töskugeymslunni. Varð líka að gramsa eftir sundbolnum og svitalyktareyðinum í flýti því ég var búin að bóka mig í dekur á allt öðru hóteli. Fann ekki hárburstann og hugsaði með mér að nú væri lukkan fokin út í Berlínskan vind. 
  2. Manstu eftir því þegar Michael Jackson sveiflaði krakkanum sínum yfir svalahandriði á hóteli í Berlín? Þangað arkaði ég eftir að hafa losað mig við töskuna á hótelinu sem ég gisti á (nei, ég gisti ekki í sömu svítu og Mikjáll). Fékk gluggaborð svo gott sem við hliðina á Brandenburgarhliðinu, át ljúfengan lax, svaðalegann Svartaskógareftirrétt og skálaði við hliðið í brakandi fersku hvítvíni. Sveif því næst á hótel spaið. Klemens skrúbbaði mig hátt og lágt með krítar- og kaffiskrúbbi (sem var soldið eins og sandur, fyrir utan kaffilyktina) og pakkaði mér svo inní plast. Eftir að hafa skolað af mér í sturtunni (ég sjálf sko, ekki Klemens) var ég klár í 90 mín. nudd. Það var Klemmi líka, komin vel inn í nuddið lækkaði hann röddina og spurði with great respect, would you like a more intimate massage? 
  3. Í miðju 9o mín. nuddi á ríkramannahóteli hálf hvíslaði nuddarinn því að mér hvort ég vildi meira intimate nudd. Mitt fyrsta viðbragð var NO! Gekk erfiðlega að slaka á það sem eftir lifði nuddsins. Fór líka að velta því fyrir mér hvað þetta intimate þýddi en kunni ekki við að spyrja, ég meina, hvað vildi hann nudda meira? Var ég bara að misskilja þetta, vildi hann kannski bara fá að kitla mig undir iljunum? Ég var allavega dauðfegin þegar hann vísaði mér inní prívat spasvítuna þar sem mín beið þvílíkur munaður, herregúd! Hægindastólar, legubekkir, nuddbaðkar, kampavín, ávextir, súkkulaði, sána, sódavatn, slakandi tónlist, allt hannað fyrir tvo en ég var bara ein og fannst vissara að læsa hurðinni. Naut þess í botn að loka mig af í 2,5 tíma í þessari þvílíkri hvílíkri spasælu, aaahhh!
  4. Ætlaði að eiga 2 daga með þeim myndarlega í Berlín áður en restin af Vegagerðarliðinu mætti í plássið en í ljós kom að Pétur átti að vera á fundi í Kaupmannahöfn þessa daga. 20 ár síðan ég hef verið ein erlendis svo ég ákvað að drífa mig bara, tími til kominn. Hef notið þess að rölta ein um götur Berlínar, stefnulaust á stundum. Kann best við mig í Prenzlauer Berg, hverfinu sem við bjuggum í sumar 2016 þegar við skiptum um íbúð. Notalegt að rölta um götur sem ég þekki. Búin að fara í klippingu á stofunni sem ég fór á þetta sumar 2016. Búið að loka skranbúðinni rétt hjá Mauer park. Rambaði inn á kaffihús þar sem ég fékk besta kanilsnúð sem ég hef bitið í og besta cappuccino (með 2-földu kaffiskoti (og bara kaffiskoti)) sem ég hef dreypt á. Líka gaman að rölta götur sem ég þekki ekki neitt, leyfi mér "að villast", örugg með Google map í símanum. Sest inná stað þegar ég vil, labba af stað þegar ég vil, borða þegar ég vil, beygi til hægri þegar ég vil og til vinstri ef ég vil. Nýt þess að vera hér með sjálfri mér en hlakka líka til að fá þann myndarlega til mín. 
  5. Eins og ég er búin að njóta þess að vera ein á ferð hér í Berlín þá var samt skelfilega gott að fá kallinn til mín. Erum búin að éta steik á frönskum veitingastað, pasta á ítölskum. Leiðast hönd i vettlingahönd í skítakulda, arka götur, setjast á kaffihús, hlægja að 5-aura bröndurum hvors annars, kyssast í hverri lestarferð, smakka romm frá El Salvador í matvöruverslun og velja nærbuxur á hvort annað, annað væri það! 
  6. Árshátíð starfsmannafélags Vegagerðarinnar hér í Berlín er yfirstaðin, mikið fjör, mikið gaman. Eftir fordrykk, 3 rétta góða máltíð, risastór glös af bjór, glensi og gaman var strikið tekið yfir Alexander platz á karíókibar, að okkur var sagt. Sem betur fer ekkert karókí heldur góður plötusnúður og kokteilar, dönsuðum á dúandi dansgólfi og skemmtum okkur fram eftir nóttu. Fyrr í ferðinni lágum við myndarlegi í rúminu á hótelinu okkar og veltum því fyrir okkur hvaða hlutverki svona stór bygging hefði haft í Austur-Þýskalandi á árum áður, ætli þetta hafi verið hótel sagði hann. Alveg örugglega hið alræmda Stasihótel fyrir erlenda gesti sagði ég hlægjandi. Daginn eftir, í góðum göngutúr með góðum leiðsögumanni, fengum við staðfest að hótelið var einmitt HÓTELIÐ. Stóra spurningin er bara hvort allur hlerunarbúnaðurinn (náði því ekki alveg hversu margir tugþúsundir af metrum af snúrum var dreginn úr veggjunum eftir hrun Stasis) hafi verði fjarlægður...
  7. Komum Intervac-vinum okkar aldeilis á óvart með því að birtast á tröppunum hjá þeim og vorum drifin út í hádegisverð. Hittum þau svo aftur yfir hádegisverði og fórum á Banksy sýningu sem var vægast sagt gjöðveik! Vinir okkar létu ekki þar við sitja, buðu okkur í partý á laugardagskvöldinu. Þegar við sögðum þeim að við værum að fara í kvöldverð og á tónleika í Charlottenburg svöruðu þau: Super! Þið komið þá bara eftir tónleikana og þar með var það afgreitt. Árstíðirnar hans Vivaldis voru afbragð í annars skítköldum kastalanum og partýið í fyrrum austur-Berlín var sprúðlandi af fjöri og áhugaverðu fólki. Gátum þó ekki gleymt okkur í djammi, komið að heimför morguninn eftir.
  
Nema, ég skrifaði engin póstkort, aldrei þessu vant. Þess vegna megið þið bara velja ykkur texta, alveg sjálf, að eigin vild. Gjörið svo vel smáfuglar fagrir, hreiðrið þið bara um ykkur í póstkortahorni frúarinnar.            

Engin ummæli: