miðvikudagur, 31. ágúst 2011

Skel

Í áframhaldi af mér leiðist, þá leiðist mér óskaplega að tala um pólitík. Mér finnst gaman að hlusta á skoðanir og sjónarmið annara, en mér leiðist pólitískar umræður með trúarofstækiskeim. Því miður vill of oft svo verða. Fyrir nú svo og utan að mér hreinlega blöskrar fólk sem æjar og óar undan kreppunni en bíður samt eftir að 2007 snúi aftur með öllu sínu brjálæði, hroka og hleypidómum.

Talandi um bakarísmat, þá fór ég á stúfana í næsta nágrenni við nýja vinnustaðinn minn og fann hana þessaMér leið eins og ég hefði dottið í lukkupottinn á uppboði. Skel var uppáhaldið mitt (eitt af nokkrum reyndar) í bakaríinu þegar ég var barn. Og þessi bragðaðist alveg eins og mig minnti að skeljar ættu að bragðast.

Ýtti á e-n takka á sjónvarpsfjarstýringunni.

"Augnablik, hleð inn sjónvarpsviðmóti" birtist á túbuskjánum. Sá myndarlegi er erlendis svo ég neyddist til að finna út úr þessu sjálf. Slökti því á sjónvarpinu. Fór að hugsa um viðmót. Hjá fólki. Komst að eftirfarandi;

Mér leiðist óskaplega biturt fólk. 
Mér leiðist líka stjórnsamt fólk, fólk sem kann ekki að sleppa takinu og njóta nútíðarinnar, fólk með frústrasjónir og endalausa komplexa út í annað fólk. 
Að auki leiðist mér líka dónaskapur, sér í lagi af fullorðnu fólki sem ætti að kunna að skammast sín og sýna lágmarks kurteisi öðrum til handa.
Mér leiðist fólk sem fettir fingur út í hamingju annara, fólk sem kann ekki að samgleðjast öðrum. 

Og eins og þetta sé ekki nóg, þá leiðist mér mest af öllu fólk sem fettir fingur út í e-ð sem það gerir svo sjálft, og þá er það í lagi og jafnvel kjút, skondið og skemmtilegt. 

Mér leiðist nebbla líka hræsni.

sunnudagur, 28. ágúst 2011

Fimm-vörðu-Þórs-mörk

Um helgina labbaði ég Fimmvörðuháls með þeim myndarlega


gisti í Þórsmörk


og las landslag er aldrei asnalegt


"svona varð það til
landslagið
sumum finnst það fallegt
landslag er aldrei
asnalegt""Tekið upp af bls. 169 í landslag er aldrei asnalegt eftir Bergsvein Birgisson"

laugardagur, 27. ágúst 2011

Loft-hæna

Eftir 2ja daga umhugsun fór ég og keypti hana þessa. Fannst kominn tími til að eyða peningum í svona tækni, enda komin vel inn í þrítugsaldurinn. Hún er þó ekki ástæðan fyrir því að ég er komin á fætur eldsnemma á laugardagsmorgni. Við myndarlegi erum að fara í ferð. Gönguferð. Áhyggjulaus. Fyrir þá sem hafa áhyggjur, sér í lagi nafnlausa liðið, þá er ekkert að óttast. Nýja tölvan mín verður vandlega falin undir lausa þilinu í gólfinu vinstra megin undir rúminu okkar í hjónaherberginu í risinu. Og hana nú.

föstudagur, 26. ágúst 2011

Já, það er kominn föstudagur.

Aftur. Hvernig sem á því stendur. Er nýbúin að furða mig á því á Facebook að það hafi verið mið-vika s.l. miðvikudag. Aftur. Fékk eina undirtekt hjá vinum. Greinilega enginn að furða sig á ógnarhraða tímans. Líklegast flestir búnir að sættast við þann hraða. Ég er reyndar ekkert ósátt. Get ekkert kvartað yfir því að vikurnar fljúgi í bráðskemmtilegri vinnu og að helgarnar hverfi í vellíðan. En ég væri alveg til í að hætta að vakna reglulega á undan vekjaraklukkunni. Finnst hálfpínlegt að skríða fram úr um sex og skilja fimmtuga hróið mitt eftir í rúminu, sofandi vært eins og unglingur. Á þessu virkilega ekki að vera öfugt farið? Eða er það bara enn ein klisjan?

Ekki skil ég hvað það er sem vekur hugann svona snemma. Kannski er tilhlökkunin að komast í vinnuna svona ferleg. Eða kaffiþörfin svona bagaleg. Það eru altjént ekki áhyggjur sem stela frá mér svefni og það hlýtur að vera gott.

Það er auðvitað alveg yndislegt að virða þennan fallega, stilla morgun fyrir sér. Horfa út lygnann flóann út um baðherbergisgluggann, hlusta á þögnina, hugsa um fallega manninn minn sem sefur og já, einmitt! Reyni að muna þennan þegar ég byrja að geispa seinnipartinn og á enn eftir að vinna nokkra kltíma.

mánudagur, 22. ágúst 2011

120 ár

Bróðir minn er orðinn þrjá-tíu-og-fimm-ára. Sama hvað hann rembist við að eldast þessi elska, þá verður hann alltaf litli bróðir


Brósi í óvæntu afmælisveislunni sinni s.l. laugardagskvöld


Sá myndarlegi uppástendur að daginn sem bróðir minn fæddist hafi hann verið að skenkja vín á heimili foreldra sinna á Hvolsvelli. Það vill nefninlega svo skemmtilega til að minn ágæti tengdafaðir deilir afmælisdegi með bróður mínum


Matthías og Dagur í afmælisveislunni minni á afmælisdegi
Hjalta í febrúar s.l.


Þrátt fyrir að hálf öld skilji þessa kauða að í aldri finnst mér margt líkt með þeim. Báðir eru þeir hávaxnir og grannir. Báðir eru þeir rólegir og yfirvegaðir. Báðir eru þeir víðlesnir og vita heljarins öll um allt og ekki neitt. Báðir segja þeir skemmtilega frá. Báðir eru þeir ljúfir og hafa góða nærveru. Báðir eiga þeir afmæli í dag.

Fínir náungar.

fimmtudagur, 18. ágúst 2011

Lífið á rósum

Þrátt fyrir áhyggjur andlitsbókarvina og nafnlausum aðila (lesist: heigull sem þorir ekki að skrifa undir nafni) var ekki brotist inn meðan við myndarlegi nutum Hornstranda. Húsið heldur aldrei tómt.

Fullt af ýmsum skrýmsum hlutum hafa skekkt tímann og skynið síðan þá.
Höfum skipts á gleði, hlátri, skoðunum, áhyggjum, styrk, sorg og tárum. Höfum haft hausana fulla af hugmyndum, spennu, væntingum og vonum. Ekki víst að rætist úr öllu. Og þó.

Tíminn stendur víst aldrei kyrr. Lífið er upp og niður, út og suður og jafnvel fer í hringi. Lífið er ekki einfalt og ekkert okkar kemst lifandi frá því. En lífið er gjöf og það er þess virði að lifa því.

Eins og ástin mín segir stundum: lífið er ekki bara leikur, það er líka dans á rósummiðvikudagur, 17. ágúst 2011

Ég verð ekki eins og þú þegar ég verð miðaldra

Miðaldra kona
- hættu að horfa á mig eins og ég hafi gert þér e-ð
- þegar þú varst á mínum aldri varstu ekki eins og ég
- ég hef ekkert með það að gera
- eigðu það við foreldra þína

Miðaldra kona
- ég er eldri en þú álítur mig vera
- ég veit meira en þú heldur
- það hefur ekkert með aldur að gera
- eigðu það við sjálfa þig

Miðaldra kona
- hættu að kenna mér um mistök þín
- þú varst vanþakklát og ótrú
- þú tókst þínar ákvarðanir
- eigðu það við sjálfa þig

Miðaldra kona
- ég er ég og þú ert þú- mér er alveg sama um þig
- mér kemur þú ekki við
- ég á það við sjálfa mig

þriðjudagur, 9. ágúst 2011

sunnudagur, 7. ágúst 2011

Hýr

Á hinsegin degi gærdagsins fór ég með köttinn til dýralæknis, keypti almennilegt kaffi, labbaði niður í bæ, naut veðurblíðunnar, rakst á vini, fékk gluggasæti á krúttlegum veitingastað, fann systur mína á Arnarhóli, fór í mat til mömmu, mátaði hatta og sá Pál Óskar í fréttunum.

Páll Óskar hefur lengi verið í uppáhaldi hjá mér. Eftir því sem árin líða festir hann sig meir og meir í þeim sessi. Páll Óskar er ekki bara frábær listamaður, hann er frábær mannvera. Ég dáist að honum ekki bara fyrir að vera flottastur í göngunni ár eftir ár, heldur fyrir boðskapinn. Orðum Palla þarf að halda á lofti alltaf, alla daga, jafnt og þétt.


Hjá mér eru hinsegin dagar alla daga.

Mæli með því að þú klikkir á Orðum Palla, það er þess virði að hlusta á þau. Oft.

fimmtudagur, 4. ágúst 2011

Kistu-lagning

Í kistulagningu ömmu í dag varð mér hugsað til þess að áður fyrr voru lík oft mynduð. Ég man vel eftir myndinni af bróður hennar mömmu, sem dó 10 daga gamall, í opinni kistunni fyrir ofan rúmgaflinn hjá ömmu og afa. Ég horfði oft á hana og þótti hún falleg. Í dag langaði mig að taka mynd af ömmu, hún var svo falleg og friðsæl, næstum eins og hún svæfi værum svefni á hvítum koddanum. Ég var bara ekki með aðra myndavél en augun og hugann.

Pabbi man eftir því að afi hans var um vikubil hafður í opinni kistu í borðstofunni heima áður en hann var jarðaður. Sömu sögu var að segja um ömmu hans í sveitinni, hún var í kistunni inni í stofu í vikutíma fyrir jarðarför. Í dag er nándin við dauðann ekki svo mikil. Við virðumst fjarlægast hann meir og meir. Við fengum góðan tíma með ömmu á spítalanum eftir að hún var látin. Þó hún hefði kvatt og væri farin, þá finnst mér þessi stund á eftir dýrmæt. Og þó að kveðjan í dag væri erfið þá fannst mér gott að sjá hana aftur, strjúka kalda kinnina hennar og mjúka, þykka hárið.

Dauðinn er óþægilega endanlegur en hann er líka eina vissan í okkar heimi.