föstudagur, 30. september 2016

Beyoncé bjargaði mér í morgun.

Dagsatt. Við myndarlegi erum búin að kaupa okkur nýjan bíl. Næstum því glænýjan (allavega á okkar mælikvarða). Í morgun þurfti ég að skafa framrúðuna. Nema hvað, sköfurnar okkar eru ennþá í gamla bílnum sem þessa stundina er staddur í Ólafsvík. Gullkerran, 16 ára gömul, er í yfirhalningu hjá föður mínum. Það kom sér því aldeilis vel að hafa Beyoncé tiltæka í nýja bílnum. Var að vísu smá rönd eftir ofarlega fyrir miðri rúðu en það var ekki geisladiskahulstrinu um að kenna heldur hæð frúarinnar, nýji bíllinn er nefnilega smájeppi svo kallaður, sem kallaði fram smæð frúarinnar í þessu tiltekna tilviki.

Legg ekki meira á ykkur elskurnar, stórar sem smáar.

fimmtudagur, 29. september 2016

Fari það í húllandi haha og híhí

Skrambi margt á daga mína drifið síðan síðast.

  1. Búin að fá Húlladúlluna vinkonu mína í heimsókn og gera heiðarlega tilraun til að húlla. Kom mér á óvart hvað eiginmaðurinn var liðtækur í húllinu og hversu auðvelt það reyndist að húlla með handleggjunum. Húllandi sprúllandi fjör.
  2. Loksins búin að sjá Frozen. Líf mitt verður aldrei samt á eftir.
  3. Vaknaði fyrir allar aldir á sunnudegi við að sprúðlandi sæt systurdóttir mín hoppaði ofan á mig til þess eins að vekja mig. Stóðst ekki sæta brosið hennar sem mætti mér þegar ég opnaði augun.
  4. Fór með hana á Hamborgabúlluna sem er hérna úti á horni hjá okkur þar sem við sungum við raust með Pallalagi meðan eiginmaðurinn litaði í litabók. Ekki á planinu að heimsækja fabrikuna þá næstu 8 árin.
  5. Fór í matarboð og hitti vaskan hund sem ég ærslaðist í og gaf restina af nautsteikinni minni milli þess sem ég skvetti í mig rauðvíni. Húllandi sprúllandi fjör.
  6. Búin að keyra uppí Heiðmörk og finna Silungapoll. 
  7. Hitta vinkonur á Vegan kaffihúsi og háma í mig besta kínóasalat sem ég hef á ævinni bragðað.
  8. Skála við aðra sprúðlandi sæta systurdóttur í skemmtilegum kokteilum og eta á mig gat.
  9. Búin að standa úti á svölum með gapandi ginið í átt að dansandi norðurljósum. Missti hins vegar af fyrirhugaðri norðurljósasýningu gærdagsins en vaknaði með köttinn svo gott sem vafin utan um hálsinn á mér.
  10. Búin að horfast í tómar augntóftir á gómsætum þorskhaus.
Í kvöld reif ég parmesan niður í sundurslegið eggið sem ég velti snitzelsneið uppúr áður en ég velti henni í heimagert brauðrasp og henti því næst inní ofn með vænni tuggu af smjöri. Dró fram fíngerðan disk úr Mávastelli nokkru, líklega ætlað undir smákökur, og snæddi brauðraspofnsteiktu parmesansnitzelsneiðina af í fylgd með saltaðri lárperu. Prýðis gott.

Núna ætla ég að sækja eiginmanninn á Keflavíkurflugvöll, alveg tímabært að fá hann heim í kotið.

þriðjudagur, 20. september 2016

Skellti mér í sjóinn með skæslega þýska fjóreykinu frá í fyrrakvöld


Eiginmaðurinn er ekki enn búinn með trópícal safann svo ég ákvað að gefa honum einn sjéns enn (safanum, ekki karlinum). Í fylgd með vodka, þurrum martíní og Passóa verður til kokteill sem ber það frumlega heiti Ástríðudraumur, skítsæmilegur en ekki mikið meira en það. Trópíkal safinn hefur hér með fengið lokasjénsinn hjá mér.

Hafsjór af fantasíum geymir fáa, jafnvel enga, slagara. Helst Verð að fara heim sem einhver hlustandi gæti kannast við. Engin póstkort að finna í þessu tvöfalda plötuumslagi, hins vegar er að hægt að opna það uppá þessa glæsilegu gátt af fegurð og lekkerheit


Það merkilega við þessa plötu er þó líklega sú staðreynd að mamma átti hana ekki heldur fékk ég hana gefins frá gömlum kærasta. Í innra plötuumslagið hefur hann skrifað í góðri trú; frá þínum að eilýfu. Að sjálfsögðu entist það ekki rassgat, það er heldur ekki til nein eilýfð.

sunnudagur, 18. september 2016

Bóní Emm

Karlinn dreif sig í ræktina og ég dró fram eina af gömlu Boney M. plötunum hennar mömmuNæturflug til Venusar var vel á veg komið þegar ég fór eitthvað að kíkja á fyrra plötualbúmslafið - plötuumslagið er sumsé eins og hér sé tvöföld plata á ferð en svo er ekki - og viti menn, þar leyndust gríðarlega skæslegar myndir af þessu þýska fjóreyki sem ég hafði bara aldrei á ævinni litið augum áður þrátt fyrir að hafa brugðið plötunni svona c.a. 3335 sinnum á fóninnNema hvað haldið þið að hafi komið uppúr kafinu þegar ég sneri myndunum við?Auðvitað eru þetta póstkort, fólk var svona heilt yfir ekkert mikið að senda e-mail þarna árið 1978, miklu meira tekið að draga fram blýantinn og splæsa í eins og eitt frímerki. Dreplangar auðvitað að senda mömmu eitt af þessum póstkortum og spyrja hana að því hvort hún hafi vitað af þeim þarna í plötuumslaginu. En, ég tími því ekki. Sorrí mamma.

Dró líka fram kokteilhristarann (hvort ég dró Bóní M. eða hristarann fram á undan fæst ekki gefið upp hér). Eigum Tropical safa sem eiginmanninum þykir voða góður. Ég hinsvegar er ekki alveg jafn hrifin en hugsaði með mér að rétt væri að gefa honum annan sjéns, eins og sagt er. Trópíkalsafi hristur saman með limesafa, rommi, sykurlausn og campari gerir víst eitt stykki koketil sem ber heitið Heimspekingur erlendisHvort heimspekingurinn sá fór erlendis með næturflugi til Venusar er á huldu, drykkurinn hins vegar er ekki mikið meira en skítsæmilegur. Ákvað að demba meiri skvettu af uppáhalds hráefninu mínu útí drykkinn, Kamparí. Áfram skítsæmilegt. 38 ára gömlu slagararnir af Næturfluginu stóðu þó fyllilega fyrir sínu, slátturinn í Raspútín, niðurinn af Babýlon ánni og brúna stelpan í hringnum. Persónulegt uppáhald er þó alltaf þetta. Stúlka ætti heldur aldrei að skipta um elskanda um miðja nótt. 

föstudagur, 16. september 2016

Láslaust blogg

Loksins þegar ég ætlaði að nota fína hjólalásinn minn þá fann ég hann ekki. Teymdi samt fákinn út úr skúrnum og steig pedalana fast á móti vindinum með lopahúfu á hausnum. Elda tók brosandi á móti mér niðrá Haiti og hjólið beið mín láslaust fyrir utan. Sólin skein við mér á heimleiðinni og ég sá svo margt fallegt. Túristana líka, seiseijá. Með ylvolgar, svartar baunir í bakpokanum.

Karlinn er ennþá í vinnunni, puðar við að skemmta Háskólanemum í vísindaferð. Konan opnaði ísskápinn og fann 4 sveppi og örlitla spínatrest í poka. Steikti sveppina í glás af smjöri, skar niður hvítlauksrif og bætti úti ásamt spínatrestinni. Hvítlaukssmjörlyktin var svo dásamleg að ég ákvað að skera niður annað rif og bæta útí. Átti afgang af útrunnu saffranpasta - rennur pasta í alvöru út? - sem ég sauð og blandaði saman við smjörsteikinguna, reif eitthvað af sítrónuberki yfir og dágóðan slatta af parmesan. Að sjálfsögðu. Svakalega gott þó ég segi sjálf frá. 

Næst þegar ég fer á fyllerí ætla ég að kalla það vísindaferð.

laugardagur, 10. september 2016

Í kvefþoku kemur bara svona blogg

Skreið heim eins og undin tuska eftir vinnu á fimmtudag. Með auman, skraufþurran háls, kitlandi sviða í nefi og kvefþoku í hausnum var freistandi að hætta við vinkonuhitting um kvöldið. Sem betur fer snýtti ég mér duglega, fór í aðra blússu og fékk karlinn til að keyra mig á Seilugranda með rauðvínsflösku, glænýtt sultutau og brakandi útrunnið Lime súkkulaði handa vinkonunum. Vinkonum sem konan er stolt að geta státað af. Vinkonum sem eru svo frábærar að hún skilur ekki alltaf alveg af hverju þær nenna að vera vinkonur hennar, en nýtur þess samt í botn í hvert sinn að deila lífsins gleði jafnt og sorgum með þessum kjarnakonum. Og slúðra, sei sei jú.

Í gær ætlaði ég að gera heljarins ósköp af allskonar í vinnunni en áorkaði ekki nema 1/4, vann á hraða snigils og geiflaði mig í þvílíkum geispum að á tímabili óttaðist ég helst að snarast úr kjálkalið. 

Í dag var ég iðin við að hengslast um á náttkjólnum, drekka kaffi, spjalla við mömmu, leggja mig, lesa grein um Abba Kovner, klappa kettinum, drekka meira kaffi. Legg ekki meira á ykkur.