- Búin að fá Húlladúlluna vinkonu mína í heimsókn og gera heiðarlega tilraun til að húlla. Kom mér á óvart hvað eiginmaðurinn var liðtækur í húllinu og hversu auðvelt það reyndist að húlla með handleggjunum. Húllandi sprúllandi fjör.
- Loksins búin að sjá Frozen. Líf mitt verður aldrei samt á eftir.
- Vaknaði fyrir allar aldir á sunnudegi við að sprúðlandi sæt systurdóttir mín hoppaði ofan á mig til þess eins að vekja mig. Stóðst ekki sæta brosið hennar sem mætti mér þegar ég opnaði augun.
- Fór með hana á Hamborgabúlluna sem er hérna úti á horni hjá okkur þar sem við sungum við raust með Pallalagi meðan eiginmaðurinn litaði í litabók. Ekki á planinu að heimsækja fabrikuna þá næstu 8 árin.
- Fór í matarboð og hitti vaskan hund sem ég ærslaðist í og gaf restina af nautsteikinni minni milli þess sem ég skvetti í mig rauðvíni. Húllandi sprúllandi fjör.
- Búin að keyra uppí Heiðmörk og finna Silungapoll.
- Hitta vinkonur á Vegan kaffihúsi og háma í mig besta kínóasalat sem ég hef á ævinni bragðað.
- Skála við aðra sprúðlandi sæta systurdóttur í skemmtilegum kokteilum og eta á mig gat.
- Búin að standa úti á svölum með gapandi ginið í átt að dansandi norðurljósum. Missti hins vegar af fyrirhugaðri norðurljósasýningu gærdagsins en vaknaði með köttinn svo gott sem vafin utan um hálsinn á mér.
- Búin að horfast í tómar augntóftir á gómsætum þorskhaus.
Í kvöld reif ég parmesan niður í sundurslegið eggið sem ég velti snitzelsneið uppúr áður en ég velti henni í heimagert brauðrasp og henti því næst inní ofn með vænni tuggu af smjöri. Dró fram fíngerðan disk úr Mávastelli nokkru, líklega ætlað undir smákökur, og snæddi brauðraspofnsteiktu parmesansnitzelsneiðina af í fylgd með saltaðri lárperu. Prýðis gott.
Núna ætla ég að sækja eiginmanninn á Keflavíkurflugvöll, alveg tímabært að fá hann heim í kotið.
1 ummæli:
Húbba húlle húlle húlle! :D
Alltaf gaman að lesa bloggin þín og það sem þú skrifar þegar þú skrifa eitthvað :D
Elska þig elsku vinkona :* <3
Knús og kossar
Skrifa ummæli