Skreið heim eins og undin tuska eftir vinnu á fimmtudag. Með auman, skraufþurran háls, kitlandi sviða í nefi og kvefþoku í hausnum var freistandi að hætta við vinkonuhitting um kvöldið. Sem betur fer snýtti ég mér duglega, fór í aðra blússu og fékk karlinn til að keyra mig á Seilugranda með rauðvínsflösku, glænýtt sultutau og brakandi útrunnið Lime súkkulaði handa vinkonunum. Vinkonum sem konan er stolt að geta státað af. Vinkonum sem eru svo frábærar að hún skilur ekki alltaf alveg af hverju þær nenna að vera vinkonur hennar, en nýtur þess samt í botn í hvert sinn að deila lífsins gleði jafnt og sorgum með þessum kjarnakonum. Og slúðra, sei sei jú.
Í gær ætlaði ég að gera heljarins ósköp af allskonar í vinnunni en áorkaði ekki nema 1/4, vann á hraða snigils og geiflaði mig í þvílíkum geispum að á tímabili óttaðist ég helst að snarast úr kjálkalið.
Í dag var ég iðin við að hengslast um á náttkjólnum, drekka kaffi, spjalla við mömmu, leggja mig, lesa grein um Abba Kovner, klappa kettinum, drekka meira kaffi. Legg ekki meira á ykkur.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli