þriðjudagur, 19. júlí 2022

DS

Rétt í því sem ég dembdi matskeið af hveiti út í pottinn til að þykkja sósuna birtist í hugarfylgsni mínu mynd af mömmu að hrista hveiti saman við vatn áður en hún dembdi því í pottinn til þykkingar. Jújú, það urðu kekkir til hjá mér, mikil ósköp. 

Brá mér undir sturtuna eftir að hafa grýtt eldfasta mótinu í ofninn. Hallaði höfðinu aftur undir heita bununa og nuddaði á mér augun. Grátsviðinn sem ég fékk í augun við nuddið var vel 3ja lauka niðurskurðar virði.

Skrapp í vikuferðalag á gamlar óperuslóðir. Gamli kærastinn minn frá Amríku fór með mig á staðinn þar sem við kynntumst, skemmtistaðinn sem við sóttum, barinn sem við drukkum oft á, hann sýndi mér húsið sem ég bjó í og húsið sem hann bjó í, fór með mig að hitta vini sem mundu enn eftir mér. Tuttugu og sex árum síðar mundi ég ekki neitt eftir neinu. Allt var mér ókunnuglegt, líka fólkið sem sagðist vera ánægt að hitta mig aftur eftir allann þennan tíma. Fórum á ströndina, í magnaðann styttugarð, á sædýrasafn, í frægann garð þar sem fræg orrusta við Breta átti sér stað, sáum páfuglsunga og fórum í lautarferð, svo eitthvað sé nefnt. Eins gott að ég mundi eftir honum, gamla kærastanum. Hefði annars líklega orðið frekar vandræðaleg stund þegar hann sótti mig á flugvöllinn.

Heimkomin skellti frúin sér í markvissa tiltekt er hún dró fram Gestgjafablöðin, fletti hverju einu og einasta vitandi fyrir víst að þau væru á leið í Sorpu. Á öðrum degi Gestgjafaflettinga tókst henni að dúndra vinstri fæti (óvart) í hraukinn með þeim afleiðingum að hún datt fram fyrir sig og skartar nú mörðum tám og ökkla (jú, þetta var í alvöru óvart!). Þrátt fyrir að hafa ekki flett Gestgjafablaði, og því síður eldað upúr því, í marga mánuði er ótrúlega erfitt að losa sig við þau. Prísa mig sæla að þau eru þó komin af eldhúsborðinu í ruslatunnuna. Nú er bara eftir að henda þeim fyrir alvöru.

Legg ekki meira á ykkur að sinni, elskurnar.