fimmtudagur, 24. desember 2020

Hugheilar allt um kring

Mamma er búin að reka mig í rúmið, ekki af því að ég sé óþekk, ég á að hvíla mig svo ég geti vakað í kvöld til að opna pakka. Þetta kallar hálf fimmtug kona umhyggju í lagi. Nú sit ég því upp við dogg í rúminu undir rauðri sæng, í rauðum náttfötum, með rauðan hitapoka. Það eru nú einu sinni jólin. 

Á jólum í fyrra var ég nýflutt í nýja íbúð, fráskilin og reiðubúin að vinna bug á meinsemdum sem herjað höfðu á líf mitt í meira en áratug, hætt að berja höfðinu við steininn. Það sem mig grunaði ekki þá var að innvortis meinsemdirnar voru ekki einungis andlegar, þær voru líka líkamlegar. Meinið sem ég losnaði við fyrir viku hafði fylgt mér allann tímann, ef ekki lengur. Eftir ársvinnu í sjálfri mér, með sjálfri mér, skaut krabbameinið upp höfðinu og kannski bara á réttum tíma, ég stóð keik uppi, bein í baki, með sjónar á sjálfri mér.

Rétt eins og fyrir ári síðan þá óx mér ásveginn með þéttann vegg fjölskyldu og vina mér að baki. Ástin, hlýjan, kærleikurinn og stuðningurinn hefur verið órjúfanlegur þáttur í lífi mínu frá því ég tók stökkið, með galopin augu, og ómetanleg gjöf sem ég er svo lánsöm að vera minnt rækilega á í valhoppi mínu áfram í gegnum lífið. Fyrir það er kona þakklát og meyr á jólum sem og aðra daga.

miðvikudagur, 23. desember 2020

Sex göt, einn skurður

Æðin í vinstri handleggnum á mér neitaði að sýna samstarfsvilja og mótmælti hástöfum er svæfingalyfið byrjaði að seytla inn í hana. Þetta er ekki góður staður heyrði ég svæfingahjúkkuna segja rétt áður en hún stakk mig í æð við úlnliðinn á mér. Bráðum verð ég sofnuð hugsaði ég og þá þarf ég ekki að velta mér upp úr því. Rétt þar á eftir fann ég þungann í augnlokunum og upplifði einu eiginlegu vímuna á nýhafinni sjúkrahúsvist.

Svaf vel og vaknaði vel. Rifin á lappir, nýkomin uppá deild, til að þramma fram og aftur ganginn með göngugrind á undan mér og hjúkrunafræðing á sitthvora hlið. Eftir annann svipaðan spássitúr var nóg komið, æddi sjálf fram ganginn með dren á hjólum í vinstri hendi og sænskan sálfræðitrylli í þeirri hægri. Milli þess sem ég gekk spítalaganginn og dormaði í spítalarúmi með gluggaútsýni gauluðu garnirnar eins og ólgusjór. Strax morguninn eftir náði ég aðal markmiðinu og gott betur, allt heila kerfið hrökk í gang. Laus við drenið en áfram á fljótandi fæði hélt ég áfram að þramma ganginn, kláraði sænska spennutryllinn og dembdi mér í norkst drama. Iðkaði þakklæti, spreðaði kurteisi, brosti eins og hamslaus bestía og lagði mig eins oft og mig lysti. 

Á þriðja degi fékk ég fyrstu föstu máltíðina, steik í hádegismat takk fyrir, hökkuð í ofanálag, með brúnni sósu og allt. Fékk stuttu síðar að hringja í pabba minn og biðja hann um að sækja mig, formlega útskrifuð með hálfan bókakostinn lesinn og 25 cm minni ristil, illkynja krabbameini léttari.

Síðan er heil vika flogin hjá. Hér heima held ég uppteknum hætti, geng um gólf, spæni í mig bækur, tek lyf samviskusamlega, legg mig eftir þörfum. Mamma og pabbi nostra við umönnunarbómullina og leysa það verk sérdeilis vel af hendi, hlýjan umlykur mig og umhyggjan er þétt ofin. 

Á morgun rennur stóri pakkadagurinn upp en sumar sannar gjafir er ekki hægt að pakka inn.

fimmtudagur, 10. desember 2020

Af fimmtugri frú og köttum

Best að setja blómin í vasann sem þú gafst mér í fyrra í afmælisgjöf sagði systir mín. Með hæfilegri fjarlægð rifjuðu hún og mágur minn upp hliðargötuna í París þar sem þau snæddu kvöldverð fyrir ári síðan. Sjálf minnti ég þau á að ég hefði fylgst með Kókakólalestinni djöflast með hávaða framhjá blokkinni þeirra með blikkandi ljósum frá svölunum. Fyrir ári síðan var lestarverkfall í París og vont veður á Íslandi. Reyndum ekkert að rifja það upp hvenær við hefðum hist síðast enda flaug tíminn hjá í spjalli um eitthvað allt annað og skemmtilegra. 

Af öðrum góðum fréttum dagsins þá eru þessi tvö tveggja ára í dag 


miðvikudagur, 2. desember 2020

Af bakstri og matseld

Þar sem ég stakk forminu inní ofninn mundi ég eftir vanilludropunum sem áttu að fara í deigið. Ekki að það kæmi að nokkurri sök, samstarfsfélagarnir átu hana upp til agna án þess að kvarta. Þ.e.a.s. að undanskildum Kínverjanum sem harðneitaði svo mikið sem að smakka herlegheitin; ég ekki borða köku, ég bara borða *ljómaköku sem mamma þín búa til. Það var og.

Mamma og pabbi komu brunandi í bæinn á föstudagsmorgni til að keyra yngstu dóttur sína í rassaskoðun og sækja hana líka. Mamma eldaði mat og talaði um bækur, pabbi mældi olíuna á bílnum og talaði um pólitík. Saman drukkum við heljarins ósköp af kaffi, töluðum um veðrið og kettina. 

Á mánudegi voru 2 rjómatertur framreiddar á kaffistofu Melabúðarinnar. Á þriðjudagsmorgni sagði mamma mér að fara varlega í hálkunni og pabbi varaði mig við vindhviðum. Sjálf drifu þau sig aftur vestur, á undan vonda veðrinu. Eftir langann vinnudaginn var heldur tómlegt að stíga inní foreldralausa íbúðina mína. Báðir litlu pottarnir mínir voru þau sneisafullir, annar af kartöflustöppu og hinn af drullumalli. Mamma gerði sér lítið fyrir og eldaði fyrir yngstu dóttur sína áður en hún fór.

Í gær var því upphitað sem og í kvöld og verður aftur annað kvöld. Það var og.

*Hafið þið tekið eftir því hvað Kínverjar eiga erfitt með að bera fram err? Ef ekki og þið þekkið íslenskumælandi Kínverja þá ragmana ég ykkur til að biðja sá hinn sama um að segja; rómverskur riddari réðist inn í Rómaborg og hámaði í sig rjómatertu.