Þar sem ég stakk forminu inní ofninn mundi ég eftir vanilludropunum sem áttu að fara í deigið. Ekki að það kæmi að nokkurri sök, samstarfsfélagarnir átu hana upp til agna án þess að kvarta. Þ.e.a.s. að undanskildum Kínverjanum sem harðneitaði svo mikið sem að smakka herlegheitin; ég ekki borða köku, ég bara borða *ljómaköku sem mamma þín búa til. Það var og.
Mamma og pabbi komu brunandi í bæinn á föstudagsmorgni til að keyra yngstu dóttur sína í rassaskoðun og sækja hana líka. Mamma eldaði mat og talaði um bækur, pabbi mældi olíuna á bílnum og talaði um pólitík. Saman drukkum við heljarins ósköp af kaffi, töluðum um veðrið og kettina.
Á mánudegi voru 2 rjómatertur framreiddar á kaffistofu Melabúðarinnar. Á þriðjudagsmorgni sagði mamma mér að fara varlega í hálkunni og pabbi varaði mig við vindhviðum. Sjálf drifu þau sig aftur vestur, á undan vonda veðrinu. Eftir langann vinnudaginn var heldur tómlegt að stíga inní foreldralausa íbúðina mína. Báðir litlu pottarnir mínir voru þau sneisafullir, annar af kartöflustöppu og hinn af drullumalli. Mamma gerði sér lítið fyrir og eldaði fyrir yngstu dóttur sína áður en hún fór.
Í gær var því upphitað sem og í kvöld og verður aftur annað kvöld. Það var og.
*Hafið þið tekið eftir því hvað Kínverjar eiga erfitt með að bera fram err? Ef ekki og þið þekkið íslenskumælandi Kínverja þá ragmana ég ykkur til að biðja sá hinn sama um að segja; rómverskur riddari réðist inn í Rómaborg og hámaði í sig rjómatertu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli