þriðjudagur, 23. október 2012

Sífellt sólskin á Mó-holti

Sumarið 1913 hugðist Þórbergur Þórðarson afla sér tekna með málningarvinnu utanhúss í Reykjavík. En sumarið var rigningarsamt og ekki vildi viðra til húsamálunar. Þórbergur gáði á hverjum degi til veðurs. Þótt hann sæi alltaf fallegt sólskin á einhverjum tindinum austan við Esjuna lét uppstyttan standa á sér. Einn daginn skrapp hann upp fyrir Skólavörðu til að horfa á tindana. "Mér fannst öll framtíð mín, allt líf mitt, hanga á þessum sólroðnu tindum. Ég nam staðar á klöppunum suðaustan við Vörðuna og góndi lengi í norðaustur. Þá uppgvöta ég, að það er engin heiðríkja yfir tindunum, þó að sólskinið sé á þeim. A-a? Hvernig í ósköpunum getur staðið á þessu? Eru helvítin sjálflýsandi eins og maurildi? Þessari uppgvötun fylgdi önnur enn þá hræðilegri. Það var ekkert sólskin á tindunum. Það var bara grjótið í þeim, sem var svona á litinn." (Þórbergur Þórðarson: Ofvitinn, Reykjavík 1941). Þannig hafa Móskarðahnúkarnir blekkt margan maninn.


(Ari Trausti Guðmundsson, Pétur Þorleifsson: Íslensk Fjöll - gönguleiðir á 151 tind, Reykjavík 2010).

sunnudagur, 21. október 2012

Hó-Holt og Mó-holt

 Færði þeim myndarlega Holtið í rúmið


og dreif hann svo framúr á hærra holt. Bjuggum okkur undir að mæta frískandi októberkulinu en vorum fljót að týna af okkur plöggin. Veðrið lék við hvern sinn fingur og kætti glaða lund   


Það var ekki fyrr en við nálguðumst toppinn sem við tókum eftir litlu snjókornunum sem flögruðu allt í kring, og ekki fyrr en við settumst niður til að drekka kaffið okkar á toppnum, sem við byrjuðum að dúða okkur 


Týndum aftur af okkur á leiðinni niður. Hvílík veðurmildi í október á fjöllum. Hvílík litbrigði, fjölbreytni, fegurð og kyrrð. Hvílíkur félagsskapur, hamingja og ást. Helber himnasæla 


laugardagur, 20. október 2012

Um bleikt Holt og appelsínugular hæðir

Var vakin af þeim myndarlega í morgun. Ekki bara færði hann mér rjúkandi kaffi, hann gaf mér líka pakka. Bleikan pakka sem tældi brosið fram á svefnpurku með úfið hár


Eftir rjúkandi kaffibolla var svefnpurkan rekin á lappir og sagt að fara í leppa. Og ekki bara e-a leppa, fína leppa. Sem betur fer hlýddi ég og tjónkaði við hárið á mér að auki. Sá myndarlegi dubbaði sig upp í bestu jakkafötin og dreif svefnpurkuna sína í hádegismat á Holtið


Eftir listaverk í forrétt, kvöldmat í aðalrétt og brenndan rjóma í eftirrétt sveif ég svo glerfín á kjörstað með þann myndarlega upp á arminn.

Var enda jákvæð að flest öllu leyti, nema einu.

miðvikudagur, 17. október 2012

Lýðveldismubla


Þegar ég kynntist þeim myndarlega bjó ég í Sigvaldablokkinni í hlíðunum. Ég bjó í 47 fermetrum með pínulitla kompu (á stærð við kústaskáp) við hliðina á hurðinni minni. Hinar íbúðirnar voru flennistórar með feikn góðar kompur (á stærð við herbergi). Íbúarnir sem mest höfðu plássið dugði greinilega ekki plássið. Fyrir utan hjól og barnavagna úði og grúði af dóti og drasli í sameigninni. Einn daginn var ákveðið að taka skurk í dótinu og henda draslinu. Kom þá ekki nema í ljós hin prýðilegasta hilla sem enginn ábúandi kannaðist nokkuð við eða kærði sig um að hirða. Ég, sem hafði flokkað og sorterað og hent og fleygt til að koma sjálfri mér og mínu hafurtaski fyrir í skonsunni minni, gat ekki hugsað mér að sjá á eftir þessari bláókunnugri hillu í ruslið. Ég, sem var svo gott sem farin að búa með þeim myndarlega ákvað að taka hilluna undir minn handlegg og flytja hana með mér í Samtún. Þar hefur hún staðið upp við rönd uppí risi útí horni og safnað ryki.

3 árum síðar þurrkaði ég af henni rykið, splæsti olíu á viðinn og sá myndarlegi hengdi hana upp. Hillan, sem merkt er 17.júní 1944, smellur eins og tappi við tíkarsrassgat við nýja sófasettið okkar. 


Svei mér þá ef sá myndarlegi smellur ekki eins og flís við ....?