þriðjudagur, 31. desember 2013

Gamlársglenna

Eftir þéttskipaða þriggja tíma vinnutörn á síðasta morgni ársins dreif ég mig í náttkjólinn er heim kom og rak karlinn í búð, sæta karlinn minn sem kom klyfjaður heim af snakki og rósum. Sæti dásamlegi karlinn minn sem nú dundar sér við uppvask og annað snurfus meðan ég lufsast enn á náttkjólnum. Ekki búin að velja kjól fyrir áramótaveislu kvöldsins. Húðlitaðar sokkabuxur verða væntanlega ekki fyrir valinu þetta árið


en ég gæti sett rós í hárið

fimmtudagur, 5. desember 2013

Kalt úti, hlýtt inni

Kom heim með rautt nef og hvíta putta. Með hakk og lauk í töskunni. Í skítakulda er enn frekari ástæða til að liggja utan í myndarlegum manni og þiggja yl ástarinnar. Myndarlegum manni sem gerir hakkabuff að dásemdarmáltíð. Sjónvarpsgláp og sófakúr í yl kertaljósa. Kalt úti, hlýtt inni.

Á morgunn á áfram að vera kalt. Við ætlum að ylja okkur við félagsskap fjölskyldu og vina, njóta veitinga og tónlistar. Fýra upp í hlýjunni í hjartanu. Halda sálinni heitri og kuldanum fyrir utan. Kalt úti, hlýtt inni.