þriðjudagur, 22. október 2019

Doði

Líkamlegt ástand þessa dagana: dofin. Andlegt ástand þessa dagana: dofin. Allt að gerast en líka ekki neitt. Í gær tók ég þungbært skref en nauðsynlegt úr því sem komið er. Í morgun vaknaði ég með frunsu. Úti hamast rokið í áköfum dansi við haustkulda.

Hver er sinnar gæfusmiður og allt það. Nú mega þungu skrefin fara að tifa í léttum gæfusporum. Mætti ef til vill bjóða yður upp í dans?

laugardagur, 12. október 2019

Í gallabuxum við nátttreyjuna

og lopapeysu þar yfir renndi ég í bakarí eftir brauði. Þá þegar búin með 2 kaffibolla og nokkra kafla í bók. Með smurt nýbakað bakarísbrauð endasentist ég aftur í bælið og hélt áfram að lesa.

Sólarglenna teygir sig inn um gluggana hér í risinu og af söng fugla að dæma hlýtur eitt allsherjar fuglapartý að standa yfir í trjánum í garðinum. Sólarglennan og fuglasöngurinn æstu mig upp í göngutúrsgír en hálft í hvoru langaði mig líka til að leggja mig. Ákvað að íhuga málin betur yfir einum kaffi enn. Græjaði kaffi í bolla fyrir kallinn og missti svo minn bolla í gólfið. 

Búin að ryksuga alla neðri hæðina og er aftur komin uppí rúm. Enn nokkrir kaflar eftir af bókinni og sólin skín og fuglarnir syngja. Hvort á þá kona að leggja sig eða drífa sig út í göngutúr? Svör óskast. 

fimmtudagur, 10. október 2019

Það var sagt mér...

...að ég væri góður penni. Eins og það væri ekki nógu mikið og gott þá var mér líka sagt að ég væri ljóðræn, hnyttin, kaldhæðin og rómantísk. Ég ákvað að taka þessu öllu sem hrósi og þakkaði pent. Ég þarf á því að halda að klappa sjálfri mér á bakið, eftir c.a. 2 klukkustundir kemur eiginmaðurinn heim eftir 5 daga utanför og ég var að muna að ég gleymdi að vökva blómin. 

sunnudagur, 6. október 2019

Með Melody Gardot í eyrunum

Á gaseldavélahellu einni synda niðurskornir sveppir í rauðvínsbaði. Í ofni einum lúra niðurskornar kartöflur. Þegar sveppirnir verða komnir með viskhendur af baðinu og kartöflurnar farnar að krumpast á hitabekknum ætla ég að draga fram lambalundina sem ég gekk eftir á vinnustaðinn minn. Var alveg viss um að heilsubótargangan yrði blaut en hún reyndist heit, svo heit að áður en ég gekk aftur heim var ég búin að pakka peysunni niður í bakpokann ásamt lundinni, sveppunum og rjómanum. Rjóminn fer að sjálfsögðu út í rauðvínsbaðið ásamt sveppatening, sojasósu og maizenamjöli. Þannig er sósan hennar mömmu, sósan sem ég man eftir úr Hólabergi og ætla í kvöld að hella yfir lambalund. 

Af sms-i eiginmannsins að dæma eru töskurnar að lenda á áfangastað rétt í þessu. Grasekkjukvöldmáltíðin fer alveg að lenda á disknum mínum.

laugardagur, 5. október 2019

Reif mig á lappir í nótt...

...og hélt út í myrkrið með eiginmann og ferðatösku á hjólum í eftirdragi. Í svarta myrkri (ýkjur) og beljandi rigningu (ekki ýkjur) brunaði ég með upplýsingafulltrúa Vegagerðarinnar og forstýruna hans til KEF. Síðast er þau skötuhjú vermdu hjá mér bílsætin var ég með þau á leið frá KEF, slæpt eftir sólarhringstöf, seint um kvöld, degi á eftir áætlaða heimkomu. Misstu sumsé af tengifluginu sem þau áttu þá. Göntuðumst með það á leiðinni í nótt hvort það væri nokkur hemja að senda þau tvö saman í ferð og það til sömu millilendingaborgar. Uppá velli náði bílaröðin frá brottfararplaninu út á götu, ég beygði því í átt að langtímastæðunum og henti þeim út við næsta yfirbyggða ramp. Kvaddi þau í flýti og sá á eftir þeim inn rampinn. Rigningin var svakaleg. 

Var að hella uppá kaffi, neyðist víst til að ná tökum á því þar sem kettirnir vilja ekki sjá að færa mér kaffi í rúmið. Af sms-um að dæma var ringulreið á KEF, annað þeirra skötuhjúa fór með rútu útí vél og kom aftur til baka inní flugstöðina. Nýtt hlið var kallað upp. Flugið orðið seint sem orsakaði að þau misstu af tengifluginu. Frá millilendingaborginni flugu þau til annarrar evrópuborgar til að ná tengiflugi til áfangastaðar. Á áfangastað komust þau en töskurnar ekki. 

Sjálf er ég að hugsa um að skreppa í Sandholt eftir krossanti með kaffinu.

föstudagur, 4. október 2019

Haustslæðingur

Gekk fram á þessa kauða á leið heim úr vinnu. Þeir sögðust hafa haft fregnir af því að piparkökur og jólaöl væri komið í búðir, spurðu mig hvar bestu mandarínurnar væri að finna. Brugðust ókvæða við er ég tautaði eitthvað um hvort það væri ekki helst til snemmt að huga til jóla, hreyttu í mig með skömmum að ég skyldi skila slíku rausi beinustu leið til *Ásbjarnar Montens sem hefði tekið af skarið og auglýst Þorláksmessuna á miðju sumri. 

Sjálf fann ég eingöngu fyrir haustlæðingnum sem reif í hárið á mér alla leiðina heim, hamaðist við að komast niður hálsmálið á jakkanum mínum og sveiflaði litríkum laufum í brjálaðan dans. Jóla hvað?

*Hér get ég mér þess til að óbyggðasveinarnir hafi verið að vísa til Bubba Morthens og þorláksmessutónleika hans sem sannarlega skáru í auglýsingaeyru á hásumri.

fimmtudagur, 3. október 2019

Af brennandi hausthuga

Gekk heim í gær í brakandi þurru hausti. Laufin þyrluðust um í ljúfri golunni, kurruðu fallega í allri sinni litadýrð. Gott ef það var ekki sólarglenna líka, allavega sól í sinni.

Gekk út í blautt haust í morgunn. Vindurinn þeyttist með afli í gegnum hárlubbann á mér. Litrík laufin stigu þungan dans. 

Það skiptast á skin og skúrir og lífið getur bæði verið súrt og sætt.

Sjálf potaði ég hendinni inní heitan ofninn í gær er ég sýslaði við matseld. Mæli ekki með því ofnhanskalaust.