þriðjudagur, 18. janúar 2022

Rás 2

Í gær gekk ég inn í Hörpu, ekki til að fara á tónleika heldur til að fara í hraðpróf. Fyrsta skipti sem ég fer í hraðpróf. Fyrsta skipti sem ég fer í Covid-19 próf í Hörpu. Engin röð, ekki svo mikið sem önnur sála að fara í hraðpróf á sama tíma og ég í Hörpu. Lá við að ég fengi niðurstöðurnar áður en ég gekk út úr húsinu. Þrátt fyrir að hafa ekki farið í hraðpróf áður þá hef ég farið í Covid-19 próf á Suðurlandsbraut. Oftar en einu sinni, oftar en tvisvar. Hef alltaf staðið í röð. Langri röð.

Fyrir Covid-táninginn var jákvæðni betri en neikvæðni. Í dag er það neikvæð niðurstaða sem er hvað jákvæðust. Böl heimsins og allt það. 

Nei, ég fór ekki í hraðpróf af því að ég væri að fara til Parísar. Ég fór í hraðpróf af því að ég er nemandi í Fjölmiðlafærni hjá henni Sirrý og þrátt fyrir Covid-táningin er Sirrý ákveðin í að koma nemendum sínum sem mest, og best, í vettvangsferðir í raunheimum fjölmiðla eins og kostur er. Sigríði Arnardóttur tókst sumsé að koma mér og 2 öðrum Biffum í Poppland með hinum landskunna Óla Palla, geri aðrir betur. Bifrastar þríeykið mætti tímanlega, með neikvæðar Covid-niðurstöður og grímur, reiðubúnar til að fylgjast með og læra. 

Fullar af tilhlökkun, og lausar við Covid, fylgdumst við með Óla Palla skipuleggja þátt dagsins. Fylgdum honum grunlausar inn í stúdíó þar sem við héldum að við yrðum þöglir áhorfendur að því hvernig kaupin gerast á RÚV-eyrinni, en, nei, Ólafur Páll hafði annað í huga. Áður en við vissum af vorum við orðnar þáttakendur í Popplandi, kynntar oftar en einu sinni (og jafnvel oftar en tvisvar) sem sérstakir gestir frá Háskólanum á Bifröst. Þrátt fyrir algjört reynsluleysi af að tala í útvarpi held ég að flæðið hafi verið ansi gott og má þar líklega þakka grandaleysi, okkur gafst lítill tími til að stressa okkur yfir því að eiga að mæla í útvarpi allra landsmanna (rótgrónu Popplandi aukinheldur) og úr varð því nokkuð afslappað samspil þaulreynds útvarpsmanns og þrigga óþaulreyndra Biffa. 

Að auki fengum við svo einkaleiðsögn Andra Freys úr síðdegisútvarpinu sem arkaði með okkur um leyndar lendur RÚV og sparaði hvergi orðaflauminn. Góð rúsína í pylsuenda.

sunnudagur, 16. janúar 2022

Algjör sveppur

Eftir að ég skildi tók það mig margar vikur, ef ekki mánuði, að hætta að kaupa sveppi þegar ég keypti í matinn. Sjálf er ég enginn sérstakur aðdáandi sveppa þó ég borði þá alveg (þó ALLS EKKI sveppi úr DÓS), og kaupi þá vissulega ef þeir eru í uppskrift sem ég ætla að elda, en það er maðurinn minn fyrrverandi sem var svo svaðalega svag fyrir sveppum að í ríflega áratug fór ég varla í matvöruverslun án þess að kaupa sveppi. Öll erum við skepnur vanans og það tók mig sumsé nokkrar vikur (sem jafnvel urðu að mánuðum) að venja mig af þessu og í kjölfarið fann ég aragrúa uppskrifta sem innihéldu sveppi, ekki gat ég látið þá fara til spillis.

Í fyrsta skipti síðan ég skildi keypti ég ferskan kóríander. Gerðist í fyrradag og ég eldaði Harira (kjúklingabauna-, lamba- og kóríandersúpu). Hitaði hana upp í gærkvöld. Aftur er það maðurinn minn fyrrverandi sem hafði þessi áhrif á mig, eins mikið og hann elskaði sveppi þá hataði hann ferskan kóríander, kvartaði sárum yfir því viðbjóðsbragði sem þessi hroðbjóður byggi yfir og ég trúði honum og snarhætti að kaupa kóríander. Og ég trúi honum enn, það er víst slatti af fólki sem finnur einfaldlega sápubragð, eða þaðan af verra, þegar það lætur kóríander inn fyrir sínar varir. Nema, þar sem ég fletti uppskriftabók í fyrradag áttaði ég mig á því að það eru ríflega 2 ár síðan ég fór fram á skilnað og þar af leiðandi mér ekkert að vanbúnaði annað en að æða í uppskrift með kóríander sem eitt af aðal hráefnunum. Kominn tími til, líklega orðin rífleg 13 ár síðan ég festi síðast kaup á ferskum kóríander. Súpan og enda fantafín.

Talandi um mat þá tók ég loksins jólaskrautið niður í kvöld. Það var ekki einungis sökum leti, jólatréið hélt sér svo vel og ilmaði svo dásamlega að ég hreinlega tímdi ekki að taka það niður og henda bara af því dagatalið sagði að jólin væru yfirgengin. Í ár, sem og önnur á undan, var það þessi glaðlegi sveinn sem æskuvinkona mín gaf mér í jólagjöf á 9. áratugnum sem mér fannst leiðinlegast að slökkva á og pakka niður 

Nú veit ég fullvel að það á víst ekki að tala um að elska neitt nema lifandi veru en má þá að sama skapi ekki hata neitt nema það sem er lifandi? 

sunnudagur, 9. janúar 2022

Amerískar vöfflur að belgískum sið

Gleymi því sennilega seint er ég stóð andspænis kartöfluflögurekka í Ameríku í fyrsta sinni og upplifði svæsnasta valkvíða sem yfir mig hefur komið. Árið var 1994 og ég var komin til Irmo í Suður Karólínu til að passa 3 fordekraðar stelpuskjátur í STÓRU húsi á einkavegi sem lá niður að vatni með einkabryggju, sundlaug í garðinum, 2 hundar og 3 kettir á heimilinu. Hér heima samanstóð kartöfluflöguúrvalið af hinu sígilda Bögglís, salt&pipar og papriku Maruud, Stjörnupoppi og jú, hið galíslenska Þykkvabæjarnasl. Sjálf hafði ég aldrei farið til útlanda áður, steig í 1. skipti upp í flugvél er ég flaug frá Fróni til að gerast Ópera í Ameríku í eitt heilt ár. Skyldi engan undra þó stelputuðru hafi fallist hendur við að standa andspænis heilum gangi i matvöruverslun sem helguð var einu af hennar uppáhalds hráefnum; kartöfluflögum.

Systurnar elskuðu peanutbutter&jelly sandwishes (samlokur með hnetusmjöri og sultu) en þrátt fyrir að hafa daglega smurt slíkar samlokur ofan í þær komst ég aldrei upp á bragðið og líkar ekki enn þann dag í dag. Skv. könnun frá 2002 má áætla að meðal ameríkani láti ofan í sig 1500 slíkar samlokur áður en hann lýkur gagnfræðanámi. Það er ekki nokkur leið að vita hversu margar Pop-Tarts ég ristaði fyrir stúlkurnar og þær voru ófáar bragðtegundirnar af Kool-Aid sem ég blandaði ofan í þær líka. Skv. leiðbeiningum aftan á 1 bréfi af Kool-Aid skal demba einum bolla af sykri út í u.þ.b. 2 lítra af vatni.

Kool-Aid var ágætt, og Pop-Tarts svo sem líka, en það var Caffeine-free Diet Coke sem gerði útslagið fyrir mig og varð minn uppáhalds drykkur. Hef reyndar ekki smakkað hann síðan 1995 er ég var heimkomin í síðasta mánuði þess árs. Það var þó tvímælalaust Trix sem festi sig í sessi í mínum heimi, enn þann dag í dag er Trix uppáhalds morgunkornið mitt. Að vísu er það bannað hér á Fróni en þá skiptir líka sköpum að festa kaup á því við hvert tækifæri sem gefst en síðasta tækifæri gafst sumar 2019 í Tigre í Argentínu.

Á amreískum dögum í Hagkaup í gegnum árin hef ég oft brosað í kampinn er ég renni yfir vörurnar og kannast við hitt og þetta og ýmislegt hef ég prófað og iðulega orðið fyrir vonbrigðum, að Trixi undanskildu, að sjálfsögðu. Í gærkveldi hentist ég inn í Hagkaup í Spönginni til að grípa oststykki og konfektkassa. Við mér blasti urmull amerískra vara og ég stóðst að sjálfsögðu ekki mátið að skoða. Þurfti hreint ekki að hafa mikið fyrir því að standast Twizzlers eða Sour Patch Kids  en ég endaði samt á að grípa eina vöru með mér heim 

Stelpurnar elskuðu svona litlar kanilvöfflur, sem vissulega fengust í Hagkaup, en mig minnti að þessar hefðu mér þótt góðar.

Þegar ég loks reif mig upp úr bókinni í morgun og drattaðist á lappir þá henti ég tveimur af þessum eðal frosnu amerísku vöfflum í ristavélina, hellti uppá kaffi og hrúgaði síðan hlynsírópi yfir stökkar vöfflurnar sem skoppuðu uppúr ristinni. Merkilegt nokk þá voru vöfflurnar góðar. Jafnvel mjög góðar. 

Þar sem ég sat við eldhúsborðið og undraðist þá staðreynd að ég hefði ekki orðið fyrir vonbrigðum með vöfflurnar varð mér litið út um gluggann og sá Birtu skíta í beðið þar sem jarðarberjaplönturnar eru. Þegar hún hafði lokið sér af gróf hún í gríð og erg yfir. Því leita ég nú til vizku ykkar, frómu lesendur; er kattaúrgangur heppilegur áburður fyrir jarðarberjaplöntu?