Eftir að ég skildi tók það mig margar vikur, ef ekki mánuði, að hætta að kaupa sveppi þegar ég keypti í matinn. Sjálf er ég enginn sérstakur aðdáandi sveppa þó ég borði þá alveg (þó ALLS EKKI sveppi úr DÓS), og kaupi þá vissulega ef þeir eru í uppskrift sem ég ætla að elda, en það er maðurinn minn fyrrverandi sem var svo svaðalega svag fyrir sveppum að í ríflega áratug fór ég varla í matvöruverslun án þess að kaupa sveppi. Öll erum við skepnur vanans og það tók mig sumsé nokkrar vikur (sem jafnvel urðu að mánuðum) að venja mig af þessu og í kjölfarið fann ég aragrúa uppskrifta sem innihéldu sveppi, ekki gat ég látið þá fara til spillis.
Í fyrsta skipti síðan ég skildi keypti ég ferskan kóríander. Gerðist í fyrradag og ég eldaði Harira (kjúklingabauna-, lamba- og kóríandersúpu). Hitaði hana upp í gærkvöld. Aftur er það maðurinn minn fyrrverandi sem hafði þessi áhrif á mig, eins mikið og hann elskaði sveppi þá hataði hann ferskan kóríander, kvartaði sárum yfir því viðbjóðsbragði sem þessi hroðbjóður byggi yfir og ég trúði honum og snarhætti að kaupa kóríander. Og ég trúi honum enn, það er víst slatti af fólki sem finnur einfaldlega sápubragð, eða þaðan af verra, þegar það lætur kóríander inn fyrir sínar varir. Nema, þar sem ég fletti uppskriftabók í fyrradag áttaði ég mig á því að það eru ríflega 2 ár síðan ég fór fram á skilnað og þar af leiðandi mér ekkert að vanbúnaði annað en að æða í uppskrift með kóríander sem eitt af aðal hráefnunum. Kominn tími til, líklega orðin rífleg 13 ár síðan ég festi síðast kaup á ferskum kóríander. Súpan og enda fantafín.
Talandi um mat þá tók ég loksins jólaskrautið niður í kvöld. Það var ekki einungis sökum leti, jólatréið hélt sér svo vel og ilmaði svo dásamlega að ég hreinlega tímdi ekki að taka það niður og henda bara af því dagatalið sagði að jólin væru yfirgengin. Í ár, sem og önnur á undan, var það þessi glaðlegi sveinn sem æskuvinkona mín gaf mér í jólagjöf á 9. áratugnum sem mér fannst leiðinlegast að slökkva á og pakka niður
Nú veit ég fullvel að það á víst ekki að tala um að elska neitt nema lifandi veru en má þá að sama skapi ekki hata neitt nema það sem er lifandi?
1 ummæli:
Þú ert BEST og FLOTTUST elsku vinkona <3
Skrifa ummæli