laugardagur, 24. september 2011

Sykrað & sætt. Dís-ætt.

Tabaði mér á ahamerískum dögum í ónefndum stórmarkaði með Trixað hjarta í gærkveldiSykur fyrir tennurnar. Það myndi Winshaw fjölskyldan segja.

föstudagur, 23. september 2011

BLestur

Milli þess sem ég kreisti krúttlega kallinn minn og krúttlega köttinn okkar, mæti í vinnuna og skólann, er ég húkt á siðblindri og fremur ógeðfelldri Winshaw fjölskylduÞar á undan var ég á kafi í ólánsemi og óhamingju Maxwells Sims.
Bráðum kemst ég í Rotters klúbbinn.

sunnudagur, 18. september 2011

Mér finnst rigningin góð

finnst mér skemmtilegt lag. Kannski af því mér finnst rigningin góð þó hún sé blaut. Þegar ég var unglingur fór ég stundum út mjög seint á kvöldin ef það var rigning, berfætt í uppáhaldsnáttfötunum mínum sem voru gömul herranáttföt. Labbaði hægt í Elliðaárdalnum og naut þess að fá rigninguna á mig í næturkyrrðinni og finna kalda, blauta steypuna undir fótum mér.Hugsanlegt að heill aldursmunur sé liðinn síðan ég gerði þetta síðast. Hugsanlegt að þetta sé ennþá skemmtilegt. Ég er bara yfirleitt sofnuð svona seint á kvöldin þó ég sé enn unglingur.

Núna er líka rok.


laugardagur, 17. september 2011

Nýr diskur

í nýja matarstellið


Sá myndarlegi var farinn aftur utan en er núna aftur kominn heim. Kom í gær með enn sænskari pakka en síðast


Verð alltaf jafn glöð að fá ástina mína heim. Óháð pakka. Aaalveg satt. Mér leiðist svo að sakna hans. Miklu skemmtilegra að hafa hann hjá mér. Hann býr líka til svo góðar, flöffí pönnukökurLíklega þær bestu í heimi. Þannig er það.

sunnudagur, 11. september 2011

Nenni ekki að finna nafn á þessa færslu

Eftir síðbúna hádegisverðarveislu með góðum gestum og ofáti drifum við myndarlegi okkur í framkvæmd innanhúss. Framkvæmd sem lengi hefur staðið til, tók ekki sérlega mikið á né krafðist mikilla tilfæringa, en breytir alveg heljarinnar heilmiklu. Og núna er ég löt. Heljarinnar húðlöt. Svo löt að ef ég væri ekki nýbúin að fjárfesta í fartölvu þá væri ég ekki að blogga núna. Svo löt að ég nenni ekki að setja inn myndir af kræsingum dagsins, ostakökunni sem ég byrjaði á í gær eða einfalda, lata pulsuréttinum sem ég nennti svo ekki að elda og dæmdist á þann myndarlega fyrir vikið. Svo löt að ég er þegar komin í rúmið þar sem ég er sannfærð um að ég er of löt til að nenna að hátta mig síðar í kvöld. Svo löt að ég er að íhuga að lesa bara á bókina hjá þeim myndarlega því ég er ekki viss um að nenna að halda á bókinni sem ég er að lesa.

Svo löt að ég nenni ekki að hamra meira á lyklaborðið.

laugardagur, 10. september 2011

Makstur

Sá myndarlegi tók sig til og skar niður baguettebrauð gærdagsins, vætti með ólífuolíu, raðaði gúmmelaði úr ísskápnum ofan á sneiðarnar og stakk inní ofn í dulitla stund. Nýtti þar með brauð, sem annars hefði endað sem rasp, í dásamlega kvöldmáltíð fyrir tvoSá myndarlegi er fantagóður kokkur og sérdeilis lunkinn í réttum sem hann sjálfur kýs að kalla því girnilega nafni; upp úr mér. Ég hins vegar hef meiri ánægju af að kokka eftir uppskrift. Eins og t.d. ostatertuna sem ég er að baka núna, hún er fengin úr Gestgjafanum, 8.tbl.2007. Ég vildi óska að ég hefði getað myndað fyrir ykkur dásamlegu lyktina af fínt möluðu Bastogne kexinu frá LU, blandað saman við sykurinn og smjörið, en því miður verður þessi lyktarlausa að duga


Mér stóð svo ekki á sama þegar aðalfyllingin fyllti upp í fatið. Hún lyktar reyndar líka voðalega vel en ég á eftir að bæta einu þynnra lagi við, og hún virðist ekkert vera að minnka í ofninum


Sjáum til, sjáum til.

föstudagur, 9. september 2011

Suma daga

er ég með púka að störfum í höfðinu. Púka sem gaggar og galar og kroppar í hugsanir mínar. Það angrar mig þegar hann angrar mig og ég skil ekkert í mér að vera ekki dugmeiri en hann. Suma daga. 
Ég sem er ástfangin og hamingjusöm hef ekkert með púka að gera. Ég sem er lánsamari en margir aðrir sem læra aldrei alveg að njóta ástarinnar og lífsins sem hún hefur upp á að bjóða. Lífið er nefninlega allt öðruvísi þegar maður er ástfangin. Betra. Skemmtilegra. Fallegra. Innihaldsríkara. Skyggir á púka. Púki, farðu og bíttu í brosandi kexþriðjudagur, 6. september 2011

Ostasallat Stefaníu

var fantagott á flottu brauði frá SandholtiAnanaskurl, sýrður rjómi, majónes, hvítlauksostur, mexíkóostur, paprika, blaðlaukur.

Gestgjafinn, 1.tbl.2006.

mánudagur, 5. september 2011

Lata pulsa

Þessi einfaldi letiréttur fyrir tvær latar lúður kom verulega á óvartKartöflur skornar niður og soðnar í saltvatni í um 10 mínútur.
Þunnt skorinn laukur steiktur í smjöri stutta stund, rétt til að mýkja og glæra.
3/4 dl af hvítvínsediki hellt út á laukinn ásamt 1 dl af vatni og látið sjóða stutta stund.
1 tsk af sykri sett saman við ásamt kartöflunum.
Saltað og piprað og steikt í gegn, þó án þess að brúna laukinn mikið.
Pylsur steiktar skv leiðbeiningum á pakka.

Hefur annars e-r lesið leiðbeiningar á pylsupakka? Ekki ég.

Gestgjafinn - 8.tbl.2007

sunnudagur, 4. september 2011

Myndar-stell

Sá myndarlegi kom loksins heim í gær


velktur og þreyttur en brosandi fínn með skemmtilega skrýtinn pakka


Matarstellshugmynd hefur formlega verið hrint í framkvæmdÉg er yfir mig hyfir mig lifandis ánægð.

fimmtudagur, 1. september 2011

Þessi myndarlegi snáði


fæddist á Óðinsgötu fyrir 64 árum. Hann var í góðu yfirlæti er ég heyrði í honum fyrr í kvöld; kominn til systur minnar á Hellu úr hringferð um landið, búinn að fá pakka, góðan mat og var að fara að gæða sér á ekta rjómatertu sem mamma gerir bestar. Áreiðanlega búinn að fá knús frá litlum, sætum systrum. Pabba leiðist sko hvorki að fá faðmlag né að gefa faðmlag. Pabbi er líka með hlýjan og góðan faðm. Faðm sem hefur óspart knúsað 5 börn, 8 afabörn, 4 langafabörn og er enn að. Sem betur fer. Hlý og góð faðmlög eru gulls ígildi.