þriðjudagur, 31. janúar 2012

Janúarjarm

Er ekki sérlega gefin fyrir að elda kjöt í óratíma. Nema þá helst súpukjöt


Með kartöflum, baunum, túrmerik, sterkri papriku og Tyrklands myntu



Tókst að brenna nokkrar baunir í botninum. Þó er ég gefin fyrir baunir.

fimmtudagur, 26. janúar 2012

Illy


Gott að fá il úr góðum bolla þegar maður gaufast einn undir teppi, kalt inn að beini, og kallinn paufast í ræktinni.

þriðjudagur, 24. janúar 2012

Við fyrsta .......

Gafst upp á grábölvuðu hanagalinu og hringdi í þjónustuver Reykjavíkurborgar. Var gefið samband við deildarstjóra umhverfiseftirlits. Deildarstjóranum þykir afar ólíklegt að skipulag Samtúns gefi rými fyrir búfjárhald. Tjáði mér einnig að ferlið sem nú færi í gang gæti tekið tíma. Líklega nokkrar vikur. Hugsanlega e-a mánuði.
Hef oft dundað mér við að telja hanagólsloturnar sem færst hafa í aukana undanfarið. Get nú byrjað að telja dagana þar til ferlinu lýkur.

Hafa lesendur góðir e-r skemmtilegar tillögur um hvernig best sé að verja tíma sínum milli 05:00 - 07:20 eftir að hafa vera glaðvakin af hana?

sunnudagur, 22. janúar 2012

Á bóndadaginn

fékk maðurinn minn bláa rós í angalanga


eldaði kvöldmatinn sjálfur


og drakk bjór í boði bandaríska sendiherrans á Íslandi



Maðurinn minn er heldur enginn bóndi þrátt fyrir að vera vakinn af hanagali á hverjum morgni.

sunnudagur, 15. janúar 2012

Talandi um iðnaðarsalt

þá er ég búin að
  • drekka kaffi í rúminu yfir bókalestri
  • taka niður jólaskrautið
  • setja í þvottavél í fyrsta skipti síðan í fyrra
  • kaupa diska í nýja matarstellið
  • fá gefins ferkantað jarðarberjajelló
  • sofna yfir sjónvarpinu
  • baka bananabrauð með berjum
  • tala töluvert um brjóst og sílikon við þann myndarlega
  • fá mér miðdegisverð á Gráa Kettinum
  • máta fallega kjóla á helmingsafslætti sem reyndust allir of stórir
  • gramsa í Kolaportsdóti og kaupa fleiri bækur
  • skrá mig í þrjá kúrsa
  • elda mat án þess að leiða hugann að iðnaðarsalti

miðvikudagur, 11. janúar 2012

Berlín í bollu

Fékk mér kaffi og Berlínarbollu


Hugsaði um ömmu.

Sá myndarlegi fékk sér Viskí og berlínarbollu



Gúffaði í sig bolluhugsanir.

þriðjudagur, 10. janúar 2012

Snjóþak

Það er ekki bara ný-gömul ljósakróna sem hangir í húsinu okkar hérna í Túninu


Sem betur fer hékk þessi angalangi úti en ekki inni


Þeim myndarlega leist ekkert á að hafa þetta slytti slútandi yfir útirdyrahurðinni og mundaði skófluna fastlega


og feykti snjóhengjunni burt sem væri hún snjófis


enda snöfurmannlegur með spaðann



mánudagur, 9. janúar 2012

Angalangur

Rétt búin að sleppa þeim skrifuðum orðum að ég kærði mig ekki um blóm þegar ég rak augun í þessi



Sá þennan dásamlega vönd fyrir mér í nýju borðstofunni okkar eða endurbættri stofunni, en þegar sá myndarlegi stakk upp á að taka svarta skrímslið* í borðstofunni niður og festa fína vöndinn upp ekki seinna en strax, tók ég ósjálfráða dásasteypu og jóðlaði jahá af einlægum innileika.

Enda veit ég ekkert hvenær nýja borðstofan verður nýja borðstofan eða hvenær við endurbætum stofuna, nenntum ekki einu sinni að setja í þvottavél þó karfan sé full. Nenntum bara að bæta á okkur blómum.

*Skelfilegasta ljósakróna sem ég hef augum litið.

sunnudagur, 8. janúar 2012

Bókabéus

Fór í muna-safnið í dag og keypti bókina sem mig vantaði



og já, örfáar aðrar sem ég átti ekki heldur. Nema reyndar þessa efstu þarna, en mig vantaði hana líka, hún er sko allt öðruvísi en þessi sem ég átti fyrir. ALLT öðruvísi.

Sumir vilja víst meina að maður geti jú endalaust á sig blómum bætt.
Ég kæri mig ekkert um blóm. Bara bækur.

laugardagur, 7. janúar 2012

Kisa fjögur

Fór í góðan göngutúr í dag með þeim myndarlega í hálku og bleytu. Ætluðum á listasafn en stungum okkur þess í stað inn í Kolaportið, sem í sjálfu sér mætti kalla safn. Muna-safn. Sá bók eftir einn af uppáhaldshöfundum mínum. Taldi mig eiga gripinn og skildi hana því eftir. Fór heim með kött. Tilgangslausan kött sem trónir sperrtur með fuglum, múmínálfum, hjörtum og stúlkunni hennar mömmu



Þarf að fara aftur á muna-safnið á morgun. Vantar nefninlega bókina.
Ætla að skilja köttinn eftir heima.

sunnudagur, 1. janúar 2012

Áttadagur

Gamla árið kvatt með Kötlugosi


Hlakka til þess nýja með þessa fallegu elsku



mér við hlið.