laugardagur, 8. október 2016

Í gær, kl.16:58,

fékk ég sms frá betri helmingnum svo hljóðandi;

Keypti "óvart" mikið af kantarellu sveppum. Kannski finna uppskrift fyrir morgundaginn?

Að sjálfsögðu brást ég vel við og hóf strax að gúggla uppskriftir enda ekki á hverjum degi sem eiginmaðurinn kemur heim að utan með kantarellusveppi. Sem betur fer var ég nokkuð iðin við kolann og fann þó nokkrar girnilegar uppskriftir til að moða úr, sá myndarlegi er komin frá Stokkhólmi með 1,5 kg af kantarellum! Er rétt í þessu að sýna af mér aðdáunarverða þolinmæði við rísottógerð, læt sem vind um eyru þjóta allar athugasemdir þess myndarlega um að klukkan sé þetta og hitt hjá honum (á sænska vísu). Held risottóreglu Margrétar systur að sjálfsögðu í heiðri - bara eitt glas af hvítvíni í pottinn, restin í kokkinn. Með Double Fantasy á fóninum má karlinn alveg kvarta yfir svengd fyrir mér.

þriðjudagur, 4. október 2016

Sá myndarlegi fór í ræktina eftir vinnu.

Það þýddi að eldamennskan var á minni könnu. Allt gott og blessað með það. Fátt betra en góð hlutverkaskipting hjóna á milli, eða hvað?

Nema hvað, eldri sonur eiginmannsins hefur ákveðið að vera grænmetisæta. Allt gott og blessað með það. Sjálf reyni ég að elda grænmetisrétti reglulega og þykir verulega gott að borða grænmetisrétti. Svo ég fór að gúggla. Grænmetisrétti að sjálfsögðu. Endaði slefandi í vinnunni á síðunni hjá henni Kate sem á þennan líka sjúklega sæta hund sem virðist líka vera grænmetisæta. Ojæja, allt gott og blessað með það. Fletti í gegnum uppskrift eftir upskrift af svo girnilegum mat að ég átti í mestu vandræðum með að velja eina úr. Fyrir valinu varð þó að lokum þessi, líklega vegna þess að ég elska blómkál. Og túrmerik. Og karrí. Og engifer. Og spínat. Og og og.......

Hvort sem þú ert grænmetisæta, veganæta, kjötæta, brauðæta, snakkæta eða bara almenn alæta þá mæli ég með því að þú kíkir á hana Kate. Aðallega samt af því að Cookie er svo sæt.

föstudagur, 30. september 2016

Beyoncé bjargaði mér í morgun.

Dagsatt. Við myndarlegi erum búin að kaupa okkur nýjan bíl. Næstum því glænýjan (allavega á okkar mælikvarða). Í morgun þurfti ég að skafa framrúðuna. Nema hvað, sköfurnar okkar eru ennþá í gamla bílnum sem þessa stundina er staddur í Ólafsvík. Gullkerran, 16 ára gömul, er í yfirhalningu hjá föður mínum. Það kom sér því aldeilis vel að hafa Beyoncé tiltæka í nýja bílnum. Var að vísu smá rönd eftir ofarlega fyrir miðri rúðu en það var ekki geisladiskahulstrinu um að kenna heldur hæð frúarinnar, nýji bíllinn er nefnilega smájeppi svo kallaður, sem kallaði fram smæð frúarinnar í þessu tiltekna tilviki.

Legg ekki meira á ykkur elskurnar, stórar sem smáar.

fimmtudagur, 29. september 2016

Fari það í húllandi haha og híhí

Skrambi margt á daga mína drifið síðan síðast.

 1. Búin að fá Húlladúlluna vinkonu mína í heimsókn og gera heiðarlega tilraun til að húlla. Kom mér á óvart hvað eiginmaðurinn var liðtækur í húllinu og hversu auðvelt það reyndist að húlla með handleggjunum. Húllandi sprúllandi fjör.
 2. Loksins búin að sjá Frozen. Líf mitt verður aldrei samt á eftir.
 3. Vaknaði fyrir allar aldir á sunnudegi við að sprúðlandi sæt systurdóttir mín hoppaði ofan á mig til þess eins að vekja mig. Stóðst ekki sæta brosið hennar sem mætti mér þegar ég opnaði augun.
 4. Fór með hana á Hamborgabúlluna sem er hérna úti á horni hjá okkur þar sem við sungum við raust með Pallalagi meðan eiginmaðurinn litaði í litabók. Ekki á planinu að heimsækja fabrikuna þá næstu 8 árin.
 5. Fór í matarboð og hitti vaskan hund sem ég ærslaðist í og gaf restina af nautsteikinni minni milli þess sem ég skvetti í mig rauðvíni. Húllandi sprúllandi fjör.
 6. Búin að keyra uppí Heiðmörk og finna Silungapoll. 
 7. Hitta vinkonur á Vegan kaffihúsi og háma í mig besta kínóasalat sem ég hef á ævinni bragðað.
 8. Skála við aðra sprúðlandi sæta systurdóttur í skemmtilegum kokteilum og eta á mig gat.
 9. Búin að standa úti á svölum með gapandi ginið í átt að dansandi norðurljósum. Missti hins vegar af fyrirhugaðri norðurljósasýningu gærdagsins en vaknaði með köttinn svo gott sem vafin utan um hálsinn á mér.
 10. Búin að horfast í tómar augntóftir á gómsætum þorskhaus.
Í kvöld reif ég parmesan niður í sundurslegið eggið sem ég velti snitzelsneið uppúr áður en ég velti henni í heimagert brauðrasp og henti því næst inní ofn með vænni tuggu af smjöri. Dró fram fíngerðan disk úr Mávastelli nokkru, líklega ætlað undir smákökur, og snæddi brauðraspofnsteiktu parmesansnitzelsneiðina af í fylgd með saltaðri lárperu. Prýðis gott.

Núna ætla ég að sækja eiginmanninn á Keflavíkurflugvöll, alveg tímabært að fá hann heim í kotið.

þriðjudagur, 20. september 2016

Skellti mér í sjóinn með skæslega þýska fjóreykinu frá í fyrrakvöld


Eiginmaðurinn er ekki enn búinn með trópícal safann svo ég ákvað að gefa honum einn sjéns enn (safanum, ekki karlinum). Í fylgd með vodka, þurrum martíní og Passóa verður til kokteill sem ber það frumlega heiti Ástríðudraumur, skítsæmilegur en ekki mikið meira en það. Trópíkal safinn hefur hér með fengið lokasjénsinn hjá mér.

Hafsjór af fantasíum geymir fáa, jafnvel enga, slagara. Helst Verð að fara heim sem einhver hlustandi gæti kannast við. Engin póstkort að finna í þessu tvöfalda plötuumslagi, hins vegar er að hægt að opna það uppá þessa glæsilegu gátt af fegurð og lekkerheit


Það merkilega við þessa plötu er þó líklega sú staðreynd að mamma átti hana ekki heldur fékk ég hana gefins frá gömlum kærasta. Í innra plötuumslagið hefur hann skrifað í góðri trú; frá þínum að eilýfu. Að sjálfsögðu entist það ekki rassgat, það er heldur ekki til nein eilýfð.

sunnudagur, 18. september 2016

Bóní Emm

Karlinn dreif sig í ræktina og ég dró fram eina af gömlu Boney M. plötunum hennar mömmuNæturflug til Venusar var vel á veg komið þegar ég fór eitthvað að kíkja á fyrra plötualbúmslafið - plötuumslagið er sumsé eins og hér sé tvöföld plata á ferð en svo er ekki - og viti menn, þar leyndust gríðarlega skæslegar myndir af þessu þýska fjóreyki sem ég hafði bara aldrei á ævinni litið augum áður þrátt fyrir að hafa brugðið plötunni svona c.a. 3335 sinnum á fóninnNema hvað haldið þið að hafi komið uppúr kafinu þegar ég sneri myndunum við?Auðvitað eru þetta póstkort, fólk var svona heilt yfir ekkert mikið að senda e-mail þarna árið 1978, miklu meira tekið að draga fram blýantinn og splæsa í eins og eitt frímerki. Dreplangar auðvitað að senda mömmu eitt af þessum póstkortum og spyrja hana að því hvort hún hafi vitað af þeim þarna í plötuumslaginu. En, ég tími því ekki. Sorrí mamma.

Dró líka fram kokteilhristarann (hvort ég dró Bóní M. eða hristarann fram á undan fæst ekki gefið upp hér). Eigum Tropical safa sem eiginmanninum þykir voða góður. Ég hinsvegar er ekki alveg jafn hrifin en hugsaði með mér að rétt væri að gefa honum annan sjéns, eins og sagt er. Trópíkalsafi hristur saman með limesafa, rommi, sykurlausn og campari gerir víst eitt stykki koketil sem ber heitið Heimspekingur erlendisHvort heimspekingurinn sá fór erlendis með næturflugi til Venusar er á huldu, drykkurinn hins vegar er ekki mikið meira en skítsæmilegur. Ákvað að demba meiri skvettu af uppáhalds hráefninu mínu útí drykkinn, Kamparí. Áfram skítsæmilegt. 38 ára gömlu slagararnir af Næturfluginu stóðu þó fyllilega fyrir sínu, slátturinn í Raspútín, niðurinn af Babýlon ánni og brúna stelpan í hringnum. Persónulegt uppáhald er þó alltaf þetta. Stúlka ætti heldur aldrei að skipta um elskanda um miðja nótt. 

föstudagur, 16. september 2016

Láslaust blogg

Loksins þegar ég ætlaði að nota fína hjólalásinn minn þá fann ég hann ekki. Teymdi samt fákinn út úr skúrnum og steig pedalana fast á móti vindinum með lopahúfu á hausnum. Elda tók brosandi á móti mér niðrá Haiti og hjólið beið mín láslaust fyrir utan. Sólin skein við mér á heimleiðinni og ég sá svo margt fallegt. Túristana líka, seiseijá. Með ylvolgar, svartar baunir í bakpokanum.

Karlinn er ennþá í vinnunni, puðar við að skemmta Háskólanemum í vísindaferð. Konan opnaði ísskápinn og fann 4 sveppi og örlitla spínatrest í poka. Steikti sveppina í glás af smjöri, skar niður hvítlauksrif og bætti úti ásamt spínatrestinni. Hvítlaukssmjörlyktin var svo dásamleg að ég ákvað að skera niður annað rif og bæta útí. Átti afgang af útrunnu saffranpasta - rennur pasta í alvöru út? - sem ég sauð og blandaði saman við smjörsteikinguna, reif eitthvað af sítrónuberki yfir og dágóðan slatta af parmesan. Að sjálfsögðu. Svakalega gott þó ég segi sjálf frá. 

Næst þegar ég fer á fyllerí ætla ég að kalla það vísindaferð.

laugardagur, 10. september 2016

Í kvefþoku kemur bara svona blogg

Skreið heim eins og undin tuska eftir vinnu á fimmtudag. Með auman, skraufþurran háls, kitlandi sviða í nefi og kvefþoku í hausnum var freistandi að hætta við vinkonuhitting um kvöldið. Sem betur fer snýtti ég mér duglega, fór í aðra blússu og fékk karlinn til að keyra mig á Seilugranda með rauðvínsflösku, glænýtt sultutau og brakandi útrunnið Lime súkkulaði handa vinkonunum. Vinkonum sem konan er stolt að geta státað af. Vinkonum sem eru svo frábærar að hún skilur ekki alltaf alveg af hverju þær nenna að vera vinkonur hennar, en nýtur þess samt í botn í hvert sinn að deila lífsins gleði jafnt og sorgum með þessum kjarnakonum. Og slúðra, sei sei jú.

Í gær ætlaði ég að gera heljarins ósköp af allskonar í vinnunni en áorkaði ekki nema 1/4, vann á hraða snigils og geiflaði mig í þvílíkum geispum að á tímabili óttaðist ég helst að snarast úr kjálkalið. 

Í dag var ég iðin við að hengslast um á náttkjólnum, drekka kaffi, spjalla við mömmu, leggja mig, lesa grein um Abba Kovner, klappa kettinum, drekka meira kaffi. Legg ekki meira á ykkur.

föstudagur, 26. ágúst 2016

Fengum loksins...

sjúkdómsgreiningu á posavandanum á kassa eitt í dag og að sjálfsögðu vippuðum við Frikki Melabróðir okkur strax í aðgerð "skipta um snúru". Dugði ekkert minna en okkur tvö til verksins. Vorum þarna saman að gaufast og gera þegar ung kona vindur sér að mér og segir; fyrirgefðu, ég veit að þú ert ekkert að vinna hérna en værir þú til í að rétta mér 85% súkkulaðið þarna fyrir aftan þig svo ég geti farið með það á hinn kassann. Í fyrsta skipti á minni stuttu ævi var ég sumsé tekin fyrir forritara. Ég skelli skuldinni alfarið á snúruna.

Eftir þetta vorum við Frikki orðin svo náin að þegar ég síðar um daginn hljóp upp um hálsinn á sölumanninum okkar frá Freyju og rak honum rembingskoss hljóp Frikki til og gerði slíkt hið sama. Munurinn er þó sá að ég hafði fengið fullann poka af lakkrís að gjöf, Frikki fékk ekki neitt.Eftir vinnu tók ég strikið beint á Café Haiti þar sem ég hitti fyrir hana Eldu sem veit upp á hár hvað gleður okkur Pétur. Gekk síðan rösklega í átt að Hörpu og áfram meðfram sjónum, yfir ljósin til móts við Höfða og heim. Með ylvolgar baunir í bakpokanum.

fimmtudagur, 25. ágúst 2016

Kom heim með fangið fullt...

af útrúnnu Melabúðargóssi. Karlinn stóð með uppbrettar skyrtuermar við vaskinn, á kafi í uppvaski og hugleiðingum um mat. Sjálf dembdi ég mér í regngalla og dró fákinn út úr skúrnum. Steig pedalana til móts við Höfða, renndi mér meðfram sjónum að Hörpu, hjólaði Lækjargötuna, þeystist upp gömlu Hringbrautina, geystist gegnum Norðurmýrina með ánægjuglott í munnvikum alla leiðina heim. Heima beið mín fullt hús af matarlykt og skemmtilegu fólki.
Síðan ég dró fákinn síðast út úr skúrnum hef ég;

 1. legið á lapþunnri dýnu í hrikalega skemmtilegu hverfi í Berlín sem hugsanlega hefur orsakað stífleika í frúnni (dýnan sumsé, ekki Prenzlauer Berg)
 2. farið í saumavélabúð í útlöndum og hlustað á betri helminginn tala um saumavélastöff á þýzku
 3. heimsótt fangelsi og fangabúðir
 4. farið með pabba minn að borða afríkanskan mat, tyrkneskan mat, asískan og ítalskan
 5. farið á ættarmót og hitt hvorki fleirri né færri en tvær Kötlur
 6. farið í klippingu með mömmu minni, geri aðrir betur
 7. farið á skrall með systurdætrum mínum og farið á barinn á stöðum sem ég vissi ekki að væru til
 8. lesið svakalega bók um konu í Berlín í vegaferð í Pólandi
 9. látið mig dreyma
Tók mig allt of mörg ár að komast að því að mér finnst gaman að hjóla. Gleypti ekki eina einustu flugu í þessari hjólaferð heldur, sem betur fer, en varð kalt á eyrunum. Naut þess samt að stíga pedalana í rigningarúða. Fiktaði meira að segja í gírunum fyrir kallinn. Held það nú.

þriðjudagur, 23. ágúst 2016

Skakklappaðist...

fram úr í morgun, skökk og skæld, pinnstíf í hálsi og herðablöðum með verk niður í bak og vinstri handlegg. Eftir aðeins 1 vinnudag eftir langt og gott frí á ég bágt með að skella skuldinni þar, hef því ákveðið að sökin liggi hjá lapþunnri dýnunni sem við lágum á í Berlín í rúmar 2 vikur. Það og að hugsanlega hafi ég sofið skökk í sumarbústaðarfleti í Skagafirði eða skæld í svefnsófanum í sjónvarpsherberginu. 

Ákvað að skella mér í sund eftir vinnu (að sjálfsögðu búin að væla út þó nokkra vorkunn frá þeim myndarlega og loforð um nudd um kvöldið) í þeirri góðu trú að létt ganga í Laugardalslaugina og góður sundsprettur myndi bara liðka mig til. Gafst upp á verknum frá hálsinum niður í bak eftir 2 ferðir fram og til baka.  Eyddi góðum tíma í næst heitari pottinum áður en ég rölti aftur heim í brakandi rjómasólarblíðunni á skyrtunni. Sit núna við eldhúsborðið og sötra hvítvín sem hugsanlega hefur liðkað eitthvað, reyndar enn með verki en svei mér þá, ekki alveg jafn pinnstíf og í morgun.

Talandi um sund og áfengi þá rifjast upp fyrir mér starfsmannaferð sem ég fór í fyrir einhverju síðan (lesist hugsanlega í áratugum), var búin að hanga heima með brotið bringubein eftir bílslys, skökk og skæld með verki um allan skrokk. Vinnufélagarnir linntu ekki látum fyrr en ég sló til að halda með þeim í félagsheimili útá landi yfir heila helgi. Nema hvað, kverkarnar voru í ágætu standi og tóku við ágætis magni af áfengum vökva sem aftur lagðist svo endemis vel í mig að ég stóð sjálfa mig að því að vera orðin verkjalaus að mestu, nema kannski þarna fyrir bringubeinið. Lék á alls oddi og ákvað að skella mér í sundlaugina með starfsfélögunum, synti eins og hvalur og ærslaðist fram á nótt enda mikil gleði í mannskapnum. Svaka gaman. Alveg þar til ég vaknaði daginn eftir. Þynnkan var ekki svo afleit, það voru verkirnir í kroppnum sem áminntu mig rækilega á að þessi sundhugmynd hefði verið slæm hugmynd. 

Nú þegar konan er orðin svona sigld fer hún að sjálfsögðu fyrst í sund áður en hún leggst í hvítvínið. Núna finnst henni góð hugmynd að fá þann myndarlega til að efna gefið loforð um gott (vont) nudd. Legg ekki meira á ykkur að sinni.

sunnudagur, 21. ágúst 2016

Þakklæti er góð tilfinning

Skrúfaði Rondó uppí hæstu hæðir og skellti mér því næst í gulu uppþvottahanskana. Já hlustendur góðir, konan hlustar á Rondó. Oft. Dillandi mér í takt við dunandi jass dembdi ég mér í uppvaskið frá matarboði fimmtudagsins. Vaskaði og þurrkaði á víxl. Kampavínsglös með gamaldags mynstri (hér fær ýmyndunarafl lesenda að leika lausum hala). Matardiskar með bleikum rósum. Vínglös með gylltri rönd. Vatnsglös á gylltum fæti. Konjaksglös ósköp plein. Rautt staup, blátt staup, gult staup…já, það var sumsé eitthvað drukkið. Hentist niður í kjallara með dynjandi kvikmyndatónlist með dramatík í yfirsnúningi með tómar vínflöskur. Henti í þvottavél fyrst ég var komin niður. Svona getur kona látið þegar hún er ein í kotinu. 

Undir undurfögrum klassískum tónum hugsaði ég um það hvað ein kona hefur það gott, þakklát fyrir dót og drasl sem þarf að vaska upp þrátt fyrir að eiga uppþvottavél. Þakklát fyrir hina þvottavélina í kjallaranum (að kona tali ekki um þurrkarann líka). Þakklát fyrir góða norska vini sem nenna að leggja sig við það að skilja blandskandinavískuna mína með enska ívafinu yfir mat og drykk. Þakklát fyrir salatið sem vex í garðinum mínum eins og arfi. Þakklát fyrir fasta vinnu sem gerir mér kleift að gera heljarinnar allskonar. Þakklát fyrir að deila öllu þessu og sitthverju fleiru með eiginmanni sem rétt í þessu er að hafa til kvöldmatinn milli þess sem hann þrífur ísskápinn.


Á morgun mæti ég aftur til vinnu. Sumpart er það kvíðvænlegt að mæta aftur eftir langt og gott frí, dásamlega gott frí. Ætla samt ekkert að hugsa meira um það, ekki fyrr en á morgun. Núna ætla ég að borða upphitaða afganga frá fimmtudagsveislu og njóta þess sem eftir er af fríinu. Legg ekki meira á ykkur. 

föstudagur, 22. júlí 2016

Á fák og flugi

Síðustu helgi, í miðjum samræðum við mömmu, gleypti ég flugu í fyrsta skipti á minni stuttu ævi. Hóstaði heljarinnar ósköp og þrátt fyrir að langa ekkert sérstaklega til að kyngja bévítans flugunni þá vildi ég samt ekkert heitar en koma henni niður svo ég gæti skammlaust klárað setninguna sem ég var á miðju kafi í er ósköpin dundu yfir.

Nú þegar konan er orðin svona sigld, enda formlega komin á fimmtugsaldur (ekki seinna vænna), ákvað ég að draga fram hjólið mitt. Hjólið sem fyrrverandi sambýlismaður minn gaf mér þegar konan var enn á þrítugsaldri. Hjólið sem staðið hefur í Buckingham palace skúr mest allan tímann sem konan var á fertugsaldri. Hjólið sem eiginmaðurinn, sem aldrei hjólar, dröslaði til Dr. Bike til yfirferðar. Hjólið sem fékk bara prýðis læknisúrskurð og endaði aftur inni í skúr.

Dustaði áratuga gamalt ryk af hjálminum mínum, hnýtti á mig hvítu, ljótu strigaskónna mína og steig á pedalann (sem er reyndar bara hálfur hægra megin). Heyrði kallinn kalla; helduru jafnvægi? á eftir mér út heimreiðina. Steig báða pedalana og þóttist ekki heyra í honum. Áður en ég vissi af var ég komin til móts við Glæsibæ. Tók snögga vinstri beygju og hjólaði gegnum Laugardalinn, stefnan sett á heim. Hjólaði framhjá fótboltaleik, hrúgu af indverskum piltum, feðgum að elta Pókemon, styttu af mjólkandi móður og fallegum blómum. Steig pedalana fastar upp brekkur, brosti og naut þess að finna vindinn í eyrunum. 


Núna er karlinn uppfullur af því að ég hafi hjólað alla þessa leið án þess að skipta um gír í eitt einasta skipti. Sjálf er ég uppfull af ánægju yfir því að hafa ekki gleypt eina einustu flugu á leiðinni, hef heyrt ægilegar sögur af fólki sem gleypir kynstrin öll af flugum í hjólatúrum. Kannski skipti ég um gír í næstu ferð. Kannski.

fimmtudagur, 21. júlí 2016

Súpufín súpa frá frú Matarkistu

Hér gefur að líta olíukraumandi lauk í potti (það er yfirleitt ágætis byrjun á eldamennsku)


Ein af ofurfæðunum mínum eru kartöflur (þýðir ekki ofurfæða annars einhvað sem er hrikalega gott?) svo ég henti þeim glöð í bragði ofaní pottin þar sem laukurinn kraumaði hvissandi


Gulrætur og sellerí voru næstar í olíubaðið, finnst bæði gott en þó ekki ofur gott eins og kartöflur, enda eru þær ein af ofurfæðunum mínum eins og þið kannski munið


Það átti víst líka að vera hvítlaukur þarna en ég steingleymdi honum. Mundi sem betur fer eftir Túrmerikinu


Mundi líka eftir því að sækja brauð í frystikistuna og að kveikja á ofninum, skvetti smá vatni á brauðið áður en ég skvetti því inní ofninn


Þessu næst skvetti skvettan (nú er ég auðvitað byrjuð að ýkja) kjúklingakrafti yfir grænmetisblönduna í pottinum. Eftir einhverja soðningu var það kókosmjólk sem var skvett saman við


Smátt skornu spínati blandað saman við alveg í restina, *hvítur pipar og örlítið salt notað til að bragðbæta og brauðin orðin klár í ofninum


stökt og gullinbrúnt og flott, enda vatnsskvett af skvettunni.
Sólarlaus rjómablíða og ekki til setunnar boðið en úti á verönd


Feðgarnir líka súpufínir. Og súpan já, mikil ósköp


*Gruna hana Sigurveigu vinkonu mína um hvít pipar blæti. Uppskrift fengin frá henni.

fimmtudagur, 14. júlí 2016

Blá ber og gul sól

Labbaði heim eftir vinnu í blíðskaparveðri í fyrradag með bláber og klettasalat í töskunni. Með kalt hvítvín í glasi dembdi ég mér útá verönd þar sem ég skar niður iceberg, blandaði klettasalati saman við og naut sólarylsins


Inni í eldhúsi dembdi ég sólblómafræum, hörfræum, möndluflögum og bananaflögum á þurra pönnu, stakk trýninu útá verönd og gáði til sólar og hvítvíns þar til hörfræin fóru að smella á pönnunni


Í ísskápnum leyndust afgangar af grilluðum kjúklingabringum og gráðaosti sem ég tók til við að brytja niður og demba yfir salatblönduna ásamt vænni lúku af bláberjum. Ristaðri fræflögublöndu dreift í reiðuleysi yfir ásamt möluðum pipar og vænni skvettu af ólífuolía og voilá; salatið var klárt


Kjúklingurinn var kryddaður með einhverri Cajun BBQ kryddblöndu sem bragð var af og bauð uppá skemmtilega bragðlaukaveislu. Aukaskammtur af bláberjum og hvítvíni skemmdi svo ekki fyrir


Í dag rigndi á mig er ég labbaði heim eftir vinnu. Haustgrámi í skýum á miðju sumri. Það er líka allt í lagi. Í gær brostum ég og sólin við myndarlega manninum mínum yfir kokteil á Austurvelli áður en við trítluðum yfir á Hornið þar sem við fengum okkur fantagóða pítsu sem vert er að mæla með. Það má alveg rigna meðan kona hefur sól í hjarta


Uppskrift fengin úr eigin höfði

sunnudagur, 10. júlí 2016

Bananasúkkulaðisæla

Átti banana sem voru komnir á síðasta snúning og mig langaði ekki til að gera enn eitt bananabrauðið svo ég blandaði 175 gr af sykri, 175 gr af hveiti, tsk af lyftidufti, 1/2 tsk af matarsóda, 4 msk af kakódufti og 100 gr af súkkulaðibitum saman í skál


Stappaði bananana vel saman og dembi einu eggi saman við, eggi sem reyndist vera fúlegg. Alla mína daga! Hef heyrt um svoleiðis en aldrei lent í slíku sjálf. Þegar fúlegg ber undir er gott að luma á öðru setti af vel þroskuðum bönunum í frystikistunni


Frystikistubönunum skellt í afþiðnun í ofninn, stappað saman ásamt heilu ófúlu eggi og 2 eggjarauðum, 100 ml af ólífuolíu og 50 ml af mjólk hrært þvínæst saman við


Bananablöndu dembt útá þurrefnablöndu og öllu blandað vel saman


Eggjavítunum tveimur frá eggjarauðunum sem fóru í bananahræringinn voru stífhrærðar, helming blandað vel saman við alla hina hræruna og seinni helming blandað varlega saman við með sleif


Því næst skellt í smurt form enda nóg komið af hræringu. Blástur á 160 í kltíma og korter


Meðan kakan, sem ilmaði afar vel bara svo þið vitið það, kólnaði í forminu setti ég 100 gr af súkkulaði í skál ásamt 100 ml af sýrðum rjóma


Brætt yfir vatnsbaði og hrært vel í (þið hélduð þó ekki að konan væri hætt að hræra?). Þegar vel samanhrærð var blöndunni stungið inní ísskáp til kælingar þar til kremhæf


Þá var þeirri hræru sem orðin var að kremi, enda konan hætt að hræra, smurt yfir kalda kökuna og þurrkuðum bananabrotum fleygt í óreiðu yfir


og ekkert annað eftir en að hella uppá kaffi og njóta


Uppskrift fengin héðan.

Humarrest

Litli bróðir þess myndarlega var í hálfs mánaðar heimsókn hjá okkur. Kærkominni heimsókn alla leið frá Ástralíu. Af því tilefni tók sá myndarlegi sér frí og flandraðist með áströlsku fjölskylduna um Íslands koppagrundir, dembdi þeim í heimsóknir til ættingja og vina, sló upp hamborgara- og pylsupartýi, hristi kokteila, tók tappa úr og galdraði fram hinar ýmsu kræsingar af sinni alkunnu list.

Síðasta heimsóknarkvöldið grilluðum við eðal humar úr Melabúðinni. Sátum eftir með smotterís afgang sem ég skar niður í munnbitastærðir í morgun og kryddaði með smávegis Cayennepipar


Sló saman 4 eggjum ásamt hæfilegu magni af fáfnisgrasi


Bræddi dágóðan slatta af smjöri á pönnu og velti humrinum þar um í 2-4 mín. Dembdi síðan eggjahrærunni yfir og hrærði þar til úr varð dásemdar humareggjahræra


Kælda kamapavínið í ísskápnum hefði verið flott með en við létum ristað brauð og vatn úr krananum nægja. Að þessu sinni.

Uppskrift fengin héðan.