sunnudagur, 21. ágúst 2016

Þakklæti er góð tilfinning

Skrúfaði Rondó uppí hæstu hæðir og skellti mér því næst í gulu uppþvottahanskana. Já hlustendur góðir, konan hlustar á Rondó. Oft. Dillandi mér í takt við dunandi jass dembdi ég mér í uppvaskið frá matarboði fimmtudagsins. Vaskaði og þurrkaði á víxl. Kampavínsglös með gamaldags mynstri (hér fær ýmyndunarafl lesenda að leika lausum hala). Matardiskar með bleikum rósum. Vínglös með gylltri rönd. Vatnsglös á gylltum fæti. Konjaksglös ósköp plein. Rautt staup, blátt staup, gult staup…já, það var sumsé eitthvað drukkið. Hentist niður í kjallara með dynjandi kvikmyndatónlist með dramatík í yfirsnúningi með tómar vínflöskur. Henti í þvottavél fyrst ég var komin niður. Svona getur kona látið þegar hún er ein í kotinu. 

Undir undurfögrum klassískum tónum hugsaði ég um það hvað ein kona hefur það gott, þakklát fyrir dót og drasl sem þarf að vaska upp þrátt fyrir að eiga uppþvottavél. Þakklát fyrir hina þvottavélina í kjallaranum (að kona tali ekki um þurrkarann líka). Þakklát fyrir góða norska vini sem nenna að leggja sig við það að skilja blandskandinavískuna mína með enska ívafinu yfir mat og drykk. Þakklát fyrir salatið sem vex í garðinum mínum eins og arfi. Þakklát fyrir fasta vinnu sem gerir mér kleift að gera heljarinnar allskonar. Þakklát fyrir að deila öllu þessu og sitthverju fleiru með eiginmanni sem rétt í þessu er að hafa til kvöldmatinn milli þess sem hann þrífur ísskápinn.


Á morgun mæti ég aftur til vinnu. Sumpart er það kvíðvænlegt að mæta aftur eftir langt og gott frí, dásamlega gott frí. Ætla samt ekkert að hugsa meira um það, ekki fyrr en á morgun. Núna ætla ég að borða upphitaða afganga frá fimmtudagsveislu og njóta þess sem eftir er af fríinu. Legg ekki meira á ykkur. 

Engin ummæli: