Síðustu helgi, í miðjum samræðum við mömmu, gleypti ég flugu í fyrsta skipti á minni stuttu ævi. Hóstaði heljarinnar ósköp og þrátt fyrir að langa ekkert sérstaklega til að kyngja bévítans flugunni þá vildi ég samt ekkert heitar en koma henni niður svo ég gæti skammlaust klárað setninguna sem ég var á miðju kafi í er ósköpin dundu yfir.
Nú þegar konan er orðin svona sigld, enda formlega komin á fimmtugsaldur (ekki seinna vænna), ákvað ég að draga fram hjólið mitt. Hjólið sem fyrrverandi sambýlismaður minn gaf mér þegar konan var enn á þrítugsaldri. Hjólið sem staðið hefur í Buckingham palace skúr mest allan tímann sem konan var á fertugsaldri. Hjólið sem eiginmaðurinn, sem aldrei hjólar, dröslaði til Dr. Bike til yfirferðar. Hjólið sem fékk bara prýðis læknisúrskurð og endaði aftur inni í skúr.
Dustaði áratuga gamalt ryk af hjálminum mínum, hnýtti á mig hvítu, ljótu strigaskónna mína og steig á pedalann (sem er reyndar bara hálfur hægra megin). Heyrði kallinn kalla; helduru jafnvægi? á eftir mér út heimreiðina. Steig báða pedalana og þóttist ekki heyra í honum. Áður en ég vissi af var ég komin til móts við Glæsibæ. Tók snögga vinstri beygju og hjólaði gegnum Laugardalinn, stefnan sett á heim. Hjólaði framhjá fótboltaleik, hrúgu af indverskum piltum, feðgum að elta Pókemon, styttu af mjólkandi móður og fallegum blómum. Steig pedalana fastar upp brekkur, brosti og naut þess að finna vindinn í eyrunum.
Núna er karlinn uppfullur af því að ég hafi hjólað alla þessa leið án þess að skipta um gír í eitt einasta skipti. Sjálf er ég uppfull af ánægju yfir því að hafa ekki gleypt eina einustu flugu á leiðinni, hef heyrt ægilegar sögur af fólki sem gleypir kynstrin öll af flugum í hjólatúrum. Kannski skipti ég um gír í næstu ferð. Kannski.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli