fimmtudagur, 27. júlí 2017

Ég er prinsessa

Síðasti dagurinn í Bordeaux að kveldi kominn. Þrátt fyrir fantafína spá var dagurinn sólarlaus að mestu. Get samt ekkert kvartað, erum búin að spóka okkur um í sandölum og sól, flatmaga við sundlaugina í hita sem hefur farið alla leiðina upp í 37 stig (heldur mikill hiti fyrir tvo Íslendinga), setið úti á veitingastöðum og vínbörum og dæst af hreinum (vín)anda.

Annan hvern dag hefur sá myndarlegi skotist í bakaríið að sækja nýja baguettu og croissant handa frúnni. Hinn daginn steikir hann baguettuna, niðurskorna, frá deginum áður og ber fram með steiktum eggjum. Þegar baguettan er ný sýður hann eggin. Linsoðin, að sjálfsögðu. Með þessu gæðum við okkur á frönskum ostum, skinkum og eðal appelsínusafa. Einn sumarfrísdaginn þegar sá myndarlegi vakti mig með kaffibolla sagði hann; þú ert nú meiri prinsessan. Svar mitt var einfalt (enda nývöknuð); ég veit.

Þrátt fyrir sólarleysi dagsins sit ég úti við laugina, í kjól sem ég keypti mér í Marokó um páskana. Kampavín í glasi, berfætt. Hvar er sá myndarlegi? spyrjið þið. Nú, hann er að pakka, hver annar á að gera það?

Frá sólarlausri Bordeaux

Heyrði köttinn góla hérna fyrir utan og dreif mig útá verönd að athuga með hana. Þar sem ég beygði mig yfir hana og strauk mjúkan feldinn varð mér skyndilega hugsað til Elle. Andskotann þarftu alltaf að láta svona kona sagði ég við sjálfa mig í huganum. Dreif mig samt inn. Kötturinn kom á eftir mér en ég lét það alveg vera að loka verandarhurðinni. Er nefninlega ein heima í augnablikinu, eða þ.e.a.s. ég, Licia (kötturinn) og of auðugt ímyndunarafl mitt eru heima. 

Rétt áðan hringdi ég í monsjör Pinto og pantaði leigubíl fyrir morgundaginn. Talaði ekkert nema frönsku í símann. Ófull í ofanálag. Hvort herra Pinto mætir kl. tíu í fyrramálið verður bara að koma í ljós, þeim myndarlega fannst allavega ástæða til að leita uppi hraðbanka og hafa upphæðina (sem ég held að ég hafi skilið rétt) klára ef ske kynni að herra Pinto verði ekki með posa meðferðis. Þess vegna er frúin ein heima með ímyndunaraflið á snúningi.

Annars er karlinn búinn að vera óvenju lengi í burtu, mætti alveg fara að koma til baka. Það þarf jú að fara að opna kampavínsflöskuna sem lúrir ísköld í ísskápnum.

þriðjudagur, 18. júlí 2017

Oft veltir góð bregða skæru ópi

Þið munið öll eftir sturtuatriðinu úr Psycho, er það ekki? Ekki það nei. Jæja, ég stóð sumsé í sturtunni nýskrúbbuð og lét vatnið renna yfir mig, lyngdi aftur augunum og lét mér líða svo ósköp vel undir heitri bununni. Byrjaði að vagga mér í vellíðan og pírði rifu á augun og 
haldið þið ekki að eiginmannsónefnan hafi staðið starandi þvílíkum girndaraugum á eiginkonuna að ég bara æpti upp yfir mig og þakkaði Jesús og Maríu mömmu hans fyrir að ekki var sturtuhengi fyrir sturtunni, annars hefði ég klárlega rifið það niður í geðshræringunni sem ég var í. 

Við myndarlegi erum annars í sumarfríi í Frakklandi, Bordeaux nánar tiltekið. Skiptum á húsnæði við franska listakonu. Látum okkur líða svo ógurlega vel hér í einbýli á einni hæð með sundlaug í garðinum. Síðustu tvo daga hefur hitinn hlaupið uppí 37 °c og þá kemur sér nú vel að geta slakað á við laugina. Var búin að teygja skanka í sólstól eftir sundsprett þegar róbótinn, sem hreinsar sundlaugina átómatískt, spyrnti við sínum plastfótum og spýtti vatni langt yfir sundlaugarbakkann. Sem betur fer bara við hliðina á mér þar sem ég lá allsnakin að lesa sænskan krimma yfir frönsku rósavíni. Hljóðaði samt upp yfir mig.

Eftir allan hitann hrúguðust dökk ský skyndilega á himininn og sterkur blástur feykti laufum og blómum í laugina. Sá myndarlegi stökk að grillinu enda höfðum við fyrr um daginn keypt dýrindis steikur sem honum var farið að hlakka til að grilla. Er fyrstu droparnir hrundu af himnum heyrði ég þann myndarlega æpa. Ég var rétt búin að breiða yfir sundlaugina og stökk af stað til hans. Það eru engar rifflur á þessu grilli æpti hann móðursýkislega. Getum við nú ekki samt sett kartöflurnar á sagði ég sefandi röddu, svo eru nú steikurnar svo fínar, svona rifflulaust grill slær ekkert á slík gæði. Sá myndarlegi lét sig hafa það og rigningin varð eiginlega engin rigning.

Eftir dýrindiskvöldverð sátum við myndarlegi svo með dýrindis rauðvín í glösum úti við laug og fylgdumst með mögnuðum eldingum og hlustuðum á þrumandi þrumur fram eftir kveldi. Létum okkur hvergi bregða.

sunnudagur, 16. júlí 2017

Liberté, égalité, fraternité!

Í fyrradag röltum við myndarlegi útá strætóstöð sem er steinsnar hér frá í úthverfinu sem við dveljum í hér í Bordeaux. Án þess að vita nokkuð um tímasetningar þá römbuðum við akkúrat á strætóinn "okkar", rétt komin. Nema hvað, við stóðum hinumeginn á götunni og horfðum því á strætóinn "okkar" bruna framhjá. Klukkutími í næstu ferð svo við afréðum að halda í hálftíma göngu á sporvagnastöðina. Með sporvagninum komumst við svo niður í miðbæ þar sem við röltum um í brakandi blíðu, dáðumst að stórkostlegum byggingum, fylgdumst með hlæjandi börnum hlaupa hálfber í Spegli vatnsins, furðuðum okkur á stærð árinnar La Garonne sem er ekkert minna fljót en á, fengum okkur drykk, snæddum versta kvöldmat ferðarinnar (vonandi), fengum okkur annan drykk, týndum okkur í iðandi mannfjölda á þjóðhátíðardegi Frakka. 

Flugeldasýningin um kvöldið var ekkert minna en frábær þó hún hafi ekki átt roð í flugeldana á Fiskihátíðinni miklu á Dalvík. Frakkarnir voru heldur ekkert á við Íslendinga, t.a.m. sáum við aldrei vín á neinum þrátt fyrir að fólk sæti víðsvegar um hafnarbakkann og dreypti á víni og bjór. Mér fannst fólk almennt lágstemmdara og með meiri kurteisisbrag. Aldrei leið mér heldur eins og ég kæmist hvorki afturábak né áfram í allri mannmergðinni, og hún var ekkert lítil get ég sagt ykkur. Það var eiginlega ekki fyrr en við vorum komin inn í sporvagninn heim, sem við vorum hreint ótrúlega lukkuleg með að hafa komist í í fyrstu atrennu, sem mér fór að líða eins og sardínu í dós. Allar hinar sardínurnar voru jafn glaðar og ég þegar sporvagninn fór loks af stað og ýmist sátu eða stóðu af sér ferðina með gleði og bros á vör.

Í gær drifum við myndarlegi okkur í bíltúr síðdegis. Ókum framhjá vínekrum, vínekrum, maísökrum, vínekrum, vínekrum og maísökrum, vínekrum, vínekrum og svo fleiri vínekrum. Röltum um litla undurfallega miðaldabæi sem lúrðu á ævafornum klaustrum og kirkjum, borgarveggjum og hliðum, torgum og húsum, fangelsi og ráðhúsum, skemmtilegum svölum og hurðabönkurum. Eftir að hafa þrætt veitingastaði Cadillac bæjar og komist að því að þau sem ekki voru lokuð opnuðu ekki eldhúsin fyrr en um eða eftir átta, römbuðum við á vínsafn korter í lokun þess og fengum ekki bara að skoða safnið heldur fengum við líka vínsmökkun. Fransmaðurinn hellti nokkuð drjúgt í glösin okkar og hellti ég úr þeim flestum fyrir næsta smakk. Úti á bílaplani reif ég upp bílhurðina beint á ennið á mér. Ekki meira rauðvín fyrir þig sagði karlinn rogginn enda kláraði hann úr öllum sínum glösum.

Af þessu hef ég dregið þann lærdóm að ávalt skal klára hvern dropa úr vínglasi.

föstudagur, 14. júlí 2017

Áfram höldum við

Litlu mátti muna að ferðataskan okkar hefði orðið eftir í einum rúllustiganum á leiðinni í metróinn í gær. Að þessu sinni var það sá myndarlegi sem lenti í töskuvandæðum. Að sjálfsögðu greiddi hann snöfurmannlega úr því, rykkti töskunni nokkrum sinnum og náði henni af stað (með vott af stressi) án þess að skaða handlegg (sem hélt fast í handfangið) eða tösku. Stóð svo brattur og beinn í baki alla rúllustigaleið og lét sem ekkert hefði hent.

Á Charles de Gaulle flugvelli gekk flest hægt. Ótal flugvallarstarfsmenn skoðuðu vegabréfin okkar og boarding pappírana, fyrst í þessari röð, síðan í hinni og svo við röðina að öryggisröðinni og svo líka við öryggisleitina. Vorum að sjálfsögðu bæði tekin í handahófskennda leit sem blessunarlega gekk vonum framar, engin merki um meðhöndlun sprengiefna á höndum þessara Íslendinga. Í boarding röðinni var sá myndarlegi svo teymdur, ásamt örfáum öðrum, fram að hliði og beðinn um að tjékka handfarangurinn inn í vél, vélin uppbókuð og hætt við að plássleysi yrði í handfarangurshólfunum í vélinni. 

Á de Gaulle sumsé biðum við og biðum og fórum svo í lengsta fluvélarúnt á flugvelli sem við höfum farið í, ágætis rúntur og allt það en þreytandi til lengdar. Í Lyon lenti vélin með harkalegu höggi og samstundis reif flugstjórinn véina upp með látum. Hringsóluðum svo drjúga stund áður en næsta atrenna til lendingar var tekinn. Sú lending gekk öllu betur og þrátt fyrr töluverða seinkun náðum við tengifluginu okkar.

Í Bordeaux tóku Paty og Philippe brosandi á móti okkur. Okkur tóks með ágætum að babbla okkur í gegnum bílferð og kaffidrykkju heima fyrir á ensku og frönsku, PP-parið talar sumsé álíka mikla ensku og við tölum frönsku. Kvöddumst brosandi og margs vísari um heimili þeirra sem við myndarlegi ætlum okkur að dvelja í næstu dagana. Verð þó að viðurkenna að það var átakaminna að vingast við köttinn sem eftir nokkrar strokur var reiðubúin að hoppa uppí kjöltuna á mér og hreiðra þar malandi um sig. D'accord!

miðvikudagur, 12. júlí 2017

Hlauptu stúlka, hlauptu

Við myndarlegi hlupum niður tröppurnar. Við náum henni kallaði hann á hlaupunum svo ég gaf í, hljóp hraðar en hann. Kom að lestinni og skutlaði töskunni inn. Nema hvað, sem ég skutlaði töskunni inn og ætlaði á eftir henni þá lokuðust dyrnar. Neðanjarðarlestardyrnar lokuðust á handföngin á töskunni minni. Ég stóð á lestarpallinum með handföngin í höndunum og æpti; taskan mín, taskan mín!  Í lestinni sá ég stúlku, yngri en ég, sem tók á móti töskunni minni og æpti á strákinn við hliðina á sér að ýta, og saman ýttu þau töskunni minni (sem inniheldur þið vitið símann minn, veskið mitt, snýtubréfin mín, sólgleraugun og allt það) út um rifu á lestarhurðinni, sem þau þröngvuðu upp, meðan ég stóð á pallinum með handföngin ein í höndunum.

Sá myndarlegi segist hafa sagt mér að stoppa en ég heyrði hann bara segja mér að hlaupa. Altjént var ég með ónotuð hliðarbönd í töskunni sem ég smellti á hana og henti henni svo á öxlina á mér í kjölfarið. Þakklát stúlkunni í lestinni sem hlýtur að hafa lent í svipuðu og ég miðað við snör viðbrögð hennar. 

Við myndarlegi vorum annars að koma úr siglingu á Signu. Kvöldsiglingu þar sem við drukkum kampavín, átum ostabitnip, foi gras, krabbakjöt, drukkum hvítvín, rauðvín frá Bordeaux, átum kálfakjöt og andabringu, himneska osta, apríkósutertu og makkarónu. Lífið í París er gott.

miðvikudagur, 5. júlí 2017

Bóhemískt nethangs og þrifalegir frídraumar

Var að panta Bóhemískan kvöldverð í heimahúsi í Montmartre í næstu viku. Líka búin að bóka kvöldverð í siglingu á Signu. Já, við myndarlegi siglum brátt í frí og nei, við ætlum ekki bara að sitja á rassinum og borða, erum líka bókuð í göngu um stræti Parísar (með tíu matar- og vínstoppum). Höfum einnig hugsað okkur að mæna á einhverja list, milli þess sem við mænum á hvort annað, og svolgra í okkur kampavíni á einhverjum grasblettinum í parc Buttes Chaumont. 

Á eftir að vinna mér einhvern helling í haginn í vinnunni og reyni með veikum mætti að mana mig í áframhaldandi þrif hér á heimilinu. Nethangs og frídraumar eru bara svo miklu skemmtilegri. Þið skiljið mig alveg, er það ekki?

þriðjudagur, 4. júlí 2017

Af sænskum ísskápsþrifum

Þreif ísskápinn í gær. Það var þjóðþrifaverk get ég sagt ykkur. Langt síðan ég hef legið á sófanum yfir glæpaþætti jafn samviskulaus og í gær. Svei mér þá ef það var ekki bara auðveldara að koma sér framúr í morgun líka. Ísskápsþrif gera andlegan gæfumun. Mæli með því.

Talandi um glæpi þá var ég að lesa bók um heldri mann í sjálfskipaðri útlegð í sænska skerjagarðinum. Maðurinn atarna átti gamlan hund og gamlan kött. Einn daginn birtist gömul kona úr fortíðinni tifandi yfir snjóinn með göngugrind og var þá bókin bara svona rétt u.þ.b. að byrja. Allan tímann meðan ég las um ferðalag djúpt inní skóg í kulda og snjó, svarta, djúpa, ísilagða tjörn, óvænta dóttur, rauða skó, einhenta konu, vandræðaunglinga, sjálfsvíg, víndrykkju, krabbamein, veislu, póstbát og sjóböð fannst mér eins og Wallander ætti eftir að spretta þarna fram, beið hálft í hvoru eftir honum, sem er kannski pínu skrýtið þar sem hin bókin sem ég hef lesið eftir Mankell er Kínverjinn og sú bók hefur ekkert með Wallander að gera frekar en Ítalskir skór. Má af þessu draga þann lærdóm að sjónvarpssófaglæpagláp smeygir sér ísmeygilega í undirmeðvitundina.

Er annars búin að finna flekkótta svertingjann, eða þ.e.a.s. ég er búin að finna sönnun þess að flekkótti svertinginnn er ekki hugarburður frúarinnar eins og hér má sjá. Nú er bara að finna bókina.