föstudagur, 14. júlí 2017

Áfram höldum við

Litlu mátti muna að ferðataskan okkar hefði orðið eftir í einum rúllustiganum á leiðinni í metróinn í gær. Að þessu sinni var það sá myndarlegi sem lenti í töskuvandæðum. Að sjálfsögðu greiddi hann snöfurmannlega úr því, rykkti töskunni nokkrum sinnum og náði henni af stað (með vott af stressi) án þess að skaða handlegg (sem hélt fast í handfangið) eða tösku. Stóð svo brattur og beinn í baki alla rúllustigaleið og lét sem ekkert hefði hent.

Á Charles de Gaulle flugvelli gekk flest hægt. Ótal flugvallarstarfsmenn skoðuðu vegabréfin okkar og boarding pappírana, fyrst í þessari röð, síðan í hinni og svo við röðina að öryggisröðinni og svo líka við öryggisleitina. Vorum að sjálfsögðu bæði tekin í handahófskennda leit sem blessunarlega gekk vonum framar, engin merki um meðhöndlun sprengiefna á höndum þessara Íslendinga. Í boarding röðinni var sá myndarlegi svo teymdur, ásamt örfáum öðrum, fram að hliði og beðinn um að tjékka handfarangurinn inn í vél, vélin uppbókuð og hætt við að plássleysi yrði í handfarangurshólfunum í vélinni. 

Á de Gaulle sumsé biðum við og biðum og fórum svo í lengsta fluvélarúnt á flugvelli sem við höfum farið í, ágætis rúntur og allt það en þreytandi til lengdar. Í Lyon lenti vélin með harkalegu höggi og samstundis reif flugstjórinn véina upp með látum. Hringsóluðum svo drjúga stund áður en næsta atrenna til lendingar var tekinn. Sú lending gekk öllu betur og þrátt fyrr töluverða seinkun náðum við tengifluginu okkar.

Í Bordeaux tóku Paty og Philippe brosandi á móti okkur. Okkur tóks með ágætum að babbla okkur í gegnum bílferð og kaffidrykkju heima fyrir á ensku og frönsku, PP-parið talar sumsé álíka mikla ensku og við tölum frönsku. Kvöddumst brosandi og margs vísari um heimili þeirra sem við myndarlegi ætlum okkur að dvelja í næstu dagana. Verð þó að viðurkenna að það var átakaminna að vingast við köttinn sem eftir nokkrar strokur var reiðubúin að hoppa uppí kjöltuna á mér og hreiðra þar malandi um sig. D'accord!

Engin ummæli: