haldið þið ekki að eiginmannsónefnan hafi staðið starandi þvílíkum girndaraugum á eiginkonuna að ég bara æpti upp yfir mig og þakkaði Jesús og Maríu mömmu hans fyrir að ekki var sturtuhengi fyrir sturtunni, annars hefði ég klárlega rifið það niður í geðshræringunni sem ég var í.
Við myndarlegi erum annars í sumarfríi í Frakklandi, Bordeaux nánar tiltekið. Skiptum á húsnæði við franska listakonu. Látum okkur líða svo ógurlega vel hér í einbýli á einni hæð með sundlaug í garðinum. Síðustu tvo daga hefur hitinn hlaupið uppí 37 °c og þá kemur sér nú vel að geta slakað á við laugina. Var búin að teygja skanka í sólstól eftir sundsprett þegar róbótinn, sem hreinsar sundlaugina átómatískt, spyrnti við sínum plastfótum og spýtti vatni langt yfir sundlaugarbakkann. Sem betur fer bara við hliðina á mér þar sem ég lá allsnakin að lesa sænskan krimma yfir frönsku rósavíni. Hljóðaði samt upp yfir mig.
Eftir allan hitann hrúguðust dökk ský skyndilega á himininn og sterkur blástur feykti laufum og blómum í laugina. Sá myndarlegi stökk að grillinu enda höfðum við fyrr um daginn keypt dýrindis steikur sem honum var farið að hlakka til að grilla. Er fyrstu droparnir hrundu af himnum heyrði ég þann myndarlega æpa. Ég var rétt búin að breiða yfir sundlaugina og stökk af stað til hans. Það eru engar rifflur á þessu grilli æpti hann móðursýkislega. Getum við nú ekki samt sett kartöflurnar á sagði ég sefandi röddu, svo eru nú steikurnar svo fínar, svona rifflulaust grill slær ekkert á slík gæði. Sá myndarlegi lét sig hafa það og rigningin varð eiginlega engin rigning.
Eftir dýrindiskvöldverð sátum við myndarlegi svo með dýrindis rauðvín í glösum úti við laug og fylgdumst með mögnuðum eldingum og hlustuðum á þrumandi þrumur fram eftir kveldi. Létum okkur hvergi bregða.
1 ummæli:
Þú virðist stressast óskaplega við að fækka fötum :)
Skrifa ummæli