laugardagur, 24. september 2022

Connoisseur

Hálfur mánuður liðinn í París, gerðist í gær. Í tilefni dagsins fór ég í bíó (ÉG af öllum), fyrsta skipti á ævinni sem ég fer ein í bíó. Tók metróinn í fyrsta skipti síðan ég flutti. Kom upp við Sigurbogann, steinsnar frá hótelinu sem ég gisti á þegar ég fór í fyrsta skipti ein til Parísar í fyrrasumar. 

Lost in frenchlation er fyrirtæki sem var stofnað af tveimur vinum sem vildu auðvelda fólki að læra frönsku og njóta franskrar kvikmyndagerðar. Frakkland er eitt af "dubb"löndunum, sumsé talsetur allar kvikmyndir, og því lítil von um að franskar myndir séu textaðar hér. Nema Lost in frenchlation leggur sig fram um að hafa regluleg bíókvöld með frönskum myndum með enskum texta. Myndirnar eru sýndar í litlu, kósí kvikmyndahúsi með þægilegum rauðum sætum, rauðum veggjum og litlum bar. Ef Rumba la vie ratar í kvikmyndahús heima þá mæli ég sannarlega með því að þið farið og sjáið þá innilega fyndnu og einlægu ræmu.

Eftir tveggja vikna dvöl á hóteli er frúin búin að rölta flestar götur í nágrenninu og jafnvel snæða bæði miðdegis- og kvöldverði á flestum brasseríum hverfisins. Ekki laust frá því að ég hafi fundið fyrir þreytu í fótum er ég arkaði af stað, einn eina ferðina, í ætisleit í kvöld. Var eiginlega ákveðin í því að fá mér bara einfalt salat og snúa svo aftur "heim" sem fyrst. Að sjálfsögðu arkaði ég þar til ég sá blikkandi ljós og settist niður á stað sem var heldur fínn fyrir hornstað í hverfinu, mynd af kokkinum og allt á matseðlinum. Pantaði mér steik og kartöflumús og eins og það væri ekki nóg þá fékk ég mér ostaköku í eftirrétt. Staðurinn var "petite" á franska vísu og smekkfullur eftir því, þjónninn á þönum. Reyndar var staðurinn svo lítill að það lá við að ég sæti í kjöltunni á manninum á borðinu fyrir aftan mig. Ef ekki hefði verið fyrir örlitla upphækkun á næsta borð við hliðina á mér hefði ég eins getað setið til borðs með fólkinu sem sat þar; karl og kona (par) og önnur kona til. Sem betur fer var ég með skrifbókina mína í veskinu því samræður og háttalag þeirra þriggja varð til þess að ég skrifað sex blaðsíður í skrifbókina. Þjónninn vinalegi hafði greinilega tekið eftir skrifæði frúarinnar því á hlaupunum leit hann yfir til mín og spurði með bros á vör; hefur staðurinn svona mikil áhrif á sköpunargáfu þína? 

Ef ég væri rithöfundur þá væri ég núna að hefja söguna af þessu fólki á næsta borði við mig, nóg punktaði ég niður og ýmyndaði mér um aðstæður þeirra, fyrra og núverandi líf, hver þau væru, hvernig þau þekktust og allt þar fram eftir öllum götum. En, ég er ekki rithöfundur svo í staðinn blogga ég bara um allt og ekkert og líklegast ekki um neitt. Nema þá helst sjálfa mig.

föstudagur, 16. september 2022

Vikugömul í París

Vika síðan ég flutti til Parísar. Búin að fara í nokkra tíma í skólanum, hitta kennara og samnemendur, fara í siglingu á Signu í boði skólans, senda nokkur póstkort og eitt bréf, borða kvöldmat á mismunandi veitingastöðum, rölta um göturnar og er farin að kannast ágætlega við mig í hverfinu. Engu að síður er ég enn ekki fyllilega búin að átta mig á því að ég er flutt en ekki í enn einu fríi hér í Parísarborg. Ekki ólíklegt með öllu að dvöl á hóteli espi upp frífílinginn í frúnni en líklega síast daglega lífið inn með hverjum deginum sem líður. Þetta kemur allt með kalda vatninu eins og vitur kona sagði eitt sinn við mig.

Búin að hitta og spjalla við flesta af hinum skiptinemunum. Allt flott og frambærilegt ungt fólk, eftir því sem ég best fæ séð, fætt árið 2000 og síðar. Skemmtilegt sjónarhorn; þegar ég fór í fyrsta skipti til útlanda, sem au-pair til Ameríku, var ekkert þeirra fætt. Þegar ég kom aftur heim, óperuári síðar, voru enn 5 ár í að elsta þeirra fæddist. Ekkert þeirra kemur þó fram við mig eins og þann ellismell sem ég er í þeirra hópi, öll eru þau opin, brosmild, skemmtileg og áhugaverð. Ég er eina mannneskjan sem minni sjálfa mig á það að ég er nógu gömul til að geta verið mamma þeirra allra, ég sem veit manna best að aldur er afstæður. C'est la vie.

sunnudagur, 11. september 2022

Talið yður frönsku?

Rúmir tveir sólarhringar síðan ég flutti til Parísar, borgarinnar sem ég hef margoft heimsótt og miklu oftar dreymt um að búa í. Hér hef ég ófá póstkort skrifað og sent og þrátt fyrir að þessi ferð sé frábrugðin að því leyti að vera flutningur en ekki frí þá er ég að sjálfsögðu þegar búin að skrifa nokkur póstkort. 

Vippaði mér inn í Tabac til að kaupa frímerki og spurði afgreiðslumanninn á nokkuð góðri frönsku "parlez-vous francais? Jú, auðvita ætlaði ég að spyrja manninn hvort hann talaði ensku, en ekki frönsku, en í kjölfarið af þessu fórum við bæði að skellihlægja og áttum skemmtilegt samtal um frímerki, hvaðan ég er og frönsku kunnáttu mína, svo eitthvað sé nefnt, á frönsku!

Hver hefur svo sem ekki lent í því í útlöndum að vippa sér inn í búð og spyrja heimamanninn á bak við afgreiðsluborðið að því hvort hann tali sitt eigið tungumál? Ég bara spyr!

föstudagur, 26. ágúst 2022

Örsaga af sögu

Einn kafli eftir og mig langar ekki til að klára. Búin að fara fram úr og opna út á verönd, klappa Bjössa sem liggur makindalega á bleikum sófa, fá mér kaffi og ristað brauð með eggi og agúrku. Önnur aðalsöguhetjan er látin, sem hlýtur að flokkast sem ákveðinn endanleiki, samt vil ég ekki að bókin endi. Dásamleg saga sem hreyfir við frúnni með húmor og sorg, togstreitum lífsins, hef hlegið dátt og tárast og nú eru 12 bls eftir. Einn kafli. Endir.

Er nýlega hætt að ganga að skenknum til að sækja eða ganga frá einhverju, skenkurinn prýðir nú heimili ungra hjóna í Kópavogi. Frammi í stofu blasa vínilhillurnar tómar við mér. Það gleður mig mikið að hugsa til þess að systir mín eigi eftir að spila eyrað af mági mínum með plötusafninu, sem hefur fylgt mér um áratugi, en það er óneitanlega spes að hafa ekki eina einustu plötu í íbúðinni. Tómu naglarnir undan málverkunum plaga mig síður, helst þessi í svefnherberginu sem starir tómeygur á móti þegar ég vakna.

Sögur. Kaflaskil. Endir en líka upphaf.

miðvikudagur, 3. ágúst 2022

Skjálftaglóð

Hér í efri byggðum Reykjavíkurborgar hefur frúin ekki fundið fyrir einum einasta jarðskjálfta. Nei, ekki svo mikið sem lélegum titring í lítilli tá. Það þýðir þó ekki að líf frúarinnar sé með öllu hreyfingalaust, aldeilis ekki. Skjálftarnir hið innra hafa skekið frúna allt frá því hún sagði skilið við mann sem hún þá elskaði enn, gekkst við illkynja krabbameini og tókst á við lyfjameðferð, hóf háskólanám og sagði upp áratugalöngu starfi. Tilfinningasveiflur, skynjanir og hræringar á jarðskjálftakvörðum mannveru.

Nú er farið að gjósa og skyldi engan undra, frúin ber jú eldfjallanafn með rentu. Enda hefur hún leyft sér að dreyma og þora að ekki bara dreyma heldur ætlar hún sér einnig að láta drauma rætast. Skrefin eru misstór og misþung og á stundum hefur frúin stigið heldur varlega til jarðar og tekið sér langan umhugsunarfrest. Það er ekki alltaf einfalt að synda á móti straumnum og oftar en ekki er stærsta hindrunin enginn önnur en kona sjálf. Því hefur frúin nú ákveðið að stinga sér til sunds og láta reyna á sundgetuna. 

Ekki seinna vænna, fyrstu lesgleraugun eru komin í hús 
Það koma nefninlega tímar í lífi konu þar sem þarf að stíga stóru skrefin. 

Nú legg ég aldeilis ekki meira á ykkur hlustendur góðir, nóg er víst komið af skjálftavaktinni.

þriðjudagur, 19. júlí 2022

DS

Rétt í því sem ég dembdi matskeið af hveiti út í pottinn til að þykkja sósuna birtist í hugarfylgsni mínu mynd af mömmu að hrista hveiti saman við vatn áður en hún dembdi því í pottinn til þykkingar. Jújú, það urðu kekkir til hjá mér, mikil ósköp. 

Brá mér undir sturtuna eftir að hafa grýtt eldfasta mótinu í ofninn. Hallaði höfðinu aftur undir heita bununa og nuddaði á mér augun. Grátsviðinn sem ég fékk í augun við nuddið var vel 3ja lauka niðurskurðar virði.

Skrapp í vikuferðalag á gamlar óperuslóðir. Gamli kærastinn minn frá Amríku fór með mig á staðinn þar sem við kynntumst, skemmtistaðinn sem við sóttum, barinn sem við drukkum oft á, hann sýndi mér húsið sem ég bjó í og húsið sem hann bjó í, fór með mig að hitta vini sem mundu enn eftir mér. Tuttugu og sex árum síðar mundi ég ekki neitt eftir neinu. Allt var mér ókunnuglegt, líka fólkið sem sagðist vera ánægt að hitta mig aftur eftir allann þennan tíma. Fórum á ströndina, í magnaðann styttugarð, á sædýrasafn, í frægann garð þar sem fræg orrusta við Breta átti sér stað, sáum páfuglsunga og fórum í lautarferð, svo eitthvað sé nefnt. Eins gott að ég mundi eftir honum, gamla kærastanum. Hefði annars líklega orðið frekar vandræðaleg stund þegar hann sótti mig á flugvöllinn.

Heimkomin skellti frúin sér í markvissa tiltekt er hún dró fram Gestgjafablöðin, fletti hverju einu og einasta vitandi fyrir víst að þau væru á leið í Sorpu. Á öðrum degi Gestgjafaflettinga tókst henni að dúndra vinstri fæti (óvart) í hraukinn með þeim afleiðingum að hún datt fram fyrir sig og skartar nú mörðum tám og ökkla (jú, þetta var í alvöru óvart!). Þrátt fyrir að hafa ekki flett Gestgjafablaði, og því síður eldað upúr því, í marga mánuði er ótrúlega erfitt að losa sig við þau. Prísa mig sæla að þau eru þó komin af eldhúsborðinu í ruslatunnuna. Nú er bara eftir að henda þeim fyrir alvöru.

Legg ekki meira á ykkur að sinni, elskurnar.

þriðjudagur, 21. júní 2022

Enn míga himnarnir

og hvorki köttum né kerlingu út sigað hefði ekki verið fyrir læknatímann. Dýralæknatímann. Prísaði mig sæla fyrir að hafa loks látið verða af því að kaupa kattabúr undir kettina, vissi að það væri komið að árlegri skoðun og kunni hvorki við að ræsa út aðra mannveru til að halda á öðrum kettinum eða að mæta með systkynin í gömlu eighties ferðatöskunni minni. Nýja búrið minnir reyndar um margt á tösku en kettirnir sjá þó í það minnsta út um net á hliðum og toppi.

Eftir vel ríflega áratuga hollustu við sömu dýralæknastofuna ákvað ég að færa mig (eða ætti ég frekar að segja kettina?) nær heimabyggð. Rogaðist með samtals 11 kg. af kattartvennu og komst að því að gamli staðurinn var ekki búinn að senda skýrslur kattana á nýja staðinn. Ekki að það kæmi að sök, systkynin voru þukluð og hlustuð og sprautuð og gefin ormapilla, þ.e.a.s. Bjössa var gefin pilla, Birta sat við sinn þrjóskukeip og dýralæknirinn á nýja staðnum gerði það sama og dýralæknirinn á gamla staðnum; gafst upp og gaf henni sprautu.

Í dag komst ég að því að örmerki geta færst til í dýrum og til eru tilfelli þar sem örmerki hreinlega hverfa úr einstaka skepnum. Ekki algengt en þó þekkt sagði dýralæknirinn þar sem hún strauk Bjössa með örmerkjalesaranum hátt og lágt. Sótti annann lesara og hélt áfram að "nudda" Bjössa sem virtist njóta þess að fá strokurnar. Þegar ekkert fannst í Birtu heldur sóti hún annan dýralækni til að leita til öryggis líka. Það er afar ólíklegt að tveir kettir, örmerktir sama daginn, týni báðir örmerkjunum sem búið er að koma undir húðina á þeim. Engu að síður er örmerkjun skráð frá 2019 og ég sannarlega greiddi fyrir hana á sínum tíma. Konan sem tók á móti mér á gamla staðnum viðurkenndi að þetta væri jú skrýtið en hún væri nú bara í afgreiðslunni og eigandinn yrði að svara fyrir þetta. Eigandinn er svo að sjálfsögðu staddur erlendis en hún lofaði mér því að hún myndi hringja í mig í næstu viku.

Kettirnir mínir, sem skv. öllum líkindareikningum voru aldrei örmerktir þarna um árið, verða því bara að halda áfram að dóla sér óörmerktir hér í efri byggðum. Nema hann haldi áfram að rigna. Vonandi ekki þó. Sjálf get ég látið mér hlakka til símtals í næstu viku. Eða ekki. Kemur í ljós.