fimmtudagur, 22. ágúst 2024

Bróðir minn fæddist gamall.

Þrátt fyrir það er hann ári yngri en ég. Þegar við vorum krakkar harðneitaði hann að fara í gallabuxur, vildi eingöngu klæðast terlinbuxum. Þegar við nálguðumst unglingsaldurinn fékst hann loks í gallabuxur en klæddist iðulega köflóttum skyrtum og var með blátt kaskeiti á hausnum.

Bróðir minn skautaði að mestu framhjá popptónlist og valhoppaði beint í klassíska tóna. Enn í dag hefur hann unun af óperum. Það vita ekki allir að lögfræðingurinn, bróðir minn, lagði stund á óperusöng í Söngskólanum í Reykjavík og útskrifaðist þaðan eftir fullt nám áður en hann hóf sína lögfræðileið. Á þeim árum sá hann að auki alfarið um klassísku deildina, sem var á efri hæðinni og töluvert stór, í Skífunni á Laugavegi (fyrir þá sem muna þá tíð).

Bróðir minn hefur alla tíð haft áhuga á sögu, hann hefur unun af lestri góðra bókmennta og ljóða og hefur þess utan einhverskonar límheila, hann virðist allavega muna heljarins ósköp um allt og ekki neitt um sögulegar staðreyndir, sögur sem honum hafa verið sagðar eða sögur sem hann hefur lesið. 

Þegar við vorum krakkar leit hann upp til Vigdísar Finnbogadóttur og Jóns forseta. Því þykir mér við hæfi að birta þessa fínu mynd af bróður mínum að skála við forsetann, sem var aldrei forseti, á afmælisdegi litla bróður míns.

miðvikudagur, 21. ágúst 2024

Montmartre, Marais et Molitor

Í þorpinu uppi á hæðinni þræddum við þröngar göturnar, sáum síðustu myllu Parísarþorps, bleikt hús, styttu á leið út úr vegg, húsið þar sem Dalida bjó, kirkju hins heilaga hjarta, hús hershöfðingja úr her Napóleons og ástarvegginn. Spaðarnir á Rauðu Myllunni hreyfðust ekki. Fórum á Dalí safnið, heilsuðum upp á Valerie vinkonu mína í búðinni hennar. Stóðum á hótelsvölunum og mændum á húsþök Parísar og fylgdumst með turninum blikka á heila tímanum.

Í Mýrinni þræddum við göturnar, kíktum í vintage verslanir og duttum niður á vel lyktandi sápubúð. Fórum í Atelier des Lumiéres og létum heillast af tónlist og list. Fórum á Pompidousafnið og heilluðumst af sköpunargáfu og nútíma list. Vinguðumst við þjóninn á Líbanska staðnum við hliðina á útidyrahurðinni að íbúðinni sem við leigðum. Fengum Dylan hárgreiðslumeistara heim til að klippa okkur stöllurnar, drukkum bjór og kjöftuðum frá okkur allt vit. Gerðum okkur ferð í garðinn hans Monet, hans mesta meistaraverk.

Á rue Molitor gistum við á hótelinu við hliðina á húsinu sem ég bjó í. Drukkum kampavín í hótelgarðinum sem ég hafði svo oft mænt á frá svölunum á því rúmlega ári sem ég bjó þar ytra. Löbbuðum að búðunum sem ég var vön að fara í, göturnar sem ég þekki enn svo vel. Örkuðum yfir brúnna í átt að 15. hverfi og stöldruðum við til að virða fyrir okkur turninn og styttuna. Skoðuðum "gamla" skólann minn. Tókum lestina yfir í Latínuhverfið þar sem við skoðuðum gömul hús, stórfenglegann gosbrunn, Notre Dame, drukkum bjór og átum saltflögur í garðinum við miðaldasafnið. Fórum á djasstónleika um kvöldið. Gerðum okkur ferð að uppáhalds torginu mínu í París. Tókum metróinn að Sigurboganum og örkuðum svo alla leið niður að Louvre safninu.

Eftir ríflega 25 ára vinskap ákváðum við stöllurnar sumsé að tími væri til kominn að leggja land undir fót saman. París sveik ekki frekar en fyrri daginn, önnur sjóaðri á götum borgarinnar meðan hin hafði ekki komið síðan á níunda áratugnum. Báðar nutum við þess að drekka í okkur afslappað andrúmsloftið, dreypa á guðaveigum og belgja okkur út af dýrindismat og list og blómum og og og ..... veislan hófst strax í flughöfninni með smurbrauði Jómfrúar


Í ágúst haustlægðinni þarf engann að undra þó hugur frúarinnar fljóti til Parísar. Ó nei og nú legg ég aldeilis ekki meira á ykkur.

þriðjudagur, 16. júlí 2024

Ef ég hefði ekki rifið mig upp af rassgatinu,

með valdi, s.l. sunnudag hefði mér tekist að eyða heilli helgi á náttfötunum án þess að svo mikið sem stinga nefbroddinum út fyrir hússins dyr. Súrefnisskortssljóleiki og rigningardepurð tókst þó að æra upp eirðarleysi og hálf máttvana geð frúarinnar emjaði veikum rómi: stattu upp....farðu út.... 

Gekk þokkalega hnarreist út í rokið, í bleika regnjakkanum, með það að markmiði að koma tveimur póstkortum í póstkassa; annað ætlað pennavinkonu í Tongeren, hitt ætlað elskulegu hjónunum sem leigðu mér íbúðina í París. Póstkassann fann ég við Vínberið á Laugaveginum. Fyrst ég var komin þangað ákvað ég að labba niður á torg. Þangað komin stakk ég mér inn á Hressingaskálann og fékk mér hressingu. Því næst arkað ég beina leið aftur heim og fór lóðbeint aftur í náttfötin. Datt ekki svo mikið sem dropi úr lofti meðan á þessum göngugjörningi stóð.

Í gær lét svo sumarið sjá sig. Í heilann dag. Vinnudag að sjálfsögðu, slíkt gerist ekki bara sisvona um helgi. Hefði ég haft einhver plön eftir vinnu hefðu þau farið forgörðum. Sat með vinkonu minni í garðinum hennar langt fram á kvöld. Færðum stólana aftar og aftar eftir því sem sólin hreyfðist, báðar staðráðnar í að láta þetta sumar endast eins langt og það næði. Sötruðum bjór og átum snakk. Spjölluðum og hlógum. Dæstum af uppblásinni sólargleði. Hvílíkur sæla. 

Um leið og sólin var gengin til viðar kom kuldinn askvaðandi og tók sér skellihlæjandi stöðu í kroppnum. Við vinkonurnar buðum hvor annari góða nótt. Eins og dagbókin frá Múlalundi bendir mér svo réttilega á í dag: "Njóttu lífsins í dag, en þannig, að þú getir líka notið lífsins á morgun."

föstudagur, 12. júlí 2024

SHAUMUSART *

Vaknaði í myrkri og var dálitla stund að átta mig á að það væri raunverulega kominn morgunn. Eftir að hafa fullvissað mig um að ég hefði ekki sofið af mér sumarið renndi ég bleika regnjakkanum upp í háls og arkaði út í veðrið. Í vinnunni tók broshýrt og glaðlegt andlit stúlkunnar í móttökunni á móti mér. Skokkaði vindbarin og niðurrignd upp tröppurnar á mína hæð. Tók strax eftir því að eitthvað var ekki eins og það átti að vera. Myrkur og þögn mættu mér. Áþreifanleg þögn og áþreifanlegt myrkur. Þreifaði mig eftir ganginum og rambaði á ljósrofa sem kveikti á týru eftir endilöngum skrifstofuganginum. Komst klakklaust inn á skrifstofuna mína þar sem haustgráminn mætti mér á miðju sumri. Í eldhúskróknum stóð kaffikannan tóm. Það var þá sem ég áttaði mig á því að ég var mætt fyrst allra í vinnuna. Í fyrsta skipti.

Auðvitað er ég að ýkja þetta með myrkrið. Á skrifstofuganginum þ.e.a.s. Haustgráminn þarna úti er ekkert djók. Hvort sumarið er að grínast er ekki víst en mitt í rigningarþunglyndi um daginn ákvað ég að biðja um frí þrátt fyrir að vera glæný á vinnustaðnum. Sem betur fer, niðurtalning í Parísarferð herðir hugann í vindbarningnum og gerir rigningasporin léttari. Ekkert að vinnunni samt, hún er þrælskemmtileg og samstarfsfélagarnir að auki, það er bara þetta snemmbúna haust á miðju sumri, þið skiljið. Er það ekki annars?

*Titill þessa bloggs er samsuða af orðunum SUMAR og HAUST

sunnudagur, 23. júní 2024

Vaknaði fyrir allar aldir í morgun.

Þegar ég segi fyrir allar aldir þá á ég við að ég hellti upp á kaffið fyrir sjö. Áður en ég hellti upp á kaffið var ég búin að klára bókina sem ég var að lesa og vaska upp frá kvöldinu áður sem ég nennti ekki að gera áður en ég fór að sofa í gær. Sveigja í trjágreinum, gulur og rauður dans blóma, grænt regnvott grasið, fuglasöngur og regndropatif. Kyrrlátt og fallegt. Hefði samt viljað sofa lengur. 

Þrátt fyrir að vera komin með nefið á kaf í aðra bók reif ég mig á lappir og í leppa. Arkaði í galíslensku sumarveðri úr Norðurmýri í Laugardalinn. Dettur ekki til hugar að skrifa það upphátt hvenær ég fór síðast í sund en þar sem ég stóð í sturtunni í Laugardalslauginni, og var við það að klæða mig í sundbolinn, tók ég eftir hvað hann var orðinn togaður og teygður, gegnsær á ýmsum stöðum jafnvel. Ákvað þó að skella mér í hann enda gegnsæið ekki á neinum velsæmismörkum, rétt svona á hliðunum.

Mér hefur alltaf þótt gott að synda, sér í lagi í rigningu. Nýt þess að kljúfa vatnið í sundtökum og heyra regndropa sameinast klórvatninu í lauginni. Tæmi hugann. Synti í 20 mínútur. Þegar ég hífði mig upp stigann úr lauginni tók ég eftir því að hálft hægra brjóstið sperrti sig út úr sundbolnum. Á ekki von á því að fara neitt í sund á næstunni.

Ástæðan er þó ekki spéhræðsla enda þjáist ég ekkert sérstaklega af henni. Ástæðan eru aukaverkanir af lyfjameðferðinni. Það er ekkert sérlega heillandi að svamla um í sundlaug og finna doða og stingi í höndum og fótum né að arka heim á stirðum fótum og sársaukastingjum í hverju skrefi.  

Heim komin henti ég sundbolnum og nú legg ég aldeilis ekki meira á ykkur. Að sinni.

laugardagur, 22. júní 2024

Vofveiflegur ótti

Þegar ég var lítil stelpa var ég logandi hrædd við manninn hennar Sirrýjar. Eins og ég man þetta þá var hann á háum hælum, í hvítum kjól, með rauða hárkollu og dró á eftir sér sleggju. Hann var vofan sem drap fólk í Sjónvarpshúsinu á Laugavegi.

Mörgum, mörgum árum síðar þegar ég var orðin ráðsett frú á fertugsaldri rákumst ég og þáverandi maðurinn minn á Sirrý og manninn hennar á flugvelli úti í heimi. Þá þekkti ég Sirrý ekki neitt en hins vegar þekktust þau og minn fyrrverandi. Eins og ég man þetta þá var Sirrý upptekin af að fylgjast með töskubandinu en maðurinn minn og maðurinn hennar tóku spjall saman. Þá komst ég því að "rauðhærða vofan" virtist vera frekar næs gaur.

Þegar ég svo síðar skildi við manninn minn og keypti mér íbúð þá var það maðurinn hennar Sirrýjar sem seldi mér tryggingar. Í gærkveldi stóð ég svo í garðinum heima hjá þeim og hélt lítinn ræðustúf sem hófst á þessari sögu.

Rétt rúmu ári eftir að ég skildi hóf ég nám við Háskólann á Bifröst og varð þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast Sirrý sjálfri. Á Bifröst hefur hún það vandasama verkefni að kenna nemendum skólans örugga tjáningu, verkefni sem hún leysir löðurmannlega af hendi með gleði, röggsemi og einstakri hlýju. Í garðinum í gær var ég umvafin samnemendum sem flest, ef ekki öll, eru aftur komin í áfanga til Sirrýjar því þar er gott að vera. Það er langt í frá stresslaust að stíga fram og biðja um orðið, jafnvel ekki með öllu óttalaust að tjá sig af öryggi, líka í hópi kunningja og vina. Í gær var ég þakklát að standa frammi fyrir frábærum samnemendum mínum sem ég er lánsöm að hafa fengið að kynnast er við fetum saman skrefið í átt að öruggri tjáningu með skoðanaskiptum, hlustun, ræðuhaldi, ræðukeppni, spuna og einlægum samræðum. 

Í hvert skipti sem við horfumst í augu við okkar eigin ótta, og tökumst á við hann eftir bestu getu, styrkjumst við. Oft á tíðum er óttinn líka óþarfur, tilbúningur í okkar eigin hugsunum og ranghugmyndum um eigið sjálf. Í gær komst ég t.d. að því að Kristján Franklín er hörku leikari og engin ástæða til að óttast hann neitt frekar, af honum skín ekkert nema góðmennska og einlægni

Katla og Kristján

Ég ætla samt alveg að láta það eiga sig að horfa á Drauga Sögu aftur, jafnvel þó að það verði bráðum 40 ár síðan ég sá hana síðast.

mánudagur, 3. júní 2024

Hver er ég?

"Ég heiti Katla. Ég er 49 ára gömul, ógift, barnlaus og byrjaði í nýju starfi í morgun. Þetta eru staðreyndir um líf mitt akkúrat þessa stundina. Ég er bókhneigð, tilfinningarík, uprreisnar- og ævintýragjörn. Ég hef oft og ítrekað fundið fyrir þrýstingi frá fjölskyldu, vinum og samfélaginu um hvernig ég eigi að haga mínu lífi og hvaða kökuform ég eigi að troða mér í. Það sem er svo skemmtilegt við að læra af því að lifa er að öðlast þor til þess að vera maður sjálfur og stjórna eigin för. Mitt svar við spurningunni hver er ég? er einfalt, ég er hver sú sem ég kýs að vera hverju sinni eins og mér einni hentar. Takk fyrir."

Fyrir þennan óundirbúna og uppdiktaða ræðustúf á staðnum í Masterklasstíma í kvöld áskotnuðust mér skemmtileg verðlaun sem var ekki hvað síst ánægjulegt fyrir þær sakir að ég var ekki búin að átta mig á því að tveir nemendur voru í dómarastellingum og að verðlaun væru í boði. Hnitmiðað og snarpt, fumlaus og öruggur flutningur held ég svei mér þá að hafi verið taldir kostir þessa búts og nú legg ég hreint ekki meira á ykkur hlustendur góðir. Takk fyrir.