þriðjudagur, 16. júlí 2024

Ef ég hefði ekki rifið mig upp af rassgatinu,

með valdi, s.l. sunnudag hefði mér tekist að eyða heilli helgi á náttfötunum án þess að svo mikið sem stinga nefbroddinum út fyrir hússins dyr. Súrefnisskortssljóleiki og rigningardepurð tókst þó að æra upp eirðarleysi og hálf máttvana geð frúarinnar emjaði veikum rómi: stattu upp....farðu út.... 

Gekk þokkalega hnarreist út í rokið, í bleika regnjakkanum, með það að markmiði að koma tveimur póstkortum í póstkassa; annað ætlað pennavinkonu í Tongeren, hitt ætlað elskulegu hjónunum sem leigðu mér íbúðina í París. Póstkassann fann ég við Vínberið á Laugaveginum. Fyrst ég var komin þangað ákvað ég að labba niður á torg. Þangað komin stakk ég mér inn á Hressingaskálann og fékk mér hressingu. Því næst arkað ég beina leið aftur heim og fór lóðbeint aftur í náttfötin. Datt ekki svo mikið sem dropi úr lofti meðan á þessum göngugjörningi stóð.

Í gær lét svo sumarið sjá sig. Í heilann dag. Vinnudag að sjálfsögðu, slíkt gerist ekki bara sisvona um helgi. Hefði ég haft einhver plön eftir vinnu hefðu þau farið forgörðum. Sat með vinkonu minni í garðinum hennar langt fram á kvöld. Færðum stólana aftar og aftar eftir því sem sólin hreyfðist, báðar staðráðnar í að láta þetta sumar endast eins langt og það næði. Sötruðum bjór og átum snakk. Spjölluðum og hlógum. Dæstum af uppblásinni sólargleði. Hvílíkur sæla. 

Um leið og sólin var gengin til viðar kom kuldinn askvaðandi og tók sér skellihlæjandi stöðu í kroppnum. Við vinkonurnar buðum hvor annari góða nótt. Eins og dagbókin frá Múlalundi bendir mér svo réttilega á í dag: "Njóttu lífsins í dag, en þannig, að þú getir líka notið lífsins á morgun."

Engin ummæli: