föstudagur, 12. júlí 2024

SHAUMUSART *

Vaknaði í myrkri og var dálitla stund að átta mig á að það væri raunverulega kominn morgunn. Eftir að hafa fullvissað mig um að ég hefði ekki sofið af mér sumarið renndi ég bleika regnjakkanum upp í háls og arkaði út í veðrið. Í vinnunni tók broshýrt og glaðlegt andlit stúlkunnar í móttökunni á móti mér. Skokkaði vindbarin og niðurrignd upp tröppurnar á mína hæð. Tók strax eftir því að eitthvað var ekki eins og það átti að vera. Myrkur og þögn mættu mér. Áþreifanleg þögn og áþreifanlegt myrkur. Þreifaði mig eftir ganginum og rambaði á ljósrofa sem kveikti á týru eftir endilöngum skrifstofuganginum. Komst klakklaust inn á skrifstofuna mína þar sem haustgráminn mætti mér á miðju sumri. Í eldhúskróknum stóð kaffikannan tóm. Það var þá sem ég áttaði mig á því að ég var mætt fyrst allra í vinnuna. Í fyrsta skipti.

Auðvitað er ég að ýkja þetta með myrkrið. Á skrifstofuganginum þ.e.a.s. Haustgráminn þarna úti er ekkert djók. Hvort sumarið er að grínast er ekki víst en mitt í rigningarþunglyndi um daginn ákvað ég að biðja um frí þrátt fyrir að vera glæný á vinnustaðnum. Sem betur fer, niðurtalning í Parísarferð herðir hugann í vindbarningnum og gerir rigningasporin léttari. Ekkert að vinnunni samt, hún er þrælskemmtileg og samstarfsfélagarnir að auki, það er bara þetta snemmbúna haust á miðju sumri, þið skiljið. Er það ekki annars?

*Titill þessa bloggs er samsuða af orðunum SUMAR og HAUST

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

<3