þriðjudagur, 31. október 2017

Appelsínugult og grænt

Síðasti dagur októbermánaðar var blautur og grár en mildur. Á degi sem þessum skar kona niður graskersrest, pipraði og saltaði og lét malla í ólafíuolíu í ofni. Tók góðan hálftíma að verða mjúkt. Var búin að skola spínat sem ég lagði á disk, graskersbitar örlítið kældir lagðir ofan á spínatið. Keypti geitaost í Melabúðinni sem ég krumplaði og kleip yfir spínatið og graskerið. Hrærði ólafíuolíu og balsamediki saman og drippaði yfir þrennuna. Þurrsteikti sólblómafræ á pönnu og dreifði í óreglulegri óreiðu yfir. Á meðan á öllu þessu stóð hlustaði ég á Rhye og dreypti á hvítvíni. Feðgar tveir biðu svangir. Útkoman bærileg ef ekki bara harla góð 
 Er ekki annars rosalega langt síðan ég hef bloggað um mat?

föstudagur, 20. október 2017

Ég líka - höfum hátt!

Fyrir sautján árum vann ég í stórri verslun hér í Reykjavík, var svo kallaður svæðisstjóri yfir nokkrum deildum og hafði deildarstjóra yfir mér, einhleypur náungi, nokkrum árum eldri en ég. Þessari vinnu fylgdi mikið álag og ég var iðulega á öðru hundraðinu, var kannski að raða leikfangakössum uppí hillu þegar ég var kitluð, raða skókössum inná lager þegar ég var klipin, af deildarstjóranum. Yfirmaður minn var óþreytandi við klíp og kitl og dónalegar athugasemdir. Sem dæmi kallaði hann mig eitt sinn uppá skrifstofu, er ég kom þangað lokaði hann hurðinni, slökkti ljósið, settist í skrifstofustólinn og renndi honum upp að mér og sagði; dansaðu fyrir mig í tón sem átti kannski að vera seiðandi en mér fannst ógeðfelldur. Eftir að hafa neitað og beðið hann að hætta þessu, sem engu skilaði, ætlaði ég að rjúka á dyr. Þá spratt hann upp úr stólnum og stöðvaði mig með þeim orðum að láta ekki svona, hann væri nú bara að grínast. Mér fannst þetta ekki fyndið og þykir ekki enn. Á einum tímapunkti þar sem hann kom aftan að mér og kleip mig fauk svo í mig að ég ýtti honum harkalega frá mér og hvæsti að honum hvað hann hefði hugsað sér að gera einn daginn þegar ég ætti eftir að slá hann utan undir fyrir framan alla viðskiptavinina? Ætli ég verði ekki bara að taka því svaraði hann glottandi. Eftir þessa senu komu þó nokkrar samstarfskonur mínar til mín og höfðu orð á því hvað þeim þætti ömurlegt að horfa uppá hvernig hann hagaði sér gagnvart mér. Áreitnin var nefninlega fyrir allra augum en fram að þessum tímapunkti hafði engin haft orð á henni. Eitthvert skiptið var ég svo stödd í miðbæ Reykjavíkur að djamma með vinkonu minni. Þetta var  þegar staðirnir lokuðu allir kl. 03:00 og fólk safnaðist saman í Austurstræti og nálægum götum. Þar var ég sumsé stödd þegar deildarstjórinn kemur upp að mér og fer að "tala" við mig; hæ sæta, kemuru heim með mér í kvöld og þar fram eftir. Þegar vinkona mín áttaði sig á hver hann væri (og já, ég var búin að segja henni sólarsöguna) þá gjörsamlega missti hún sig, hún jós skömmum yfir hann á sínu hæsta c-éi. Deildarstjórinn lét sig hverfa. Á mánudeginum lét hann svo eins og ég væri ekki til, yrti ekki á mig, labbaði framhjá mér með fýluna lekandi á eftir sér, hagaði sér eins og ég hefði gert á hans hlut. Ég var fljót að taka það inná mig og var gjörsamlega miður mín yfir því að vinkona mín hefði ekki haldið sig á mottunni. Svo miður mín var ég að félagi minn, sem vann á tölvudeildinni, sá hvað mér leið illa og vildi vita hverju sætti. Eftir að hafa sagt honum sólarsöguna vildi hann fara með málið alla leið til framkvæmdastjóra. Einhverjum dögum seinna er ég svo kölluð upp til þess stjóra sem vildi fá að heyra mína sögu, sagði mér að honum þætti voðalega leitt að heyra þetta en deildarstjórinn minn væri jú ungur maður, sagði að hann gæti alveg talað við hann ef ég vildi en stakk uppá að við myndum aðeins hinkra og sjá hvort þetta jafnaði sig ekki bara.

Á þessum sama stað vann maður eitthvað yngri en foreldrar mínir. Afskaplega þægilegur og glaðlegur náungi. Á hverjum morgni þegar ég mætti tók hann á móti mér með brosi. Á einhverjum tímapunkti fór hann að taka á móti mér með faðmlagi. Mér fannst það svo sem í lagi, er sjálf óspör á faðmlög við fólk sem mér þykir vænt um. Fljótlega eftir að faðmlögin hófust sagði ég upp í vinnunni og fór svo að gera annað eftir að uppsagnarfresti sleppti. Eftir að ég hætti störfum þarna fór maðurinn að hringja í mig í gsm-inn minn, sem á þeim tíma var nokkuð nýr á nálinni og svona, rétt notaður fyrir símtöl og mikið sport að geta sent sms og talað inn á talhólf. Fljótlega fór maðurinn að hringja of oft að mér fannst, hann var sífellt að biðja mig að koma og hitta hann t.d. á kaffihúsi, fara með honum út að borða, koma með honum í sumarbústað yfir helgi. Ég neitaði öllum slíkum beiðnum og á endanum bað ég hann um að hætta að hringja í mig. Eftir það fór allt úr böndunum. Maðurinn hringdi í mig ca. 30 sinnum á dag, talaði inná talhólfið mitt í ca. helming af þeim skiptum sem hann hringdi og sendi mér líklega 20 sms daglega. Eftir örmagna tilraunir þar sem ég bað hann að hætta, láta mig í friði, var ég hætt að svara honum. Vinir mínir og fjölskylda voru farin að spyrja mig hvað væri eiginlega í gangi þar sem síminn minn var síhringjandi og sípípandi. Ég fór að hafa símann minn á silent, alltaf. Í síðasta skiptið sem ég svaraði hótaði ég honum því að ég myndi fara til lögreglunnar ef hann hætti ekki að ofsækja mig. Það virkaði ekki. Ég hinsvegar fékk mér leyninúmer og var með slíkt í mörg ár á eftir. 

Tíu árum síðar (eða svo) vann ég á skrifstofu. Eitt sinn bauð eigandi fyrirtækisins mér í svona fyrirtækjagill á hóteli hér í bæ, matur og vín og gleði og gaman. Undir lok gleðinnar kemur eigandinn til mín og býður mér uppá herbergi (á hótelinu, þar sem hann gisti) og segir að þar ætli nokkrir vinir að koma saman og fá sér einn lokadrykk. Ég slæ til og fer með honum uppá herbergi. Þigg drykk og við spjöllum í einhverja stund. Nema þegar eigandinn fer að hrósa mér fyrir hvað ég líti glæsilega út og segir mér að hann sé soldið skotinn í mér og að honum langi til að ég gisti hjá honum þarna á hótelherberginu um nóttina þá átta ég mig á því að það er líklega ekki von á fleiri gestum en mér. Í stað þess að segja þvert nei minni ég hann á að ég eigi mann (sem hann hafði nokkrum sinnum hitt) og hann eigi nú von á að ég komi heim um nóttina. Eigandanum fannst það allt í góðu, ég á líka konu sagði hann, þú verður heldur ekkert að gista en mig langar að sofa hjá þér. Mér leist ekki á blikuna og stend upp til að kveðja. Um leið rís hann á fætur, tekur í hönd mína, þrýstir sér að mér og kyssir mig á munninn, reynir að troða tungunni uppí mig. Ég hörfa, slít mig frá honum og segi að ég verði að drífa mig heim. Eigandinn fylgir mér að lyftunni og reynir að fá mig til að skipta um skoðun. Ég vil ekki skipta um skoðun, ég vil bara komast heim. Eftir þetta fer eigandinn að vera meira kammó við mig, gerir sér far um að spjalla í vinnunni, sest gjarnan í stól á móti skrifborðinu mínu þegar ég var ein á skrifstofunni og biður mig um að hitta sig, koma með sér út að borða, á kaffihús, út í hádegisverð. Situr á móti mér, með skrifborð á milli okkar, og segir mér hvað honum þyki ég falleg og kynþokkafull. Þrátt fyrir ítrekaðar neitanir neitar hann að gefast upp. Það geri ég hinsvegar og ákveð að segja mínum yfirmanni frá sem eftir það gerði sitt besta til að ég væri aldrei ein með eigandanum á vinnustaðnum.

Snemma á árinu brá mér heldur í brún er ég svaraði símanum í vinnunni. Þrátt fyrir að hafa ekki heyrt röddina í næstum sautján ár þekkti ég hann strax í gegnum símann. Ég var stutt í spuna og gaf símtalið áleiðis, lærði númerið utan að og svaraði ekki þegar ég sá að viðkomandi var að hringja. Síðar brá mér enn frekar þegar maðurinn, sem hafði ofsótt mig með símhringingum fyrir sautján árum, var mættur uppá skrifstofu. Erindi hans var vinnutengt. Sem fyrr virkaði hann afskaplega þægilegur og glaðlegur, kjaftaði á honum hver tuska enda vel tekið að Melabræðra vanda. Ég hinsvegar sat á mínum stól kengbeygð í sálinni. Sannast sagna var ég hálf hissa á hversu nærvera hans hafði mikil áhrif á mig en öllum þessum árum síðar fann ég að ég gat ekki þolað hann, allar reiðu tilfinningarnar og þær smeyku líka skutust fram. Örfáum dögum síðar var hann aftur mættur uppá skrifstofu. Aftur lét ég sem hann væri ekki þarna, eða öllu heldur lét ég sem ég væri ekki þarna, tók ekki þátt í neinum samræðum og svaraði heldur engu. Ég vissi að ég gæti ekki átt samskipti við hann og ákvað því að koma hreint fram og segja mínum yfirmönnum frá því sem gerst hefði fyrir öllum þessum árum, ég vildi að þeir vissu af hverju ég gæti ekki hugsað mér að vera nálægt þessum manni, ég vildi að þeir vissu af hverju ég drægi mig í hlé og vonaði að þeir myndu sýna mér skilning með að fara útaf skrifstofunni þegar þessi maður kæmi. Viðbrögð bræðranna voru vægast sagt önnur en ég átti von á. Jú, vissulega á maðurinn erindi í mína vinnu vinnu sinnar vegna en að ég drægi mig í hlé kom ekki til greina af bræðranna hálfu. Eftir að hafa hlustað á það sem ég hafði að segja var afstaða þeirra skýr; mér á ekki að líða illa í vinnunni minni. Punktur. Næst þegar maðurinn kom töluðu þeir við hann, skýrðu honum frá því að þeir vissu hvernig hann hefði hagað sér gagnvart mér og að hann væri ekki velkominn uppá skrifstofu. Maðurinn þrætti ekki fyrir, sagðist skilja þetta. Bræðurnir gengu síðan skrefi lengra og fjarlægðu símalista starfsmanna sem annars hafði hangið uppá vegg í vinnuaðstöðunni niðri. 

Nú þegar #metoo skrapar hrúðrið ofan af sárum kvenna í áranna rás, kynferðislegri áreitni af óþrjótandi toga, þá er vert að hafa í huga að þrátt fyrir að all flestar konur hafi sögu að segja þá erum við ekki að segja að allir menn séu skúrkar, við erum að segja að við ætlum ekki lengur að "taka því" að svona sé komið fram við okkur. Punktur. Og sem betur fer er haugur af karlmönnum, eins og t.d. þeim Melabræðrum, sem taka því ekki heldur. Punktur.