fimmtudagur, 6. desember 2012

Tímamisminni

"Ertu vöknuð?" hvíslaði sá myndarlegi út í svefnherbergisloftið. "Já" hvíslaði ég á móti.
Lágum þétt upp við hvort annað og töluðum um drauma, tímamismun, ferðina okkar, jólin, tilfinningar, hamingjuna og allt og allt, margt og lítið, mikið og smátt alveg þar til vekjaraklukkan hringdi. Snúsuðum í þrígang þrátt fyrir að vera löngu vöknuð. 

Svona getur nú verið skemmtilegt að jafna sig á tímamismun.

þriðjudagur, 4. desember 2012

Ástfangin af mat, lakkrís og myndarlegum manni

Skar niður beikon og sveppi og steikti á pönnu meðan sá myndarlegi útbjó hvítlauksolíu fyrir konuna sína. Mallaði saman rjóma og gráðaost  og lagði á borð. Sauð ostafyllt tortelini og dansaði við þann myndarlega í takt við kínverska djassinn sem við keyptum í Hong Kong. Bætti niðurskornum perum og salthnetum út í réttinn rétt í lokinn og kveikti á kertum. Pipraði og kyssti svo karlinn beint á munninn


Torguðum ekki nema ríflega helmingnum af þessari saðsömu dásemd. Arkaði svo með belginn fullan niður í bæ að kaupa lakkrís af tónskáldi. Nýbúin að kaupa lakkrís af gamalli skólasystur sem er reyndar ekkert svo gömul.

Svona þykir mér gott að lifa.

sunnudagur, 2. desember 2012

Heimsálfa á milli

Meðan veturinn lék sér að landanum með lemjandi roki og beljandi snjó spókuðum við myndarlegi okkur á stuttbuxum í sól og hita í Hong Kong. Ástralía tók vinalega á móti okkur með veðri eins og það gerist best á íslensku sumri. Í Singapore bugaði raki og hiti okkur svo mjög að við hugsuðum hlýlega til þess að koma heim til kalda Íslands.

Hvað gera svo tvö flón sem hafa ekki enn náð að jafna tímamismun Asíu og Norðurhvels og vakna kl. sex á sunnudagsmorgni? Jú, auðvitað baka þau smákökur