Þegar ég segi fyrir allar aldir þá á ég við að ég hellti upp á kaffið fyrir sjö. Áður en ég hellti upp á kaffið var ég búin að klára bókina sem ég var að lesa og vaska upp frá kvöldinu áður sem ég nennti ekki að gera áður en ég fór að sofa í gær. Sveigja í trjágreinum, gulur og rauður dans blóma, grænt regnvott grasið, fuglasöngur og regndropatif. Kyrrlátt og fallegt. Hefði samt viljað sofa lengur.
Þrátt fyrir að vera komin með nefið á kaf í aðra bók reif ég mig á lappir og í leppa. Arkaði í galíslensku sumarveðri úr Norðurmýri í Laugardalinn. Dettur ekki til hugar að skrifa það upphátt hvenær ég fór síðast í sund en þar sem ég stóð í sturtunni í Laugardalslauginni, og var við það að klæða mig í sundbolinn, tók ég eftir hvað hann var orðinn togaður og teygður, gegnsær á ýmsum stöðum jafnvel. Ákvað þó að skella mér í hann enda gegnsæið ekki á neinum velsæmismörkum, rétt svona á hliðunum.
Mér hefur alltaf þótt gott að synda, sér í lagi í rigningu. Nýt þess að kljúfa vatnið í sundtökum og heyra regndropa sameinast klórvatninu í lauginni. Tæmi hugann. Synti í 20 mínútur. Þegar ég hífði mig upp stigann úr lauginni tók ég eftir því að hálft hægra brjóstið sperrti sig út úr sundbolnum. Á ekki von á því að fara neitt í sund á næstunni.
Ástæðan er þó ekki spéhræðsla enda þjáist ég ekkert sérstaklega af henni. Ástæðan eru aukaverkanir af lyfjameðferðinni. Það er ekkert sérlega heillandi að svamla um í sundlaug og finna doða og stingi í höndum og fótum né að arka heim á stirðum fótum og sársaukastingjum í hverju skrefi.
Heim komin henti ég sundbolnum og nú legg ég aldeilis ekki meira á ykkur. Að sinni.