"Ég heiti Katla. Ég er 49 ára gömul, ógift, barnlaus og byrjaði í nýju starfi í morgun. Þetta eru staðreyndir um líf mitt akkúrat þessa stundina. Ég er bókhneigð, tilfinningarík, uprreisnar- og ævintýragjörn. Ég hef oft og ítrekað fundið fyrir þrýstingi frá fjölskyldu, vinum og samfélaginu um hvernig ég eigi að haga mínu lífi og hvaða kökuform ég eigi að troða mér í. Það sem er svo skemmtilegt við að læra af því að lifa er að öðlast þor til þess að vera maður sjálfur og stjórna eigin för. Mitt svar við spurningunni hver er ég? er einfalt, ég er hver sú sem ég kýs að vera hverju sinni eins og mér einni hentar. Takk fyrir."
Fyrir þennan óundirbúna og uppdiktaða ræðustúf á staðnum í Masterklasstíma í kvöld áskotnuðust mér skemmtileg verðlaun sem var ekki hvað síst ánægjulegt fyrir þær sakir að ég var ekki búin að átta mig á því að tveir nemendur voru í dómarastellingum og að verðlaun væru í boði. Hnitmiðað og snarpt, fumlaus og öruggur flutningur held ég svei mér þá að hafi verið taldir kostir þessa búts og nú legg ég hreint ekki meira á ykkur hlustendur góðir. Takk fyrir.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli