miðvikudagur, 30. maí 2012

Sunnudaginn fyrir hvítasunnu

hjálpaði ég systur minni að flytja. Bar marga kassa og troðfylltar töskur. Ferð eftir ferð eftir ferð eftir ferð. Ofan af 4. hæð niður á plan. Tómhent ofan af plani upp á 4. hæð aftur. Engin lyfta. Ég kjagaði í heila viku á eftir vegna verkja í kálfum. En, ég fékk laun og þau ekki lítil. Bogga systir gaf mér gamla vasann hennar ömmu BogguSíðasta sunnudag, sem reyndist vera mánudagur, sló ég Túnblettinn í fyrsta sinn. Fyrsti sláttur sumars var ekki létt verk. Merkilegt hvað einn blettur getur gengið í bylgjum og dældum þegar rennt er yfir hann sláttuvél. Verkjar í lófana og fékk engin laun*. Ætlaði að ræða það við þann myndarlega hvort það væri ekki orðið tímabært að helluleggja bévítans garðinn, en fékk það ekki af mér þar sem hann stóð og starði brostnum augum á kuldabarða rifsberjahengluna. Ojæja.

*Allar athugasemdir um laun erfiðisins eru vinsamlega afþakkaðar.

þriðjudagur, 15. maí 2012

Áður en ég hóf lestur

á þeirri frönsku gleypti ég þessa í migÞegar ég segi gleypti þá meina ég gleypti. Ef ég hefði ekki neyðst til að mæta í vinnuna hefði ég lesið hana í einum rykk. Spyrjið þann myndarlega ef þið trúið mér ekki.

Nú er stóra spurningin hvort ég eigi að nenna að sjá myndina, vitandi það að myndirnar ná aldrei að verða jafn góðar og bækurnar, því ekki bara finnst mér bókin góð heldur stórgóð. Eru e-r lesendur hér sem hafa lesið bókina og séð myndina? Er myndin góð eða stórgóð?

Þýðir ekkert að spyrja þann myndarlega um það.

mánudagur, 14. maí 2012

Einhenti mér í

brauðbakstur og súpugerð eftir vinnu meðan norðangarrinn blés og stundi. Sá myndarlegi stundi með alvörugefnum svip yfir meðferð garrans á garðinum. Þegar dramatíkin stóð sem hæst og sá myndarlegi lýsti því yfir að allar plönturnar, grasið, tréin og snúrustaurinn væru dauð, fannst mér tilvalið að grafa upp þá hugmynd mína að helluleggja bara bévítans garðinn. Sá myndarlegi grét þurrum tárum yfir rifsberjarunnunum. Útlýsti með rámri röddu að sultukrukkurnar yrðu líklegast tómar í ár. Ég tuldraði því bara ofan í súpuna þetta með tennisvöllinn og barði hugmyndina um sundlaugina ofan í deigið.

Ojæja, ég er allavega fegin að ég fór í lopapeysu í vinnuna í morgun.

sunnudagur, 13. maí 2012

Hvað er líkt með karlmönnum og svínum?

"Bæði lykta og éta allt sem að kjafti kemur" heyrði ég barnsrödd segja í hverfisbúðinni í dag. Sneri mér við og sá stúlku á að giska 9 ára þylja þessa speki fyrir yngri bróðir af gjafakorti sem væntanlega eru til sölu í versluninni.

Fyrr um daginn las ég þessa færslu sem gladdi mitt litla hjarta. Mig skortir nefnilega þennan húmor fyrir mismun kynjanna. Eða nei, ég er gersneydd þessum húmor fyrir mismun kynjanna, skortir hann ekki rassgat og langar ekki vitund í hann.

Þannig er það.

laugardagur, 12. maí 2012

Hnýtti á mig gönguskónna

og brunaði upp í hlíðar Breiðholts. Lagði bílnum á planinu við æskuheimili mitt, labbaði yfir götuna og var komin í Elliðaárdalinn.
Arkaði niður löngu brekkuna sem ég var vön að renna niður á hjólaskautunum frá ömmu.Þræddi krákustígana milli trjánna niður að stíflu. Ætlaði að labba framhjá húsinu þar sem eini strákurinn sem ég hef trúlofast bjó í, en húsið var horfið. Hlustaði á regnið og fuglana tísta á leið minni aftur upp í hverfið.
Labbaði framhjá kirkjunni sem ég fermdist í, blokkinni sem ég bjó í til 6 ára aldurs, búðinni sem ég fór svo oft með ömmu í, engin búð þar lengur. Labbaði framhjá blokkinni sem amma bjó í, framhjá sjoppunni sem núna er take-away staður, fór inn í gamla bakaríið og komst að því að þar er enn hægt að fá skeljar.
Labbaði framhjá blokkinni þar sem ég bjó ein í fyrsta skipti, Ritu sem er enn á sínum stað, að gamla skólanum mínum.
Þræddi gömlu skólaleiðina mína aftur heim, framhjá Leiknisvellinum, sundlauginni, FB, hinni sjoppunni sem enn er sjoppa, bílskúrnum sem Sálin Hans Jóns Míns æfði í til margra ára, grindverkinu sem ég sat á þegar ég kyssti strák í allra fyrsta sinn, skammtímavistuninni sem ég vann í.
Staldraði við hjá húsinu sem ég bjó í í næstum tuttugu ár. Hverfið mitt. Samt ekki.

Eina hugsunin sem ég raunverluega náði utan um var þessi myndarlegi maður sem ég sakna og hlakka til að fá heim á morgun.

Fór í freyðibað í gærkvöldEkkert merkilegt í sjálfu sér, nema ég fór að hugsa um hvað ég ætti nú að hafast við, verandi næstum ein heima með heila helgi framundan. Var hreint ekki viss um hvað mig langaði til að gera. Datt svo sem ýmislegt í hug en e-a hluta vegna virkuðu hugmyndirnar ekki jafn spennandi þegar enginn var myndarlegi maðurinn til að deila þeim með.

Í Skaftahlíðinni nostraði ég við matargerð handa mér einni og fannst unaðslegt að japla á góðum mat í takt við góða tónlist sem ómaði fyrir mín eyru ein. í gærkvöld nostraði ég við maríneraðan lax og hlustaði á góða tónlist, naut þess að borða og dilla mér með músíkinni. Það var bara ekki eins. Fór að hugsa um hvað hefði orðið um mig sem vildi vera ein, elskaði að ráðstafa mínum eigin tíma, fílaði í botn allt rýmið sem fór undir mig og kringum mig og bara mig.

Er búin að drekka morgunkaffið ein, borða morgunmatinn í rúminu, lesa blogg og glugga í Frönsku Svítuna með köttinn malandi til fóta. Veit ekki enn hvað mig langar að gera í dag enda enn á náttkjólnum. Hef það í rauninni súpufínt en sakna samt þess myndarlega.

Það er líka margt vitlausara en að sakna, t.d. að hengja út þvottinn í rigningu eins og nágranninn er búinn að gera. Ætli hann þorni ekki samt á endanum, svona e-n þegar styttir upp. Heldur ekki svo slæmt að sakna þegar maður elskar.

sunnudagur, 6. maí 2012

Í gærkveldi

umlaði veisluþreytti maðurinn minn að við ættum kannski að þvo rúmfötin og hengja þau til þerris í brakandi blíðunni. Við áttum þó ekki von á þessu í morgunsárinuVerður spennandi að sjá hverjum hefur dottið í hug að hengja þvottinn sinn til þerris í trjánum okkar, steinsnar frá snúrunum.

Nema þetta séu nýútsprungin blóm?

þriðjudagur, 1. maí 2012

Síðan tilfinningin kom yfir mig hef ég

 • farið í rómantíska ferð með ástinni minni og keypt mér rauða húfu
 • farið í göngutúr með hund og heilsað upp á geitina Elvis
 • kíkt á gluggana í rjómabúi og labbað að vita
 • heimsótt kæra bloggvinkonu og Húsið á Eyrarbakka
 • farið fleiri ferðir í Húsasmiðjuna en ég kæri mig um að muna
 • fylgst með þeim myndarlega mála stofurnar og íhugað að bjóða fram krafta mína
 • horft á systurdóttur mína dansa í Borgarleikhúsinu
 • farið í appelsínugulu hælaskóna mína af því dagatalið sagði að sumarið væri komið
 • vafið treflinum þéttar um hálsinn á mér því það er ennþá bara vor
 • mótmælt mannréttindabrotum í Kína
 • séð þunglynda dramatík og stúlku gráta í leikhúsinu eftir stórleik allra leikarana
 • lesið bækur jafn mikið og ég hef verið löt (eða öfugt)
 • farið á Laxness tónleika og sænskan Laxnes í bíó
 • keypt nýju ljóðabókina hans Braga
 • bakað sömu súkkulaðikökuna tvisvar
 • farið aftur í leikhús og botnað hvorki upp né niður í verkinu
 • leyft tilfinningum að leiða mig

Í dag fórum við eina ferðina enn í Húsasmiðjuna, helltum upp á ósköpin öll af kaffi fyrir gesti og gest og fylgdumst með veröndinni hverfa.

Ef vinnuvikurnar hefðu ekki verið svona stuttar undanfarið veit ég hreint ekki hvort ég hefði haft tíma til að vinna.