sunnudagur, 23. september 2018

Næstum því

Daney, systurdóttir mín, var að kveðja. Sunna systir hennar kom að sækja hana. Við myndarlegi gengum aðeins frá og núna er hann farinn í rúmið. Ég sit og klára dreggjar kvöldsins. 

Meðan sá myndarlegi fór og setti upp innréttingu og vask fyrir dóttur sína og fór í Húsasmiðjuna með sætasta afabarnið og gaf henni pylsu labbaði ég í búðir í blíðunni; mjólkurbúðina, blómabúðina og matvörubúðina. Kláraði bók eftir Gorkí og byrjaði á bók eftir Oksanen.

Skar niður sætar kartöflur, sem litu út eins og skúlptúrar, og steikti í ólafíuolíu. Dembi Mangókarríkryddi yfir og bætti svo um betur með hvítlauk, engifer og rauðlauk. Reytti blómkálshöfuð ofan í matvinnsluvél og sperrti maskínuna þar til kálið leit út eins og grjón. Smellti vænni gúmmu af rauðu karrípeisti útí pottinn þar sem allt snarkaði og mallaði og bætti um betur með dós af kjúklingabaunum (ásamt safa) og eitthvað af soðnu vatni.

Meðan allt af ofantöldu (eða allavega eitthvað af ofantöldu) mallaði í potti lagði ég á borð, henti afskornum blómkálsstilkum útí bubblandi pottinn, skar niður lime, hentist upp í svefnherbergi og skipti um bol, þaut niður tröppurnar og inní betri stofuna þar sem ég sótti flösku af ljósu rommi, hljóp aftur upp stigann, bætti á svitalyktareyðinn og leit í spegil, ákvað að setja á mig maskara þrátt fyrir að kvöldið ætti að vera "afslappað".

Bað eiginmanninn, sem sat í betri stofunni og þóttist lesa blað, að deila í kokteil sem átti að vera fyrir 12 í drykk fyrir þrjá! Sá myndarlegi greiddi snöfurmannlega úr því og þar sem ég stóð og íhugaði fjandakornið ekkert hringdi dyrabjallan!

Daney var mætt og dregin inn. Skar 2 lime í báta, sótti 12 myntulauf útí pott á veröndinni, mældi 3 matskeiðar af sykurlausn úr ískápnum útí og viti menn, dyrabjallan hringdi aftur!

Arna, besta vinkona mín í öllum geiminum, var mætt og dregin inn og skálað var og etið og drukkið og hlustað á tónlist og allt það nema hvað, Arna reykir Cigill (mín tegund) og þar sem hún er rétt nýhorfin út á verönd opnar hún verandarhurðina og kallar; norðurljós, komið þið og sjáið norðurljósin! Nema við sem sátum inni nenntum ekki alveg á lappir og Arna öskraði; Hvað er að ykkur?! Svo ég stökk á fætur og litadýrðin sem mætti mér, sindrandi græn-gul og fjólublá og ég öskraði á þann myndarlega og Daney að koma út því þessi dýrð væri einstök!!

Og Daney stóð fyrir aftan mig og sá myndarlegi mundaði myndavélina uppí loftið og svo aftur uppí loftið og hvað eina sem honum datt í hug! Nema, svo hættu bara norðurljósin, og við Daney settumst við borðið, og brostum til hvor annarar.